18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

88. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Hv. 6. þm. Norðurl. e. byrjaði á því að segja, að frv. þau, sem hann flytti hér ásamt meðflm. sínum, ætti að samþykkja, hvað sem liði heildarendurskoðun stofnlánadeildarlaganna. Ég ætla, að þessi fullyrðing sé óþörf, þangað til hv. þm. hefur séð, hvað kemur út úr þessari endurskoðun, enda eðlilegra, að það mat, sem á lögin og tilgang þeirra verður lagt við heildarendurskoðun, verði skoðað, áður en farið er að samþykkja einstaka liði. Um lán og styrki til íbúðarhúsa, sem hann nefndi réttar tölur um, þá sannaði það einmitt það, sem ég vék að hér í minni fyrri ræðu, að það þyrfti, um leið og styrkur til íbúðarhúsa í sveitum er ákveðinn, að hafa hliðsjón af lánsupphæð til þessara framkvæmda og bera það saman við þau lán, sem veitt eru úr Byggingarsjóði ríkisins.

Ég lít svo á, að ef þetta er skoðað, þá þurfi að hafa í huga fleira heldur en upphæðina eina. Það þarf að taka til athugunar lánstíma, það þarf að taka til athugunar vexti, það þarf að taka til athugunar skilmála og það þarf að taka til athugunar, hvað af þessu er óafturkræft framlag og meta það með hliðsjón af því. Þó að ég sé bóndi og telji mig vera mann bændanna, þá lít ég svo á, að ef þeir fá nokkurn hluta af sinni aðstoð til íbúðarhúsabygginga sem beint framlag, þá sé það ekki sambærilegt við það að fá lán eins og er eftir hinu almenna veðlánakerfi ríkisins, en þau eru að nokkru vísitölubundin.

Um þann kafla ræðu hv. þm., sem fjallaði um tekjur bænda, þá er það vissulega rétt, að þær hafa farið hlutfallslega lækkandi nú hin síðari harðindaár. Með því harðæri, sem hér hófst um 1965, veðurfræðingar segja 1963, þá hafa myndazt gersamlega ný viðhorf í landbúnaðinum og það er eðlilegt, að það taki nokkurn tíma að átta sig á hvernig skuli bregðast við þessum nýju viðhorfum. Að undanförnu hafa verið gerðar athuganir á því, með hvaða hætti helzt mætti við þessu bregðast og er einn þátturinn í því starfi unninn af þeirri n., sem nú hefur endurskoðun stofnlánadeildarlaganna með höndum. Væntanlega verður sá árangur af þeirri endurskoðun, að þar takist að benda á leiðir til að bregðast við hinu versnandi árferði með þeim hætti, að líkur séu til, að árangur náist af til hagsbóta bændastéttinni og þegar við tölum um hagsbætur handa bændastéttinni, þá tölum við um hag þjóðarinnar allrar.

Um það, sem hv. þm. bar brigður á úr máli hæstv. landbrh. um tekjur bænda, má geta þess, að á s.1. ári, árinu 1969, hækkuðu tekjur bænda um 18.3%, eftir því sem segir hér í Hagtíðindum, en samandregið tekjumeðaltal allra stétta um 13.8%. Hv. þm. nefndi aðrar tölur um meðaltekjur bænda á árinu 1969 heldur en þær, sem birtar eru hér í skýrslum Hagstofunnar og það má vera, að hann viti betur, en hv. þm. geta lesið í Hagtíðindum á borðum hjá sér, hvað Hagstofan segir um þetta efni, en þar segir í B.—lið: Flokkun eftir atvinnuvegi og vinnustétt: Búrekstur, gróðurhúsabú, garðyrkjubú o.þ.h., meðaltekjur 172 þús.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um ræðu hv. þm. né það frv., sem hér er til umr., að þessu sinni. Það mun fá skoðun í n. þeirri, sem því væntanlega verður vísað til.