11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

54. mál, hafnalög

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 64 frv. til l. um breyt. á hafnalögum. Efni frv. er, að inn í 4. gr. nefndra laga verði framkvæmdir, ti1 varnar mengun sjávar í höfnum landsins tilgreindar sem styrkhæfar úr ríkissjóði eins og aðrar hafnarframkvæmdir, sem þar eru taldar upp. Mengun sjávar er vaxandi vandamál víða um heim, eins og kunnugt er og þó að Íslendingar séu e.t.v. enn sem komið er betur settir í þeim efnum en margar þjóðir aðrar, hlýtur það að teljast sjálfsagt, að ráðstafanir séu gerðar til þess að forðast hugsanlegt tjón, sem af mengun sjávar getur stafað. Ég hygg, að það liggi ljóst fyrir, að mengun sjávar við strendur landsins er mest áberandi inni í höfnunum sjálfum. Stafar þetta af því, að í mjög mörgum tilfellum er frárennsli frá fiskiðjuverum og lýsis— og mjölverksmiðjum látið renna út í höfnina. Auk þess hagar víða svo til, að frárennslið, sem fer í gegnum holræsakerfi viðkomandi byggðarlaga, er einnig oft að mestu látið renna í höfnina. Veldur þetta óhóflegri og óviðunandi mengun sjávar í allt of mörgum höfnum landsins. Og þegar þess er gætt, að í flestum höfnum á sér stað meiri eða minni löndun fisks og allt of víða er það svo, að ekki er aðstaða til að ná í ferskt vatn eða hreinan sjó til að hreinsa fiskibátana, þegar aflanum hefur verið landað, þá freistast menn til að nota hinn mengaða sjó úr höfninni, sem allir geta verið sammála um, að ekki má eiga sér stað og ekki er í neinu samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru um aukið hreinlæti í sambandi við vinnslu sjávarafurða. Ég tel því, að augljóst sé, að ráða verði bót á þessu ástandi, enda alveg sjálfsagt, að Íslendingar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að firra sig öllum hugsanlegum aðfinnslum í sambandi við þessa helztu útflutningsframleiðslu sína.

Sums staðar kunna framkvæmdir til varnar mengun sjávar í höfnum að vera litlum vandkvæðum bundnar, en annars staðar getur orðið um allfjárfrekar framkvæmdir að ræða og í sumum stærri fiskihöfnum landsins mun aðstaða vera þannig, að ekki er annað ráð fyrir hendi en að safna öllu frárennsli, sem í höfnina hefði annars farið, í eina þró og dæla því síðan út fyrir hafnarsvæðið, þangað sem talið er, að það valdi sem minnstu tjóni. Einhverjir kunna að segja, að þeir, sem hafnamálum hafi ráðið, bæði heima í héraði og af hendi ríkisvaldsins, hefðu átt að sjá fyrir, hvert stefndi í þessum efnum. Ég vil engan ásaka í þessu sambandi. Hér er um að ræða þróun, sem menn sáu ekki fyrir, hvert stefndi og gerðu sér ekki grein fyrir, að valdið gæti erfiðleikum eða tjóni í sambandi við framleiðslu sjávarafurða. En þegar þetta nú liggur augljóslega fyrir, er að mínum dómi ekki um annað að ræða en ráða bót á þessu eftir þeim leiðum, sem tiltækar eru og tel ég, að ef framkvæmdir til varnar mengun sjávar í höfnum landsins verða gerðar styrkhæfar úr ríkissjóði eins og aðrar hafnarframkvæmdir, þá leggi það sveitarstjórnarmönnum nokkrar skyldur á herðar og verði þeim hvatning til úrbóta í þessum efnum. Af þeirri ástæðu er frv. það, sem hér liggur fyrir, flutt og tel ég, að það, sem stefna beri að í þessum efnum, séu hreinar hafnir með ómenguðum sjó.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.