19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

4. mál, ríkisreikningurinn 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1968, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir síðasta þing, en náði þá ekki endanlegri afgreiðslu, þar eð það var mjög síðbúið. Ástæðan var sú, sem ég gerði þá grein fyrir, að gerbreyting varð á gerð ríkisreiknings í samræmi við hin nýju lög um ríkisreikning og fjárl., sem sett voru 1967. Olli þetta geysimikilli vinnu og skipulagsbreytingum í ríkisbókhaldinu, sem aftur leiddi til þess, að reikningurinn varð ekki tilbúinn í tæka tíð til endurskoðunar, þar eð yfirskoðunarmenn Alþ. töldu sér ekki fært að hefja endurskoðun reikningsins, fyrr en gengið væri endanlega frá honum, ekki sízt þar eð hann var í nýju formi.

Það var hins vegar frá því skýrt að gera mætti ráð fyrir því, að framvegis mundi þetta nýja skipulag leiða til þess, að ríkisreikningur yrði fyrr á ferð en venjulega. Og ég gat um það í fjárlagaræðu í haust, að ríkisreikningurinn 1969 hefði í rauninni verið tilbúinn um mitt þetta ár og raunar jafnvel fyrr, þó að ýmsar stofnanir hefðu ekki enn lagað sig að þessum nýju viðhorfum og viss vandamál væru óleyst, ekki sízt uppgjör skólakostnaðar. Þar sem það, greiðsluár eða rekstrarár skólanna fellur ekki saman við fjárhagsár ríkissjóðs eða almanaksárið, hefði það þó leitt til þess, að ekki hefði verið eins mikill hraði á endanlegum frágangi reikningsins fyrir árið 1969 og vonir höfðu staðið til. Engu að síður er sá reikningur tilbúinn fyrir alllöngu frá ríkisbókhaldinu, eins og hv. þm. var kunnugt, því að hann var lagður á borð þeirra strax í byrjun þessa þings og hefur síðan verið til athugunar hjá yfirskoðunarmönnum. Vonast ég til, að hann verði lagður fyrir þingið mjög fljótlega eða þegar eftir að yfirskoðunarmenn hafa gert aths. sínar og rn. svarað þeim aths. Þannig að sú seinkun, sem hefur orðið á reikningnum í þetta skipti, ætti að vera aðeins í eitt skipti vegna þeirra skipulagsbreytinga, sem ég gat um.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að rekja aths. yfirskoðunarmanna né heldur svör við þeim eða úrskurði yfirskoðunarmanna í einstökum atriðum, nema sérstakt tilefni gefist til, og mundi raunar telja heppilegast og eðlilegast, að það yrði gert, eftir að reikningurinn hefur verið til meðferðar í hv. fjhn. Reikningurinn hefur þegar verið samþ. frá hv. Ed. Ég vil vekja aðeins athygli á því, að það eru tvær aths. yfirskoðunarmanna, sem vísað er sérstaklega til aðgerða Alþ.

Annars vegar er það ágreiningur, sem orðið hefur milli ríkisendurskoðunarinnar og Bjargráðasjóðs varðandi uppsetningu á reikningum og sundurliðun reikninga hjá Bjargráðasjóði. Þetta er ekki veigamikið efnisatriði, en yfirskoðunarmenn hafa talið rétt, að fram kæmi sjónarmið Alþ. eða fjhn. á því, hvora aðferðina skyldi þar við hafa.

Hitt atriðið, sem vísað er til aðgerða Alþ., varðar úrskurði dómsmrn. um aths. yfirskoðunarmanna við fjármál húsameistaraembættisins, sem hér var nokkuð vikið að á síðasta þingi og þá frá því skýrt, að ríkisendurskoðunin hefði gert allmargar aths. við og sent viðkomandi rn., ýmist til fsp. eða úrskurðar. Hafi yfirskoðunarmenn lagt fram allmargar aths. eða fsp., en virðast — eftir þeirra niðurstöðu að dæma — ekki alls kostar ánægðir með þá úrskurði, sem fengizt hafa, og hafa því talið rétt að vísa þessu til aðgerða Alþ. Um þetta skal ég heldur ekkert segja. Það liggur fyrir í svörum dómsmrn., hvernig með málið hafi verið farið, og það er að sjálfsögðu þá Alþ. eða fjhn. að meta það, hvort nokkuð er við það að athuga. Að öðru leyti eru flestar till. til athugunar eftirleiðis, og í meginefnum hafa yfirskoðunarmenn fallizt á þau svör, sem gefin hafa verið, ýmist af fjmrn. eða viðkomandi rn.

Sé ég því ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist til, að vera að draga þessar umr. á langinn, með því að rekja þessi málsatvik í einstökum atriðum, enda vill nú svo til, að tveir hv. yfirskoðunarmanna eiga sæti hér í þessari hv. þd. og koma því þá væntanlega á framfæri, ef þeir hafa einhverjar sérstakar aths. eða sérstök atriði eru í aths. þeirra með reikningnum, sem þeir sjá ástæðu til þess að leggja sérstaka áherzlu á. Ég legg svo til, herra forseti, að reikningnum verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.