30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

137. mál, almannatryggingar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessu frv. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa stuðningi mínum við þetta frv., sem ég tel í alla staði mjög sanngjarnt og eðlilegt. Í því sambandi vil ég aðeins upplýsa það, að ég hef séð það í norskum blöðum, að þar hafa orðið umr. í norska þinginu um það að lækka einmitt aldursmark vegna ellilífeyris til sjómanna. Norsk þingnefnd, „fiskerikomité“ eða sjútvn. hefur lagt það til, að ellilífeyrisaldur norskra sjómanna verði miðaður við 60 ár. Ég hef líka séð það í norskum blöðum, að sjútvrh. Noregs, Monksnes, hefur talið viðmiðun við 62 ár vera eðlilega og sanngjarna. Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram til upplýsingar fyrir n. þá, sem mál þetta fær til meðferðar.