19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

122. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveim öðrum þm. leyft mér að flytja á þskj. 137 frv. um breyt. á l. um eyðingu refa og minka. Lögin um þetta efni, þ.e.a.s. eyðingu refa og minka, eru frá árinu 1957 nr. 52 það ár , en síðan voru samþ. lög um breytingu á þeim lögum árið 1964, nr. 9 það ár. Í þessum lögum um eyðingu refa og minka er m.a. ákvæði um það, hvað greiða skuli fyrir að vinna slík dýr, og var þeim upphæðum breytt og þær hækkaðar vegna breytinga á verðlagi árið 1964. Þess ber hins vegar að gæta, að síðan á árinu 1964 hefur verðlag farið mjög hækkandi. Það, sem við leggjum til, er að þessar upphæðir, sem greiddar eru þeim, sem vinna að eyðingu refa og minka, verði hækkaðar frá því, sem var á árinu 1964 og var það ætlun okkar, að sú hækkun yrði svipuð og sú hækkun, sem orðið hefur á kaupgjaldi eða launum á þessum tíma, þannig að þeir, sem að þessari landhreinsun vinna, fái svipaðar greiðslur fyrir sín störf miðað við kaupgetu eins og þeir fengu 1957 og 1964. Ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þessi hlutföll nánar, sem eru milli kaupgjaldsins 1957 og 1964 annars vegar og hins vegar núna. En það er sanngjarnt og eðlilegt, að þessar tölur séu leiðréttar. Það er rétt að taka það fram, að þegar hin síðari lög voru sett 1964, þá var greiðsla fyrir eyðingu minka hækkuð nokkuð minna hlutfallslega en aðrar greiðslur. Og við ætlumst einnig til, að það verði leiðrétt, þannig að greiðsla fyrir hvern unninn mink hækki nú úr 350 kr., eins og hún var ákveðin 1964, upp í 800 kr.

Ég leyfi mér að vekja sérstaka athygli á 3. gr. þessa frv., en hún er um það, að eftir gildistöku frv., ef að lögum verður, endurgreiði ríkissjóður að fullu kostnað við eyðingu minka samkv. þessum lögum. Nú er það þannig í lögum, að af kostnaði við eyðingu refa og minka greiðir, að ég ætla, ríkissjóður 2/3, hlutaðeigandi sveitarfélag 1/6 og sýslusjóður 1/6. En þetta mun vera framkvæmt þannig, að í öndverðu greiða sveitarstjórnirnar þetta fé af hendi, en síðar fara fram endurgreiðslur. Nú leggjum við til, að þessu verði breytt, að því er minkeyðinguna varðar, þannig að ríkissjóður greiði að fullu kostnað við útrýmingu minka, þannig að hann verði eftirleiðis ekki að neinu leyti lagður á sveitarfélög eða sýslufélög. Því verður ekki neitað, að það var ríkisvaldið, eða löggjafinn á sínum tíma, sem hleypti þessum óargadýrum í sveitirnar og sýslurnar með því að leyfa innflutning á minkum og minkaeldi. En síðan reyndist það svo, að þessi dýr sluppu úr búrum sínum og urðu villidýr, sem fór fjölgandi og eru hin mesta plága. Það er enginn vafi á því, að minkar hafa valdið verulegu tjóni í veiðivötnum hér á landi og fuglalíf er nú víða ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var. Ég lít svo á, að eyðing þessa aðkomuvargs sé í raun og veru náttúruverndarmál hér á Íslandi og ég vona, að þeir, sem áhuga hafa á náttúruverndarmálum, viðurkenni það. Minkur var ekki landlægur hér. Hann er innfluttur og veldur ósamræmi í íslenzkri náttúru. Refurinn hefur hins vegar verið hér um langan aldur og vita menn ekki gjörla, hvernig hann hefur borizt hingað, en tilgátur eru um það, að hann hafi komið frá Grænlandi með hafís á sínum tíma fyrir löngu. Ég held, að ríkisvaldið eigi að taka afleiðingum af þessum gerðum sínum með því að greiða að fullu þann kostnað, sem verður af því að halda þessum varg í skefjum eða útrýma honum, sem í rauninni þyrfti að vera hægt, en margir óttast nú, að það kunni að verða erfiðara vegna þess, að minkaeldi hefur nú á ný verið leyft í landinu.

Ég tók eftir því, að tveimur eða þremur dögum eftir að þessu frv. var útbýtt, var útbýtt öðru frv. frá nokkrum þm., sem einnig fjallar um breytingu á gildandi lögum um þetta efni. Ég fagna framkomu þessa frv., því að það fer mjög í sömu átt og frv. okkar á þskj. 137. Þó hygg ég, að það muni vera svo, að þar muni vera skemmra gengið eða gert ráð fyrir lægri upphæðum. Og gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði allan kostn hvað eðlilegt sé og sanngjarnt í þeim efnum, miðað við þær breytingar, sem orðið hafa á verðlaginu og kaupgjaldinu. Og fyrir okkur vakir, í raun og veru ekki annað, en það að færa til samræmis, að öðru leyti en því, sem minkana varðar. Þar er 3. gr. í okkar , frv. sérlegs eðlis, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði allan kostnaðinn og viljum við leggja á það mikla áherzlu, hvort sem gerðar verða till. um breytingar á þessu frv. eða ekki, að það verði tekið til greina og þau rök, sem við nú höfum fært fram fyrir réttmæti þessa ákvæðis.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál, en geri ráð fyrir, að flm. hins frv. um breyt. á l. um eyðingu á minkum muni mæla fyrir sínu frv. og að samstarf geti tekizt um eðlilegar breytingar á þessari löggjöf.