04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

80. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á undanförnum áratugum hefur Alþingi leitt íslenzku þjóðina inn í mesta framfara– og breytingatímabil í sögu landsins. En á sama tíma hefur þingið sýnt furðulegt skeytingarleysi um sín eigin málefni, og er nú svo komið, að almennt er viðurkennt, að starfsaðstaða þingsins sé með öllu óviðunandi og starfshættir þess margir orðnir gersamlega úreltir.

Á hverju ári veitir Alþ. mörg hundruð millj. kr. til byggingar húsnæðis yfir hinar ólíkustu stofnanir um land allt, en sínum eigin byggingarmálum hefur þingið varla sinnt á sama tíma.

Ýmsir starfshættir þingsins eru greinilega orðnir úreltir og óhjákvæmilegt að taka þá til gagngerðrar endurskoðunar. Má raunar geta þess hér, að nú situr sérstök n. til þess að endurskoða starfshætti þingsins og það er fyrir hennar áeggjan, að frv. það, sem hér er til umr., er nú flutt í fjórða skipti.

Saga málsins er sú, að Alþ. samþykkti 29. apríl 1966 svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar, að 7 manna mþn., kosin af Sþ., skuli falin endurskoðun gildandi laga um þingsköp Alþingis“.

Kosnir voru 7 alþm. í þessa n., þeir Sigurður Bjarnason, Þórarinn Þórarinsson, Sigurður Ó. Ólafsson, Jónas G. Rafnar, Jón Skaftason, Lúðvík Jósefsson og Benedikt Gröndal. N. skilaði frv., sem síðan var lagt fyrir þingið, en hlaut ekki afgreiðslu og hefur það endurtekið sig þrjú ár í röð, að þetta mál hefur verið flutt. Því hefur verið vísað til n., en þaðan hefur það ekki komið.

Nú er mikill áhugi á því, að málið fái endanlega afgreiðslu, og þess vegna er það flutt enn einu sinni. Ákveðið hefur verið að flytja frv. óbreytt, eins og það hefur verið, en hins vegar er ljóst, að hugmyndir manna taka breytingum með árunum og má búast við því, að n. sú, sem fær þetta til meðferðar, sjái ástæðu til þess að gera á því meiri eða minni breytingar og er sjálfsagt, að málið taki þeim breytingum, sem þingið vill samþykkja.

Helztu nýmæli varðandi þingsköp, sem gert er ráð fyrir að breyta með frv., ef að lögum verður, eru þessi:

1. Lagt er til, að kjörbréfanefnd verði kosin fyrir allt kjörtímabilið.

2. Lagt er til, að ef sæti Ed.–þm. losnar og varamaður tekur sæti á þingi, skuli sá þingflokkur, er skipa á sætið, tilnefna mann úr sínum flokki til Ed.

3. Lagt er til, að nm. í utanrmn. verði bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n.. ef formaður eða ráðh. óskar þess.

4. Sett eru ný og fyllri ákvæði um skýrslur, sem ráðh. óska að gefa Alþ. og um rétt þm. til þess að óska eftir slíkum skýrslum.

5. Sett eru ný ákvæði um fsp. í Sþ. og eru þau ákvæði fyllri, en nú eru í lögum og stefnt að því að gera umr. um fsp., styttri og hnitmiðaðri. Er lagt til, að munnlegar fsp. verði teknar fyrir á sérstökum fundi í Sþ., þannig að þær dragi ekki um of tíma frá öðrum þingmálum. Þá er lagt til, að það nýmæli verði tekið upp, að þm. geti borið fram skriflegar fsp., en ráðh, svari síðan skriflega.

Ég vil taka það fram út af þessum ákvæðum, að mér hefur heyrzt á máli þm., að fleiri og fleiri hallist að því, að gera þurfi enn róttækari breytingar, jafnvel ganga svo langt, að um fsp. fái ekki aðrir að tala en fyrirspyrjandi og sá ráðh., sem svarar. Ég vil benda á það, að ef áhugi er á því að gera slíka breytingu og mér heyrist hún hafa allmikinn hljómgrunn, þá væri vel hugsanlegt fyrir formenn þingflokkanna og forseta Sþ. að gera um það munnlegt samkomulag og láta það koma fljótlega til framkvæmda. Ég hygg, að það yrði mikil bót og mundi greiða fyrir þingstörfum og má raunar geta þess, að þess sáust nokkur merki í spurningatímanum í gær, að þm. eru að reyna að hegða sér í samræmi við þessa hugsun.

6. Gerðar eru í frv. allmiklar breytingar í sambandi við útvarps– og sjónvarpsumr. Lagt er til það nýmæli, að útvarpa skuli innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsrh. og umr. um hana. Er þá gert ráð fyrir, að slíkar umr. komi í staðinn fyrir útvarp fjárlagaræðu og umr. um hana. Þá er lagt til, að á síðari hluta hvers þings skuli útvarpa almennum stjórnmálaumr., er standi í eitt kvöld. Skulu þessar umr. koma í staðinn fyrir eldhúsdagsumr. og verða því allmiklu styttri en þær hafa verið.

Hér eru lagðar til verulegar umbætur á útvarpi umr. frá Alþ., sem ég hygg, að allir geti verið sammála um að fari nú eftir steinrunnum ákvæðum, sem voru sett fyrir annan tíma, en eigi illa við nú á dögum. Þetta ákvæði, sem er í frv., er málamiðlun. Ýmsir vildu ganga allmiklu lengra heldur en gert er í frv., aðrir heldur skemmra og tókst n. að sameinast um þær till., sem í frv. koma fram. Þá vil ég geta þess, að gert er ráð fyrir því, að Ríkisútvarpið geti sjálft haft frumkvæði og óskað eftir því að fá að útvarpa umr., sem fram fara á þingi, og þær umr. mundu þá lúta venjulegum þingsköpum, ræðutími væri ekki skammtaður, heldur væri engin breyting gerð á umr. eins og hún fer fram hér í sölum þingsins. Þó er gert ráð fyrir, að slíkt útvarp geti ekki orðið, nema forsetar þingsins leyfi það.

Í n., sem fjallaði um þetta mál, var rætt um ýmis önnur atriði í þingsköpunum, en ekki varð þó samkomulag um að gera fleiri till. heldur en hér eru. Ég hygg, að þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að gera á þingsköpum eftir þessu frv., mundu verða til verulegra bóta og ég flyt eindregna ósk nm., sem um þetta hafa fjallað, til þingsins um það, að þetta mál verði nú afgreitt, en menn athugi frv. að sjálfsögðu og geri á því þær breytingar, sem óskað er eftir.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.