04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

62. mál, fiskiðnskóli í Vestmannaeyjum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef nú raunar ekki margt að segja um þetta mál og hef lítið út á að setja a.m.k. málflutning hv. flm., því að ég var honum í svo marga grein sammála, að það er engin ástæða til þess að fara að fetta fingur út í það, sem hann hafði að segja. En mig langar þó til þess að minna á það hér í þessu sambandi, að það er annað frv. um fiskiðnskóla, sem liggur hér fyrir hv. þd. og það var afgr. til sjútvn. nú fyrr á þessum fundi, að lokinni 1. umr. og nú gerir hv. flm. till. um, að þetta frv. fari til sömu n. og ég vil þá í því sambandi minna á það hér, sem ég hef áður gert í framsögu fyrir því frv., sem ég er flm. að ásamt hv. 2. þm. Reykn. Ég vil þá minna á það, að þessi frv. eru á margan hátt ákaflega lík og það er mikil nauðsyn á því að skoða þessi frv. saman og vega og meta í n., hvort ekki sé skynsamlegt að samræma þau, að svo miklu leyti sem þess kann að vera kostur, enda ber ekki mikið á milli um það, sem telja má höfuðatriði frv. Ég ætla ekki sem sagt að fara að halda hér neina langa ræðu um þetta efni, enda hef ég gert því skil áður nú í vikunni, þegar ég ræddi um frv. okkar hv. 2. þm. Reykn., en hins vegar var eitt og annað í ræðu hv. frsm. hér áðan, sem væri ástæða til þess að ræða, eða taka undir með honum, eins og t.d. þegar hann kemur inn á nauðsyn þess að dreifa skólastofnunum meira um landið heldur en gert hefur verið, og þar sem hann lagði réttilega áherzlu á, að þetta er ákaflega mikilvægt atriði í sambandi við það, sem við höfum kallað jafnvægi í byggð landsins og um eðlilega uppbyggingu landsbyggðarinnar, þá er ég honum vissulega mjög sammála um þetta og það mætti gjarnan ræða þessi mál meira hér á hv. Alþ. Ég vil þá jafnframt minna á það, að ég hef á undanförnum árum verið mikill talsmaður þessa máls og flutt um það sérstök þingmál oftar en einu sinni og ég má segja, að yfirleitt hafi þetta fengið góðar undirtektir, þetta málefni, m.a. hjá þessum hv. þm., sem ég veit að hefur tekið þátt í umr. um þetta áður fyrr og raunar síðar og ég vil líka taka undir það, að mér er það gleðiefni sem áhugamanni einmitt um þessi efni, að dreifa skólastofnunum. Mér er það ánægjuefni, að Vestmanneyingar hafa gerzt að mörgu leyti frumkvæðismenn í þessum efnum, m.a. með stofnun stýrimannaskólans og nú með þeim áhuga, sem þeir hafa sýnt á stofnun fiskiðnskóla þar. Vil ég á engan hátt gera lítið úr nauðsyn þeirrar stofnunar eins og hv. flm. þessa frv. gerir ráð fyrir, en vil þó enn minna í þessu sambandi á það frv., sem við flytjum, hv. 2. þm. Reykn. og ég. Ég vil minna á það í þessu sambandi, þegar þetta mál er til umr. og minna á, að rétt er að skoða þessi mál saman í sjútvn.