18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

88. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að leggja hér fram frv. um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum.

1. gr. orðast svo:

Á eftir orðunum „sem svarar framlaginu“ í 7. gr. laganna komi: „nema til votheysgeymslna.“

2. gr. Í stað „60 þús.“ í 48 gr. laganna komi: „150 þús.“

3. gr. 60. gr. laganna orðist svo:

„Á tímabilinu 1971–1974, að báðum árum meðtöldum, er heimilt að veita jörðum, sem setnar eru í lögformlegri ábúð eða sjálfsábúð og hafa minni véltæk tún en 40 ha., óafturkræft framlag; á úttekna ræktun að því marki, að þessari túnstærð sé náð.

Ákvæði þetta nær til lögbýlisjarða, þar sem athuganir Landnáms ríkisins hafa leitt í ljós, að aukin ræktun geti tryggt viðunandi lífsafkomu á jörðum og komið í veg fyrir, að jarðirnar fari í eyði.

Óafturkræft framlag má þó ekki vera hærra en sem nemi, að viðbættu framlagi samkv. jarðræktarlögum, 60% af ræktunar– og girðingarkostnaði eftir meðalverði ár hvert.

Nú hefur brugðizt grasvöxtur á túni vegna kals, svo að nauðsyn ber til að dómi Búnaðarfélags Íslands að endurrækta túnið til þess að tryggja viðunandi lífsafkomu á jörðinni, koma í veg fyrir, að hún fari í eyði og vinna að því, að véltækt tún jarðarinnar verði allt að 40 ha. og er nýbýlastjórn þá heimilt að veita óafturkræft framlag til endurræktunar. Það má þó ekki vera hærra en sem nemi, að viðbættu framlagi samkv. jarðræktarlögum, 80% af ræktunar– og girðingarkostnaði eftir meðalverði ár hvert. Framlag þetta til endurræktunar er þó bundið því skilyrði, að farið sé eftir fyrirmælum ræktunarráðunautar um vinnslu lands, áburðargjöf og val frætegunda.

Framlag samkv. þessari grein til ræktunar á lögbýlisjörð greiðist hvort sem ábúandi stendur einn að ræktuninni eða í félagi með öðrum.

Framræslukostnaður og framlög til hans samkv. jarðræktarlögum koma ekki til greina við útreikning framlags samkv. þessari grein.“

4. gr. 64. gr. laganna orðist svo:

„Til þeirra framkvæmda, er um getur í 60. gr. og til framkvæmda er framlagsrétt fá samkv. 63. gr., greiðir ríkissjóður 60 millj. kr. á árunum 1971—1974, að báðum árum meðtöldum “

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að lánveitingar til votheysgeymslna megi vera allt að 60% af kostnaðarverði, þrátt fyrir ákvæði 7. gr., að ef framkvæmdir njóti framlags samkv. jarðræktarlögum, lækki lánsupphæðin sem framlaginu nemur. Það er mjög mikilvægt nú að gera bændum kleift að byggja votheysgeymslur, ekki sízt í þeim byggðarlögum, sem verst hafa orðið úti af völdum kalskemmda. Búrekstur verður ekki stundaður til lengdar með því að kaupa mikið fóður. Líklegasta leiðin til úrbóta er stóraukin grænfóðursræktun og e.t.v. aukin ræktun einærra jurta. Í kalskellunum hefur víðast hvar sprottið mikill arfi, sem í flestum tilfellum er ekki hægt að þurrka, en hefur gefizt sæmilega að nýta hann í vothey.

Í frv. um breytingu á jarðræktarlögum, sem lagt hefur verið fram á Alþ. af sömu flm., er lagt til, að styrkur til byggingar votheysgeymslu verði hækkaður verulega, með það í huga, að gera bændum kleift að koma upp slíkum geymslum. En það mundi ekki leysa neinn vanda, ef lánsmöguleikar minnkuðu til að koma upp slíkum byggingum í sama hlutfalli og styrkurinn hækkaði. Því er þessi breyting fram borin.

Í öðru lagi leggjum við til, að framlag til íbúðarhúsa verði hækkað til samræmis við þá hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði í landinu, síðan þetta framlag var síðast ákveðið, en þá var það miðað við byggingarvísitölu í októbermánuði 1963. 1957 var fyrst ákveðið að veita styrk eða óafturkræft framlag til byggingar íbúðarhúsa í sveitum. Þá var þetta framlag 25 þús. kr. Þá var byggingarvísitalan 117 stig, eða talið, að rúmmetrinn í íbúðarhúsnæði kostaði 1.085 kr. Næst þegar þetta framlag var hækkað, var byggingarvísitalan komin upp í 150 stig, eða rúmmetrinn í íbúðarhúsnæði talinn kosta 1.396 kr. Það var 1960 og þá var framlagið hækkað í 40 þús. kr. 1962 var þetta framlag enn hækkað upp í 50 þús. kr. Þá var byggingarvísitalan komin upp í 180 stig, eða byggingarkostnaður í íbúðarhúsnæði í 1.674 kr. Og 25. apríl 1964 voru ný lög frá Alþ. um þetta efni staðfest, þess efnis að hækka þetta framlag í 60 þús. kr. Þá var byggingarvísitalan 197 stig eða 1.834 kr. byggingarkostnaður í íbúðarhúsnæði. Síðan í apríl 1964 hefur þetta framlag ekki verið hækkað. En byggingarvísitalan hefur ekki staðið í stað. Í júní s.l. var byggingarvísitalan komin upp í 480 stig eða vísitala byggingarkostnaðar í íbúðarhúsnæði 44.59 kr., en 1. nóv. s.l. kemur enn ný byggingarvísitala og þá er hún orðin 524 stig eða 4.874 kr. rúmmetrinn í íbúðarhúsnæði.

Ef framkvæmdamáttur styrksins ætti að vera nú sá sami og þegar hann var síðast hækkaður, þyrfti að hækka þetta framlag upp í um 160 þús. kr.

Í þriðja lagi leggjum við til, að landnámið veiti óafturkræft framlag á úttekna ræktun að því marki, að véltækt tún nái 40 ha. stærð. Í gildandi lögum eru þessi stærðarmörk 25 ha., en það hefur sýnt sig, að tún af þeirri stærð bera ekki þá bústærð, sem getur gefið fjölskyldu þolanlega lífsafkomu, miðað við þann stakk, sem landbúnaðinum er nú búinn. Bændur hafa í vaxandi mæli beitt á ræktað land, þó sérstaklega kúm. Af því leiðir, að túnstærðin þarf að vera miklu meiri, miðað við sömu bústærð, en áður var talið að nægði, Að yfirveguðu máli leggjum við til, að þessi stærðarmörk verði nú færð upp um 15 ha. og að framlagið verði miðað við 60% af ræktunar– og girðingankostnaði, en í gildandi lögum er þetta 50%.

Í fjórða lagi gerir frv. ráð fyrir, að landnámið styrki þá, sem illa hafa orðið úti vegna gróðureyðingar af völdum kals og hafa ekki nægilegt heimafengið fóður til þess að fleyta áfram það stóru búi, að það tryggi sæmilega lífsafkomu. Framlag landnámsins sé miðað við, að framlagið geti orðið allt að 80% af ræktunar– og girðingarkostnaði hvers árs, enda sé framkvæmdin öll eftir fyrirmælum jarðræktarráðunauts viðkomandi héraðs, sem hafi fullt samráð við Búnaðarfélag Íslands, t.d. um, hvernig eigi að haga endurvinnslu á skemmdum túnum eða hvort taka eigi fremur ný lönd til ræktunar, um áburðargjöf, val frætegunda o.s.frv. Er þessi aðstoð þó veitt að því marki, að hver bóndi hafi allt að 40 ha. véltækt tún og gildir þessi aðstoð landnámsins jafnt, hvort sem einstaklingar eiga í hlut eða félagsræktun er hér um að ræða.

Eins og nú er komið fyrir mörgum bændum, er ekkert líklegra en að margar jarðir fari í eyði, ef þjóðfélagið réttir nú ekki fram hjálparhönd til að endurrækta þau tún, sem eru að verulegu leyti gróðurlaus af völdum kals. Hafi hliðstætt áfall dunið yfir í sjávarútvegi, hafa fjármunir verið teknir úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til að bæta slíkt tjón, t.d. þegar þurrafúinn kom upp í fiskiskipum á öndverðum 6. tug aldarinnar. Í sambandi við það mál voru höfuðrökin þau fyrir því, að ríkið greiddi þurrafúatjónin að fullu, að verð uppbætur til útvegsins hefðu ekki verið miðaðar við það, að útvegsmenn gætu tekið á sig slík áföll, enda afkoma útvegsins ekki slík, að hægt væri að ætlast til þess. En hefur verðlagning landbúnaðarvara verið gerð með það fyrir augum, að bændur gætu tekið á sig álík áföll sem nú hafa átt sér stað, a.m.k. frekar en þá hjá útvegsbændum?

4. gr. framleiðsluráðslaga landbúnaðarins er þannig, með leyfi forseta:

„Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“

Þrátt fyrir að löggjafinn hefur ætlazt til, að bændur bæru úr býtum svipað og aðrar stéttir, þá hefur orðið allt annað í reynd. Ef athugaðar eru meðaltekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á árunum 1963-1969, að báðum árum meðtöldum og hins vegar meðaltekjur bænda á sama tíma, þá kemur í ljós, að meðaltekjur bænda þessi 7 ár reyndust vera 148 þús. kr., en viðmiðunarstéttanna 235.400 kr. og vantaði því 87.400 kr. á hverju ári á tekjur bændanna til þess að ná þessu viðmiðunarkaupi eða 612 þús. á 7 árum, sem er 59%. Ekki verður því séð, að verðlagning búvara hafi farið fram með þeim hætti, að hægt sé að ætlast til, að bændur geti tekið á sig tjón, sem kalið hefur valdið, fremur en t.d. útvegsbændur í sambandi við þurrafúatjón fiskiskipa, nema síður sé.

Við munum flytja fjögur frv. vegna þessara erfiðleika bændastéttarinnar. Þrjú þeirra eru komin fram, þ.e. um breyt. á l. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, um breyt. á jarðræktarlögum og þetta, sem er nú hér til umr. og er þriðja frv. og bráðlega mun fjórða frv. verða lagt hér fram í hv. d. En þó að öll þessi frv. yrðu samþ. óbreytt, er fjarri því, að allt tjónið af völdum kalskemmda verði greitt af opinberu fé og það mundi vanta mikið á slíkt. Hins vegar mundi lögfesting þeirra gefa bændum vonir um auknar rannsóknir á orsökum kalskemmda og mundi leiða til þess, að orsakirnar verði mönnum ljósari en nú, svo að hægt verði að koma frekar í veg fyrir slík tjón. Auknar rannsóknir á hraðþurrkun og votheysgerð gefa vonir um, að landbúnaðurinn verði ekki eins háður veðurfari á þeim tíma, sem fóðuröflunin fer fram á, eins og nú er. Aukin framlög ríkisins til grænfóðurs— og endurræktunar hinna dauðu túna mundu koma í veg fyrir, eyðingu byggðar. Samþykkt þessara frv. mundi gefa bændastéttinni vonir um, að hún komist út úr aðsteðjandi erfiðleikum og eyða þeim grunsemdum, að ráðandi öfl í þjóðfélaginu vanmeti í vaxandi mæli þá þýðingu, sem landbúnaðurinn hefur fyrir þjóðfélagið.

Nú eru rúmar fimm vikur liðnar síðan þetta þing hóf störf sín. Mikill fjöldi frv. hefur verið lagður fram á þessum tíma, þ.á.m. mörg stjfrv. Þess hefði mátt vænta, að meðal þessara frv., er hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, væri að finna, hvaða ráðstafanir hún ætlar að gera vegna þeirra áfalla og erfiðleika, sem nú steðja að bændastéttinni. Eins og vænta mátti, hafa tvö frv. verið lögð fram af hæstv. ríkisstj., sem flokka mætti þannig, að þau hafi verið flutt af þessu tilefni. Líklega eru þessi frv. rismikil í augum stjórnarliðsins miðað við þau viðfangsefni, sem við er að stríða, a.m.k. hefur ekki annað frá þessum herrum enn komið fram. Hins vegar er ekki líklegt, að bændur og fjölskyldur þeirra telji, að stórmannlega sé staðið að málum landbúnaðarins, enda í engu samræmi við ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, þegar svipuð stóráföll hafa dunið yfir, t.d. hjá útvegsbændum. Þessi frv., sem ég á við, er annars vegar breyt. á l. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, en í því frv. er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til sjóðsins á næsta ári og þó er sjóðurinn algerlega fjárvana, en hins vegar böðunarfrv. Á því var nú hálfgerð afturlappafæðing, því að það var lagt fram tveimur vikum eftir að lögboðinn böðunartími var hafinn og þá ekki gerðar neinar ráðstafanir til að láta bændur vita, að lögskylda um böðun á þessum vetri yrði felld niður. Og þá er allt upp talið. Það má margt af þessu læra og þetta sýnir, svo að ekki verður um villzt, hvaða mat hæstv. ríkisstj. hefur á gildi landbúnaðarins fyrir þjóðarheildina. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. landbrh. mundi bæta þessum frv. inn á afrekaskrá sína og þó einkanlega böðunarfrv. ásamt framlaginu til veðdeildar Búnaðarbankans, sem vilyrði var gefið um að kæmi á þessu ári, en hefur trassazt eða gleymzt, enn sem komið er a. m. k., þó að veðdeildin sé gersamlega fjárvana og óstarfhæf. Hins vegar hafa margir rekið augun í það, að Iðnlánasjóður fær framlag í fjárlögum, þrátt fyrir allan iðnþróunarsjóðinn, en aftur á móti er þar hvergi að finna neitt framlag til veðdeildar Búnaðarbankans.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.