16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

71. mál, velferð aldraðra

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Heldur þótti mér það nú daufleg svör, sem hv. flm. gaf mér um það, hvernig hefði verið staðið að þessu máli áður en það var hér lagt fram í frumvarpsformi. Mér skildist helzt á ummælum hans, að Alþfl. hefði ekki reynt að koma þessu máli fram í gegnum ríkisstj., þannig að það yrði flutt sem stjfrv. Þannig hefur þá Alþfl. haldið á þeim málum, sem hann hefur lagt áherzlu á og þó er mér kunnugt um það af viðtölum við einstaka þm., að þeir telja sig mjög bundna af því, sem ákveðið er sameiginlega innan ríkisstj. Ef Alþfl. hefði í rauninni viljað koma þessu máli fram þannig, þá hefði hann lagt áherzlu á það, að ríkisstj. flytti það. Og ég á svolítið erfitt með að átta mig á því, þegar flm. stendur hér og segir, að ekkert hafi á það reynt, hver hafi verið afstaða Sjálfstfl. til þessa máls. Það finnst mér vera dálitið dularfull vinnubrögð meðan Alþfl. er í náinni stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl., að flm., sem telja sig hafa mikinn áhuga á þessu máli, skuli ekki einu sinni hafa kannað það, hvernig samstarfsflokkurinn lítur á mál eins og þetta. Og satt að segja, ef þetta er rétt, að þessir hv. fjórir flm. flytji málið án þess að ræða það við samstarfsflokk sinn, þá er nú stutt í þá ályktun, að þarna sé ekki á bak við sérstaklega mikil alvara.

Ég vék áðan að upphæðum tryggingabóta og í sjálfu sér eru þær náttúrlega aðalatriðið, þegar við ræðum um aðbúð og kjör gamals fólks á Íslandi. Það er aðalatriði, að þetta fólk hafi það rúm fjárráð, að það geti eitthvað leyft sér. En því fer ákaflega fjarri, að þetta sé svona. Og þarna hefur orðið, eins og ég sagði áðan, um mjög mikla afturför að ræða. Ég bar saman fyrir nokkrum dögum þessar greiðslur hér annars vegar og í Danmörku hins vegar. Og mér sýndist það láta mjög nærri, að það, sem við greiðum öldruðu fólki á Íslandi, sé u.þ.b. helmingur þess, sem Danir greiða öldruðu fólki hjá sér. Og þessar bætur eru svo herfilega lágar, að það gerðist t.d. í vetur, — ég vænti þess, að hv. þm. hafi tekið eftir því, — að örorkuþegi sendi bréf til Vísis og sagðist nýlega hafa orðið að fara til læknis og læknirinn sagði við hann: „Það, sem að þér er, er næringarskortur.“ Þessar upphæðir eru svo lágar, að hafi fólk ekki aðra aðstoð, þá er ekki hægt að draga fram lífið á þeim án þess að missa heilsuna. Og það er þetta, sem er það stóra vandamál, sem við okkur blasir, að svona ástandi megum við hreinlega ekki una. Og það alvarlega í þessu er það, að þetta ákvæði skuli ekki hafa verið bætt stig af stigi á undanförnum árum, heldur látið drabbast svona niður. Því það er miklu erfiðara að taka stórar stökkbreytingar í málum eins og þessum, í stað þess að vinna að þeim ötullega og jafnt og þétt. Þess vegna er ég ákaflega hræddur um það, að sú stofnun, sem flm. tala um að setja á laggirnar og eflaust gæti látið margt gott af sér leiða, ég er hræddur um, að hún verði til lítils á meðan fjárráðin, sem aldraða fólkið hefur, eru eins hrakleg og dæmin sanna. Og einmitt þess vegna hefði ég gert mér vonir um það, að hv. þm. Birgir Finnsson hefði svarað einhverjum af þeim fsp., sem ég beindi til hans um það, hvað liði þeirri endurskoðun, sem lofað hefur verið á starfsemi trygginganna og bótagreiðslum frá þeim. Ég spurði að því í lok ræðu minnar, hvað því starfi liði, hvenær mætti vænta þeirra tillagna. Og enn fremur um það, hvort þm. Alþfl. ætluðu þá að binda sig við það einvörðungu, sem þeir fengju samkomulag um við Sjálfstfl., án þess að láta á það reyna, hvort hægt væri að ná samstöðu hér á þingi um betri lausn. En þessu svaraði hv. þm. því miður ekki, hvernig sem á þeirri þögn stendur.