16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

4. mál, ríkisreikningurinn 1968

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 271, sem nú nýlega hefur verið útbýtt, hefur fjhn. þessarar hv. d. haft þetta frv. til athugunar. Hafði n. samband við ríkisendurskoðandann, Halldór Sigurðsson, og mætti hann á fund hjá n. Ræddi hann þar sérstaklega þær aths., sem þingkjörnir endurskoðendur hafa vísað til aðgerða Alþ. Þá voru og boðaðir á fund n. nokkrir embættismenn, þeir Baldur Möller ráðuneytisstjóri, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, formaður Bjargráðasjóðs, Páll Líndal borgarlögmaður, form. Sambands ísl. sveitarfélaga, og Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs. Þessir aðilar gáfu n. þær upplýsingar, sem óskað var eftir, og ræddu þær aths., sem yfirskoðunarmenn gerðu og vísuðu til aðgerða Alþ. varðandi stofnanir þeirra.

Eins og fram kemur í nál., tekur fjhn. undir það, sem kemur fram í bréfi fjmrn. varðandi 9. lið aths. En þar segir m. a., að það sé „. . . næsta vafasamt og geti leitt til ósamræmis í launagreiðslum til opinberra starfsmanna að úrskurða mjög háar aukalaunagreiðslur án samráðs við launamáladeild fjmrn.“ Enn fremur segir í nál.: „ N. álítur nauðsynlegt, eins og segir í bréfi fjmrn., að almennt verði fylgt „þeirri reglu að veita ekki aukavinnugreiðslur mörg ár aftur í tímann vegna ársreikninga ríkisstofnana, enda oftast eitthvað óeðlilegt við slíka langtíma kröfugerð.“ Leggur n. áherzlu á, að ríkisendurskoðunin hagi svo störfum sínum, að til slíks þurfi ekki að koma.“

Í tilefni 17. liðar aths. vill n. taka fram, að hún sér ekki ástæðu til sérstakra aths. út af því. En vegna þess ágreinings, sem þar hefur upp komið, beinir hún því til viðkomandi stjórnvalda, að þau beiti sér fyrir því, að skýrari reglur verði settar um störf Bjargráðasjóðs og einstakra deilda hans, svo að til slíks ágreinings sem hér um ræðir þurfi ekki að koma.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið. N. leggur til, eins og fram kemur á þskj. 271, að frv. verði samþ.