23.11.1970
Neðri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

106. mál, félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um félagsmálaskóla verkalýðssamtakanna hefur verið margflutt á hv. Alþ. og margsinnis fyrir því mælt, margsinnis gert hv. þm. ljóst, hvað í frv. fælist og hvílík þörf sé fyrir að fá það lögfest. Málið hefur ekki verið nákvæmlega í þessu formi flutt alltaf, en að meginstofni til er það þó eins og það var upphaflega flutt, en síðar gerðar á því í samráði við breytilega meðflm. breytingar í einstökum atriðum, einkum til samræmis við kröfur til fræðslumála innan verkalýðshreyfingarinnar á líðandi stund og í næstu framtíð. Að þessu sinni er frv. flutt auk mín af hv. 7. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vesturl.

Meginefni þess er það, svo að ég fari fljótt yfir sögu, að stofnaður verði félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna og skuli hann starfa í tveimur vetrarnámskeiðum og einnig reka og starfrækja styttri fræðslunámskeið eftir þörfum. Um námsgreinar, einkanlega á vetrarnámskeiðunum, er talað í 2. gr. frv., en margvísleg fræðslustarfsemi og nánast öll, sem verkalýðshreyfingin teldi sér og sínum málum til framdráttar, eigi að vera rækt í styttri námskeiðum. Það er ætlazt til þess, að stjórn skólans sé í höndum 5 manna skólanefndar og skuli 4 nm. skipaðir af miðstjórn Alþýðusambands Íslands, en félmrh. tilnefni fimmta manninn og sé þessi fulltrúi ríkisvaldsins formaður skólanefndar, en tilætlunin er sú, að hið opinbera ríkissjóður, kostri skólahaldið, sökum þess að það sé í þjóðfélagsþágu, að slík fræðslustarfsemi sé veitt. Tilgangur með frv. er orðaður mjög stuttlega, en skýrt í grg., og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, endurtaka það. Hann er sá að skapa starfandi og verðandi forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar, áhugamönnum um störf hennar og hverjum félagsmanni hennar, sem njóta vill, möguleika til haldgóðrar fræðslu í þeim greinum, sem tengdastar eru starfi verkalýðssamtakanna. Ég held, að það sé varla hægt í saman þjappaðra máli að gera grein fyrir tilgangi frv. En þar næst vil ég svo víkja örfáum orðum að þjóðfélagsþörfinni fyrir slíka stofnun.

Við flm. teljum það tvímælalausa skyldu þjóðfélagsins við verkalýðsstéttina, hina fjölmennustu atvinnastétt þjóðarinnar, að veita henni tækifæri til þeirrar fræðslu, sem henni er nauðsynleg til þess að geta rækt fálagslegt hlutverk sitt og eflt samtök sín og þroskað þau. Þessi skylda hefur verið viðurkennd til fulls af nágrannaþjóðfélögum okkar, Norðurlandaþjóðunum, því að þau hafa um langt skeið rekið slíka skóla á vegum verkalýðssamtakanna og borið uppi megin þungann af rekstri þeirra. Þessir skólar eru fleiri en einn hjá hverri Norðurlandaþjóð og miklu stærri í sniðum heldur en hér er ætlazt til. Samkv. þessu frv. er ætlun forráðamanna verkalýðshreyfingarinnar að fara smátt af stað, þannig að fræðslustarfsemin verði eðlilegt framhald af þeirri fræðslustarfsemi, sem verkalýðshreyfingin hefur þegar hrundið af stað með námskeiðahaldi á s.l. vetri og þessum vetri. Nýtt námskeið á að hefjast núna á vegum Alþýðusambands Íslands þann 4. des. n.k. Hvers vegna hyggst þá verkalýðshreyfingin ekki halda þessari fræðslustarfsemi áfram á eigin spýtur? Það er fljótsagt. Það er af því, að hana skortir til þess fjárhagslega getu. Enda teljum við, að það sé í þjónustu íslenzks atvinnulífs, að þeir menn, sem fara með hið vandasama hlutverk að ákveða kaup og kjór verkalýðsins í landinu, fara með samningamálin meðal margra annarra vandasamra hlutverka, það muni margfaldlega borga sig fyrir þjóðfélagið, að þeir menn séu sem beztri þekkingu brynjaðir til þess vandasama hlutverks og það hlutverk verður æ vandasamara, eftir því sem lengra líður. Það er orðin flókin sérgrein að standa svo sem þörf er á í því hlutverki að fara með samninga verkalýðssamtakanna gagnvart gagnaðilanum á vinnumarkaðinum. Og það varðar ekkert litlu fyrir þjóðfélagið, að þessi störf séu af þekkingu og samvizkusemi af hendi leyst. Við teljum því, flm., að það sé ekkert síður mál þjóðfélagsins í heild heldur en sérmál verkalýðshreyfingarinnar, að slíkri fræðslustofnun sé komið á fót, sem þetta frv. fjallar um.

Eru þess nokkur dæmi í íslenzku þjóðfélagi, að sérfræðslustofnanir fyrir einstakar stéttir séu reknar á ríkisins kostnað? Jú, svo sannarlega. Þar er hægt að nefna marga sérskóla hinna ýmsu vinnustétta og þarf ekki annað en að nefna bændaskóla eða sjómannaskóla, en einnig eru komnir upp skólar fyrir miklu fámennari stéttir heldur en þær og hefur ríkið látið sig þau mál nokkru varða, því að það ber uppi verulegan hluta af kostnaði við rekstur slíkra skóla. Hví þá ekki einnig sérskóla og einkanlega félagsmálaskóla fyrir eina fjölmennustu atvinnustétt þjóðarinnar verkalýðsstéttina? Ég tel ástæðulaust að endurtaka enn þá einu sinni í langri framsögu efni þessa frv. að öðru leyti en því, sem ég nú hef gert og vil leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. vísað til heilbr.– og félmn.