04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

62. mál, fiskiðnskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. nr. 62 frv. til 1. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Eins og segir í grg. með frv. er mikill áhugi ríkjandi í Eyjum fyrir því, að þar verði stofnaður fiskiðnskóli. Málið hefur verið rætt þar að undanförnu, bæði í bæjarstjórn og hjá ýmsum félagasamtökum og hafa þegar bæði stofnanir og einstaklingar gefið allverulegt fé til kaupa á nauðsynlegum tækjum og áhöldum til þess að koma skólanum á fót. Ég tel, að engan þurfi að undra, þótt Vestmanneyingar sæki það fast, að stofnaður verði þar fiskiðnskóli og það þegar á næsta hausti, hvað sem líður stofnun slíks skóla annars staðar á landinu og þeir telja, að mikilvæg rök mæli með því, að fyrsti fiskiðnskólinn, sem stofnað verður til hér á landi, verði þar staðsettur.

Um áratugabil hafa verið meiri umsvif í útgerð og fiskiðnaði í Vestmannaeyjum heldur en nokkurri annarri útgerðarstöð hér á landi. Útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Eyjum nam árið 1969 rúmlega 920 millj. kr. og mun í ár verða eitthvað yfir 1 milljarður kr. Fiskvinnsla er þar samfelld allt árið og munu fiskiðjuverin þar fá til úrvinnslu allar tegundir nytjafiska, sem þekkjast hér á landi og verður því fiskiðnaður eins fjölbreyttur í Vestmannaeyjum og hann getur orðið hér á landi. Nú eru staðsett 5 frystihús í Eyjum og eru 4 þeirra í hópi hinna stærstu og bezt útbúnu hraðfrystihúsa á landinu. Auk þess eru þar mjög vel búnar saltfiskvinnslustöðvar og þurrkhús fyrir saltfiskverkun, tvær stórar síldar– og fiskimjölsverksmiðjur eru þar einnig staðsettar og mjög vel útbúin vinnslustöð til framleiðslu á lýsi úr lifur, niðursuðuverksmiðja og síldarsöltunarstöðvar. Af þessu má sjá, að þar er aðstaða til framleiðslu allra tegunda sjávarafurða, sem Íslendingar framleiða til sölu á erlendum markaði.

Vestmanneyingar hafa fyrir löngu gert sér það ljóst, að aukin þekking og menntun í sambandi við fiskveiðarnar og fiskiðnaðinn er höfuðnauðsyn og þeir hafa sýnt það í verki. Þar er nú starfandi stýrimannaskóli, sem útskrifar skipstjórnarmenn með sömu réttindum til skipstjórnar á fiskiskipum af hvaða stærð sem er og stýrimannaskólinn hér í Reykjavík. Þar er einnig starfandi vélskóli, sem veitir full réttindi 1. ag 2. stigs vélskólanámsins, eins og lög um vélskólanám gera ráð fyrir. Matsveinanámskeið hafa einnig verið starfrækt þar undanfarin ár og veita þau tiltekin réttindi lögum samkv.

Af þessu sést, að í Vestmannaeyjum er þegar orðin aðstaða fyrir þá, sem vilja afla sér fullkominnar menntunar og réttinda í sambandi við fiskveiðarnar og verður að telja það vel farið, og meta Vestmanneyingar þá aðstoð og fyrirgreiðslu, sem Alþ. og stjórnarvöld hafa veitt í því sambandi. Hins vegar er ekki þar frekar en annars staðar hér á landi nein aðstaða fyrir þá, sem vilja afla sér aukinnar þekkingar og menntunar og einhverra réttinda í sambandi við fiskiðnaðinn og telja Vestmanneyingar, að við svo búið verði ekki unað lengur. Alveg sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af hinum auknu kröfum, sem gerðar eru í sambandi við meðferð og vinnslu sjávarafurða.

Alþ. hefur á undanförnum árum samþ. stofnun og starfrækslu menntaskóla í öllum landsfjórðungum. Vestmanneyingar hafa litið haft sig í frammi í því sambandi, heldur sætt sig við enn sem komið er, að nemendur þaðan, sem æðri menntun vilja hljóta á því sviði, afli sér hennar í einhverjum þeirra menntaskóla, sem þegar hefur verið komið á fót. Hins vegar hafa þeir beitt sér fyrir að skapa aðstöðu til aukinnar fræðslu og menntunar í sambandi við aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, en ekki einasta fyrir íbúa byggðarlagsins, heldur einnig fyrir aðra landsmenn, sem þangað vilja sækja og hafa Vestmanneyingar sjálfir lagt af mörkum verulegt fé til að skapa þessa aðstöðu.

Ég hef hér áður minnzt á tvær stofnanir í þessu sambandi, þ.e. stýrimannaskólann og vélstjóraskólann. Báðar eru þessar stofnanir orðnar fastmótaðar og vaxandi og sækja þangað nemendur hvaðanæva af landinu. Fyrir báðar þessar stofnanir hafa valizt til forustu vel menntaðir menn og hæfir til starfa auk ágætra kennslukrafta, enda hefur árangur af báðum þessum stofnunum orðið ágætur. En eins og áður er sagt, veita þessar stofnanir einvörðungu fræðslu og menntun í sambandi við fiskveiðarnar, en ekki úrvinnslu þess afla, sem í land kemur. Það hve vel hefur tekizt til með þessar stofnanir, hefur mjög orðið til þess að auka áhuga Vestmanneyinga fyrir stofnun fiskiðnskóla og telja þeir, að þegar hann er orðinn að veruleika, sé orðinn fastmótaður grundvöllur fyrir stofnun, sem veitt geti alhliða fræðslu og menntun jafnt þeim, sem fiskveiðarnar stunda og fyrir þá, sem að úrvinnslu aflans vinna í landi og gera hann að söluhæfri framleiðslu á erlendum markaði. Að þessu marki stefna Vestmanneyingar ákveðið og telja því ekki náð, fyrr en fiskiðnskóla hefur þar einnig verið komið á fót. Hníga einnig öll rök að því, að með þessu móti mætti koma við nokkrum fjárhagslegum sparnaði í sambandi við húsnæði og kennslu í bóklegum fræðum.

Þá er komið að þeim rökum, sem ég tel vera fyrir hendi fyrir því, að hinn fyrsti fiskiðnskóli, sem stofnað verði til hér á landi, verði staðsettur í Vestmannaeyjum, en þau eru þessi helzt. Eins og áður hefur verið á bent, eru meiri og fjölbreyttari umsvif í fiskiðnaði í Vestmannaeyjum en á nokkrum öðrum stað hér á landi öðrum. Þar á sér stað samfelld vinnsla sjávarafurða allt árið í öllum greinum fiskiðnaðar og aðstaða er þar fyrir hendi til verklegrar kennslu í öllum greinum úrvinnslu sjávarafurða og því er alveg ástæðulaust að ráðast í mjög kostnaðarsama byggingu til verklegrar kennslu nema þá á síðara stigi, ef það þykir þá henta. Þar er mjög góð aðstaða til bóklegrar kennslu, hvort heldur væri í iðnskólabyggingunni eða öðru búsnæði, sem fyrir hendi er og aðstaða til heimavistar er þar einnig, ef óskað er. Í athugun er hjá forustumönnum fiskiðnaðarins að koma upp í Eyjum fullkominni rannsóknarstofu, sem þá mundi starfa í nánum tengslum við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Reykjavík. Og þó að af því yrði ekki, er ég alveg sannfærður um, að Vestmanneyingar mundu nokkuð vilja á sig leggja til að koma upp fullkominni rannsóknarstofu fyrir fyrirhugaðan fiskiðnskóla. Og að lokum vil ég benda á, að málið hefur verið mjög mikið rætt í Eyjum að undanförnu og stofnun skólans nokkuð undirbúin með fjárframlögum og öðru og tel ég ekkert að vanbúnaði, að skólinn gæti tekið til starfa þegar á næsta hausti, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþykkt. Þá vil ég einnig benda á og undirstrika, að sem betur fer á sú skoðun vaxandi fylgi að fagna hér á hinu háa Alþ., að þær menntastofnanir, sem með eðlilegum hætti verði við komið, skuli frekar staðsettar úti á landsbyggðinni heldur en í höfuðstað landsins eða á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa og mönnum er almennt að verða það ljóst, að þetta er eitt af grundvallaratriðum í sambandi við hugmyndina um jafnvægi í byggð landsins.

Að lokum vil ég benda á það, sem fram kemur í grg. með frv., að í öllum athugunum um stofnun fiskiðnskóla hér á landi hefur mjög verið stuðzt við upplýsingar, sem fengizt hafa um fiskiðnskólann í Vardö í Noregi. En skóli þessi er einmitt staðsettur á eyju norðarlega við Noreg, þar sem búa 4.000 manns. Allir, sem til þekkja, munu vita og viðurkenna, að þessi skóli hefur þegar sannað tilverurétt sinn og staðsetning hans langt utan þéttbýlissvæðanna í Noregi hefur síður en svo orðið honum fjötur um fót og gæti því staðsetning fyrsta íslenzka fiskiðnskólans í Vestmannaeyjum talizt mjög eðlileg og mjög sambærileg staðsetning og átti sér stað með fyrsta fiskiðnskólann í Noregi, sem staðsettur var í Vardö, eins og ég hef áður greint frá.

Mér þykir rétt, áður en lengra er haldið, að gera nokkra grein fyrir efni þess frv., sem ég flyt hér.

I. kafli frv. er um markmið skólans og hvaða réttindi hann veitir að afloknu námi og vil ég í því sambandi vísa til l., 2, og 3. gr. frv.

II. kafli frv. er um skipulagsatriði og er þar gert ráð fyrir, að ráðh. skipi þriggja manna skólanefnd til fjögurra ára í senn og skuli einn tilnefndur af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, einn tilnefndur af bæjarstjórn Vestmannaeyja og einn skipaður af ráðh. og skal hann vera formaður nefndarinnar. Gera verður ráð fyrir, að þeir aðilar, sem skipaðir kunna að verða í skólanefndina, hafi nokkra sérþekkingu á hinum ýmsu greinum fiskiðnaðarins.

III. kafli frv. er um skólatíma, inntökuskilyrði og námsefni. Gert er ráð fyrir, að skólatíminu verði 3 ár, bóklegt nám fyrstu tvö árin á tímabilinu frá 1. sept. til 31. marz eða samanlagt 14 mánuðir, en verklegt nám á tímabilinu 1. apríl til 31. júli og auk þess verkleg þjálfun í 12 mánuði að námi loknu og gætu þá nemendur sérhæft sig í þeirri grein eða greinum, sem þeir helzt vildu sérhæfa sig í.

8. og 9. gr. fjalla um námsefni, bóklegt og verklegt og er þar stuðzt í aðalatriðum við ábendingu þeirrar nefndar, sem á sínum tíma var skipuð til að gera tillögur um stofnun fiskiðnskóla hér á landi og mun hún hafa byggt tillögur sínar á upplýsingum um námsefni fiskiðnskólans í Vardö í Noregi. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir, að á árunum 1971–1972 skuli haldin þriggja mánaða námskeið fyrir starfandi verkstjórnarmenn í fiskiðnaðinum, þar sem þeim verði veitt aukin fræðsla í sambandi við starf þeirra. Er þetta ákvæði sett inn til þess að veita þeim verkstjórnarmönnum, sem ekki treysta sér til skólagöngu, aukna fræðslu í starfi þeirra, þeim og fiskiðnaðinum í heild til styrktar.

Ég hafði grg. með frv. allítarlega og sé því ekki ástæðu til lengri framsögu. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, leyfa mér að benda á, að Vestmanneyingar hafa á undanförnum áratugum haft forgöngu um ýmis málefni til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Má í því sambandi benda á Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, sem stofnað var á árinu 1862 og er elzta innlenda vátryggingarfélag sinnar tegundar. Þá má benda á Björgunarfélag Vestmannaeyja, sem nú er rúmlega hálfrar aldar gamalt og var á sínum tíma upphaf skipulagðrar björgunarstarfsemi hér á landi og einnig upphaf landhelgisgæzlunnar, því að björgunarskip þess, Þór, var vopnum búið, meðan það enn var í eigu félagsins og varði suðurströnd landsins fyrir ágengni erlendra fiskiskipa auk björgunarstarfsins. Þá má benda á Fisksölusamlag Vestmannaeyja, sem um árabil annaðist alla sölu fisks, sem fluttur var út frá Eyjum og var undanfari Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem síðar var stofnað til.

Öll eru þessi félög enn við lýði, þó að tvö hin síðarnefndu hafi vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu talið eðlilegra að gerast jafnhliða aðilar að þeim landssamtökum, sem síðar var stofnað til og sama markmið höfðu. Þá má benda á Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum sem fyrstu menntastofnun skipstjórnarmanna utan höfuðstaðarins. Ég tel þetta einnig nokkurn rökstuðning fyrir því, að fyrsti fiskiðnskólinn, sem stofnað verður til hér á landi, verði staðsettur í Vestmannaeyjum. Ég tel, að það mundi verða traust stofnun, sem lengi yrði við lýði og til gagns fyrir þjóðarheildina.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.