16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

78. mál, jarðræktarlög

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er nú tekið til umr., var lagt fram nú á þinginu fyrir nokkrum vikum síðan. Fyrsti flm. að þessu frv. var hv. þm. Magnús H. Gíslason, sem var hér um hálfs mánaðar skeið fyrir hv. þm. Björn Pálsson. Aðrir flm. með okkur að þessu frv. voru þeir hv. þm. Tómas Árnason og hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson. þetta frv. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„1. gr. Síðari málsgr. ákvæðis til bráðabirgða orðist svo:

Á tímabilinu 1971—1974, að báðum árunum meðtöldum, greiðir ríkissjóður fjárframlag til uppsetningar á súgþurrkunartækjum með mótor og blásara, er nemi að meðtöldum jarðræktarstyrk 1/3 kostnaðar eftir reglum, sem Búnaðarfélag Íslands setur. Sé um færanlega vél að ræða, skal styrkurinn miðast við hæfilega stóran rafmagnsmótor. Á sama tímabili skal veita styrk út á sláttutætara, 1/3 af kaupverði.

2. gr. Við ákvæði til bráðabirgða bætist:

Á tímabilinu 1971–1974, að báðum árum meðtöldum, skal greiða ríkisframlag vegna þeirra framkvæmda, sem taldar eru í stafliðum a., b, og c., svo sem hér segir:

a) Frumvinnsla lands vegna grænfóðursræktunar (sbr. 10. gr. III. a.) 2.400 kr. á ha.

b) Endurvinnsla túna vegna kals eða þýfis (sbr. 10. gr. III. e.) kr. 2.400 á ha.

c) Votheyshlöður úr varanlegu efni (sbr. 10. gr. VII. b.) kr. 180 á m3.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi, og greiðist framlag samkv. þeim á árinu 1971 vegna framkvæmda, sem þau taka til og gerðar eru á árinu 1970.“

Eins og fram kemur í þessum frumvarpsgreinum, þá er hér gert ráð fyrir tímabundnum framlögum, sem eru miðuð við að draga úr því mikla tjóni, sem bændur hafa orðið fyrir af völdum kalskemmda, og hamla gegn því, að jarðir fari í eyði af þeim sökum. Á meðan þekking okkar eykst ekki á orsökum gróðurdauðans og hvernig hægt er að koma í veg fyrir hann, verður ekki hjá því komizt að stórauka grænfóðursræktun og gera hana almennari, en það leiðir af sér, að auka þarf þá votheysgerð, a.m.k. þar til hraðþurrkun ryður sér til rúms, en rannsóknir á því sviði eru enn þá á frumstigi. Af þessum ástæðum leggjum við til, að þessi aukna aðstoð verði öll ákvæði til brb. Og þau eru, eins og áður segir:

1. Að það aukaframlag, sem verið hefur til að koma upp súgþurrkunartækjum, standi áfram óbreytt, en það átti að falla úr gildi á þessu ári.

2. Að styrkur verði veittur út á kaup á sláttutætara, 1/3 af kaupverði.

3. Styrkur á frumvinnslu lands vegna grænfóðursræktunar hækki úr 800 kr. í 2.400 kr.

4. Styrkur til endurvinnslu vegna kals eða þýfis hækki úr 1.225 kr. í 2.400 kr.

5. Styrkur til byggingar votheysgeymslna hækki úr 60 kr. á m3 í 180 kr. á m3.

Afkoma landbúnaðarins er flestu öðru fremur undir því komin, hversu til tekst með heimafengna fóðuröflun ár hvert. Sé unnt að afla nægs og góðs fóðurs, er það mikilsverðasta tryggingin fyrir sæmilegri afkomu bóndans, verði hann ekki fyrir áföllum annarrar tegundar. Bregðist hins vegar fóðuröflunin, er ávallt vá fyrir dyrum og hún því meiri og afdrifaríkari sem fleiri slík áföll ganga yfir hvert á fætur öðru.

Nú hefur það hent undanfarin ár, að grasspretta í túnum hefur að miklu leyti brugðizt í heilum landshlutum. Hefur víða svo rammt að því kveðið vegna kalskemmda, að gróður hefur með öllu horfið af stórum svæðum hins ræktaða lands. Sérfróðir menn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að í sumum túnum hafi gróður eyðzt allt að 95%. Verst hefur þetta ástand verið á Austfjörðum og Norðurlandi, en það hefur herjað á alla landshluta, eins og hv. alþm. er kunnugt. Bændur, sem standa frammi fyrir þessum ógnvaldi ár eftir ár, eiga ekki annars úrkosta en að ganga frá búum sínum meira eða minna slyppir og snauðir og láta ævistörf sín eftir í sviðinni jörð og verðlitlum byggingum, nema skilningur og aðstoð hins opinbera komi til.

Viðurkenna ber, að ýmislegt hefur verið gert til þess að grafast fyrir um orsakir gróðureyðingarinnar, en um árangursríkar mótaðgerðir verður naumast að ræða, nema rætur meinsins séu þekktar. Án alls efa leggjast hér ýmsar orsakir á eina sveif. Staðreynd er, að veðurfar hefur farið kólnandi á síðari árum, en þó ekki svo, að nein úrslitaáhrif ætti að hafa, ef annað væri með felldu. Innlendu túngrösin, „kynbætt af þúsund þrautum“, hafa líka mun betur haldið velli en hin innfluttu, sem nú eru orðin megingróðurstofninn í miklum meiri hluta íslenzkra túna, en reynast þola illa viðmót íslenzkrar veðráttu og hafa víðast veslazt upp á fáum árum. Sumir kenna um misheppnaðri vinnslu ræktunarlandsins, aðrir óheppilegri áburðarnotkun og fleira mætti nefna.

Allt hefur þetta verið — og er — til athugunar hjá íslenzkum sérfræðingum, en engin von er til þess, að í einum svip verði fundin viðhlítandi og örugg lausn á svo víðtæku og margþættu vandamáli sem hér er óefað um að ræða. En eftir þeirri lausn geta þó þeir bændur ekki beðið, sem horft hafa á mikinn hluta túna sinna dauðkalinn ár eftir ár. Þeir þurfa, á meðan ólagið ríður yfir, á aukinni aðstoð hins opinbera að halda og þá aðstoð má ekki dragast að veita. Nái þetta frv. fram að ganga, sem verður ekki efað að óreyndu, geta ákvæði þess orðið til nokkurs stuðnings þeim fjölmörgu bændum, sem nú standa höllum fæti í viðureigninni við þann vágest, sem herjað hefur á ræktunarlönd þeirra undanfarin ár með svo áhrifa— og afleiðingaríkum hætti.

Sú aukna aðstoð við bændur, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er fyrst og fremst í því skyni að örva grænfóðursræktun og votheysgerð. Grænfóðursræktun hefur færzt í aukana með ári hverju, aðallega til beitar, en einnig til vetrargjafar hin síðari ár. En þar sem eina úrræðið virðist vera að auka grænfóðursræktun í svipinn, þar sem gróðureyðingin hefur orðið og grænfóður verður ekki fyrst um sinn verkað nema í vothey, þá leiðir það af sér, að byggja þarf votheysgeymslur og kaupa sláttutætara, svo að þessi breyting fóðuröflunar geti átt sér stað.

Flm. þessa frv. telja eðlilegt og raunar óumflýjanlegt, að þjóðfélagið leggi hér ögn af mörkum, til þess að þessi breyting geti átt sér stað.

Súgþurrkunin hefur fullkomlega sannað gildi sitt, en hún er enn þá fjarri því að vera svo útbreidd sem skyldi og er það eflaust vegna kostnaðarins við að koma henni upp og ört versnandi afkomu bændastéttarinnar á liðnum árum. Er því lagt til, að sá styrkur, sem verið hefur og fellur úr gildi samkvæmt gildandi lögum nú í árslok, verði framlengdur óbreyttur.

Ætlazt er til, að breytingar þær á jarðræktarlögunum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, gildi næstu fjögur ár. Vonandi verður þá farið að rofa til í baráttunni við kalið og kemur þá til kasta Alþ. að meta það, hvort ákvæði frv. skuli gilda áfram eða ekki.

Frekari rök fyrir þessu frv. ættu að vera óþörf, þar sem flestir hv. alþm. ættu að þekkja af eigin raun þá erfiðleika, sem steðjað hafa að landbúnaði undanfarin ár og þó aldrei leikið hann verr, en nú á þessu ári, ef á að líta á bændastéttina sem eina heild. Um landbúnaðarmálin og þá sérstaklega stefnu hæstv. ríkisstj. mun ég síðar í sambandi við annað mál hér ræða mjög bráðlega.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.