07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

145. mál, þurrkví í Reykjavík

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni frv. til l. um þurrkví í Reykjavík. Í frv. er gert ráð fyrir því, að stofnað verði hlutafélag, sem hafi það að markmiði að kanna aðstæður til að koma upp og starfrækja þurrkví í Reykjavík og stuðla að því, að slíku fyrirtæki verði komið á fót. Ætlazt er til þess, að ríkið leiti fyrir sér um samvinnu við þessa félagsstofnun og er sérstaklega bent á Reykjavíkurborg í því sambandi og auk þess aðra aðila, sem áhuga kynnu að hafa. Félagi þessu er síðan ætlað að láta framkvæma hvers konar athuganir og aðgerðir til rannsóknar og skipulagningar á starfsgrundvelli þurrkvíar og undirbúnings á því, að hefjast megi handa um stofnun hennar og rekstur. Skal að því stefnt, að unnt verði að framselja árangurinn af starfsemi félagsins í hendur aðila eða aðilum, sem takast það verkefni á hendur, þannig að félagið fái tilkostnað sinn að fullu endurgoldinn. En endanlegar tillögur um stofnun þurrkvíar verði lagðar fyrir Alþ. Einnig er í frv. ákvæði um fjáröflun handa þessu væntanlega félagi, svo að það geti staðið straum af þeim undirbúningi, sem þarna er rætt um. Fyrirkomulagið er, eins og menn sjá, sniðið eftir þeirri hugmynd, sem áður hefur legið fyrir þessu þingi um undirbúning að olíuhreinsunarstöð. Það er lagt til, að þarna verði sami háttur á hafður, stofnað sérstakt félag til þess að vinna að þessum undirbúningi.

Eins og menn vita, þá hafa hugmyndir um þurrkví lengi verið ræddar á Íslandi. Og einnig hér á þingi hefur aftur og aftur verið rætt um málið. Árið 1943 var samþ. á Alþ. að skipa nefnd til að athuga skilyrði til fullkominnar skipasmiðastöðvar á Íslandi. Nefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að gera þurrkví og í samráði við hafnarstjórann í Reykjavík var bent sérstaklega á Elliðavoginn, nokkuð fyrir innan Klepp, svipaðar slóðir og rætt er um nú. Þessar athuganir leiddu til þess, að samþ. var einróma hér á þingi að gera breytingar á hafarlögum Reykjavíkur, en þar var kveðið á um framlag ríkisins til þurrkvíar, auk ríkisábyrgðar. En þrátt fyrir þessa einróma afstöðu Alþ. þegar á þessum árum varð ekkert úr framkvæmdum. Samt héldu athuganir áfram á ýmsan hátt, einnig á vegum verkfræðinga. Þannig gerði verkfræðifyrirtækið Höjgård & Schultz áætlun um 6.000 tonna þurrkví sunnan við Kleppshöfðann á árinu 1945. Hér á Alþ. var málið tekið upp að nýju árið 1950. Þá flutti Gísli Jónsson alþm. tillögu um þurrkví á Patreksfirði. Í meðförum Alþ. var tillögunni breytt þannig, að framkvæmd skyldi allsherjar athugun á byggingu þurrkvíar og staðarvali og var sú tillaga samþ. einróma. Síðan var framkvæmd mjög gaumgæfileg rannsókn á þessu máli öllu og annaðist Almenna byggingarfélagið verkfræðilega hlið hennar. Niðurstaðan af þessari rannsókn var ákaflega jákvæð. Ég vil leyfa mér að vitna til þess, sem segir í nál. frá þessum árum, en þar er m.a. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum vill n. leyfa sér að taka fram, að hún er einhuga um að leggja til, að hafinn verði nú þegar undirbúningur undir að hrinda þessu máli í framkvæmd. Mundi þetta verk ekki einasta skapa mjög mikla vinnu í landinu, á meðan á byggingu hennar stendur, er dreifa mætti e.t.v. yfir þá tíma árs, sem hennar væri mest þörf, heldur mundi þurrkvíin skapa hér allt önnur og betri skilyrði til viðgerðar á skipastól landsmanna en nú er fyrir hendi, þar sem þá fyrst væru möguleikar fyrir því að nota við þau verk hagkvæmari aðferðir við alla flutninga á efni til og frá en nú er gert og á þann hátt gera viðgerðir ódýrari, fljótlegri og öruggari og skapa jafnframt möguleika fyrir stóraukinni vinnu í landinu í þeirri iðngrein í framtíðinni. Hún telur, að með þeim siglingum, sem nú eru hingað til landsins, sé tæpast forsvaranlegt að eiga engan möguleika til að taka stærri skip á land, en nú er hægt að taka í Slippinn og að úr því verði ekki bætt á neinn annan hátt betur en með byggingu þurrkvíar.“

Þetta var sem sé ákaflega jákvæð niðurstaða og þarna eru raunar taldar upp ýmsar helztu röksemdirnar fyrir því, að ráðizt verði í byggingu þurrkvíar á Íslandi.

Um staðarval var það niðurstaða af þessari athugun, að tveir staðir kæmu lang helzt til greina, Hafnarfjörður og Reykjavík. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu voru því teknar upp viðræður við ráðamenn í Hafnarfirði og Reykjavík á árinu 1954. Svörin urðu í stuttu máli þau, að ráðamenn í Hafnarfirði töldu sig ekki geta gefið nein bindandi svör um þátttöku Hafnarfjarðar eða rekstur á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Ráðamenn í Reykjavík töldu hins vegar nauðsynlegt að fá 90% af kostnaði við þurrkví sem ríkisframlag, án þess að ríkið ætti þó nokkurn hlut í fyrirtækinu. Svo var að sjá sem mönnum hafi þótt þessar undirtektir bæjarfélaganna vera það dauflegar, að það hafi orðið til þess, að frekari athuganir strönduðu þá um skeið. Menn töldu, að ekki hefði fundizt viðunandi lausn á því, hvernig ætti að sjá þessu fyrirtæki fyrir stofnkostnaði og eðlilegum rekstri. Málið var síðan en tekið upp hér á Alþ. 1961 af þeim mikla áhugamanni, Gísla Jónssyni. Gerði hann þá tillögu um nýjar tekjur handa hafnarbótasjóði, 2% gjald af kostnaðarverði nýrra skipa og skyldi helmingur þeirra tekna renna til þess að koma upp og reka þurrkví í Reykjavík. Ýmsar aths. voru þá gerðar við þessa hugmynd Gísla og var hún að lokum afgreidd með rökstuddri dagskrá, þar sem m.a. var vísað til þess, að þurrkvíarmálið væri í athugun hjá ríkisstj., en um þá athugun heyrðist því miður ekkert meira.

Á þessum árum urðu einnig víðtækar umr. um þurrkví utan þingsins. Til að mynda hefur þessi framkvæmd verið mikið áhugamál verkalýðsfélaga í málm– og skipaiðnaði og einnig verið studd af ýmsum atvinnurekendum í þeim greinum. Oft hefur verið fjallað um málið í borgarstjórn Reykjavíkur og í hafnarnefnd. Síðast komst skriður á málið, þegar Alþb.–menn í borgarstjórn báru fram till. 1967 um athugun á þurrkví í tilefni af Sundahöfn og var af því tilefni samþykkt svofelld ályktun:

„Með því að 1. áfangi Sundahafnar er í byggingu, telur borgarstjórn nauðsynlegt að kanna ýtarlega þörf fyrir dráttarbraut eða þurrkví í tengslum við hina nýju höfn. Felur borgarstjórnin því hafnarstjórn að framkvæma athugun þessa og kanna jafnframt, hverjar áætlanir eru uppi hjá þeim fyrirtækjum í borginni, sem annast skipaviðgerðir og líkleg væru til þess að hefja nýsmíði fiskiskipa og athuga möguleika á samstarfi þeirra í þessu efni, eftir því sem henta þykir.“

Í hafnarstjórn var síðan þremur mönnum falið að vinna sérstaklega að þessu máli, þeim Braga Hannessyni, Guðmundi J. Guðmundssyni og Gunnari P. Guðmundssyni hafnarstjóra. Árangurinn af því starfi er m.a. rakinn í grg. Gunnars P. Guðmundssonar hafnarstjóra, sem birt er sem fskj. með frv. okkar og þar má sjá, hvernig málin standa nú.

Sú saga, sem ég hef rakið hér, ber vott um æðimikinn seinagang og vafalaust væri hægt að láta þung orð falla um framtaksleysi. Þó skulum við ekki gleyma því, að allt fram undir þetta hafa aðstæður verið slíkar, að það hefur verið raunverulegt álitamál, hvort þurrkví gæti staðið undir rekstri sínum fjárhagslega, þótt almenn rök fyrir nauðsyn slíkrar stofnunar hafi verið augljós. Hins vegar hafa fjárhagslegar forsendur slíkrar framkvæmdar sífellt verið að batna, eftir því sem farskipastóll okkar hefur aukizt. Í þessu sambandi má minna á það, að þegar fjárhagslegar forsendur voru kannaðar 1955, voru íslenzk flutningaskip 24 talsins, þar af 7 stærri en 2.000 brúttólestir og 8 undir 1.000 brúttólestum. Nú eru hliðstæð skip hins vegar 40 talsins, þar af 13 stærri en 2.000 brúttólestir og 17 minni en 1.000. Hliðstæð aukning mun að sjálfsögðu halda áfram á ókomnum árum, ef hér verður eðlileg þróun í atvinnumálum. Auk þess er mikið um ferðir erlendra skipa hingað til lands og á hafsvæðunum umhverfis landið og oft er um það spurt frá erlendum aðilum, hvort viðgerðaraðstaða sé hér á landi. Er því fullkomlega eðlilegt að reikna með nokkrum tekjum af þjónustu við erlend skip.

Í áætlun Gunnars B. Guðmundssonar hafnarstjóra er sú niðurstaða um rekstur væntanlegrar þurrkvíar, að rekstrartekjur af þjónustu við íslenzk skip ein saman geri ekki mikið umfram að standa undir kostnaði, eins og komizt er að orði. Sé hins vegar bætt við þá áætlun viðgerðum í þágu erlendra skipa, virðist ljóst, að rekstrarafkoma þurrkvíar geti nú þegar verið eðlileg og sæmilega traust og muni fara batnandi á ókomnum árum. En reikningsleg afkoma þurrkvíar segir ekki söguna alla. Óbein áhrif af starfsemi slíks fyrirtækis yrðu mjög mikil. Um þessar mundir er árlegur gjaldeyriskostnaður vegna skipaviðgerða okkar erlendis t.d. um 120 millj. kr., en með tilkomu þurrkvíar mundi verulegur hluti þeirrar upphæðar sparast og atvinna flytjast inn í landið. Þurrkví mundi treysta mjög málm– og skipasmíði innanlands, en þar er um að ræða einhverja mikilvægustu iðngrein Íslendinga, iðngrein sem er í mjög nánum tengslum við eðlilega atvinnuvegi okkar, fiskveiðar og siglingar. Og einnig ber að minnast þess aukna öryggis í siglingum til landsins, sem þessi framkvæmd hefði í för með sér. Í grg. hafnarstjóra er talið eðlilegt, að 1. áfangi þurrkvíar verði miðaður við 5.000–6.000 tonna stærð og jafnframt verði gert ráð fyrir stækkun upp í 10—12 þús. tonn. Miðað við núverandi verðlag er áætlað, að 1. áfangi þurrkvíar kosti um 120 millj. kr. En auk þess þarf fjölþætta aðra starfsemi í tengslum við þurrkví. Skiptir þar mestu, að í sambandi við þurrkví þarf að skapa góða aðstöðu fyrir nýsmíði stálskipa til þess að nýta á sem haganlegastan hátt vinnuafl og vélakost. Virðist eðlilegt, að í því sambandi verði athuguð sérstaklega framtíð Landssmiðjunnar, sem verið hefur olnbogabarn hæstv. ríkisstj. árum saman, en gæti fengið mjög mikilvæg verkefni í tengslum við þurrkví. Til þess að hrinda þessum framkvæmdum af stað þarf þannig allmikið fjármagn, þótt okkur sé það á engan hátt ofviða, þegar þjóðartekjur okkar eru komnar yfir 400 milljarða kr. á ári.

Ég hef áður greint frá hugmyndum Gísla Jónssonar um gjald af kostnaðarverði nýrra skipa. Í grg. Gunnars B. Guðmundssonar er rætt um aðra hugmynd, að lagt verði gjald á þau skip stærri en 100 brúttólestir, sem leita hafnar á Íslandi, t.d. 10 kr. á brúttólest, innheimt einu sinni á ári. Slíkt gjald af innlendum og erlendum skipum mundi nema rúmum 9 millj. kr. á ári eins og sakir standa og ætti í upphafi að renna til þess að greiða stofnkostmað þurrkvíar. Vel má vera, að menn sjái annmarka á þessari hugmynd ekki síður en tillögu Gísla Jónssonar. En ég vil leggja áherzlu á, að menn láti ekki slík ágreiningsefni tefja fyrir framkvæmdum. Hvaða fjáröflunarleiðir sem farnar verða að forminu til, mun raunin verða sú að lokum, að upphæðirnar verða teknar úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Hér er um að ræða mjög mikið nauðsynjamál, sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Þeir fjármunir, sem fram verða lagðir, munu skila sér aftur margfaldlega. Þar skiptir mestu máli, að þurrkvíin verði í félagslegri eign og hafi jafnt Reykjavíkurborg sem ríkissjóð að bakhjarli beint og óbeint, auk þess sem einkaaðilar verði kvaddir til sem beztrar samvinnu.

Ég minntist á það í upphafi máls míns, að athugun á þessu máli hefði tekið langan tíma og stundum gengið seint. Ein af ástæðunum fyrir því er að sjálfsögðu sú, að verkefnið er svo stórt, að þeir aðilar, sem um málið hafa fjallað, hafa ekki haft raunverulegt bolmagn til þess að ráða við það. Tillaga okkar hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar er tilraun til þess að rífa málið upp úr þeirri sjálfheldu og tryggja þá vinnu og það fjármagn, sem til þess þarf, að hægt verði að hefjast handa sem fyrst. Eins og ég sagði áðan, leggjum við til, að hafður verði á hliðstæður háttur og rætt er um í sambandi við byggingu hugsanlegrar olíuhreinsunarstöðvar, að stofnað verði sérstakt félag til að ljúka undirbúningsrannsóknum og hrinda málinu í framkvæmd. Við teljum, að þessi aðferð sé skynsamleg, vegna þess hversu umsvifamikið og stórt verkefnið er. Í því sambandi má minna á, að enn er ólokið ýmsum mikilvægum og kostnaðarsömum athugunum á staðarvali þurrkvíar, bæði í landi og neðansjávar. Hins vegar er um það rætt í frv., að félag það, sem við gerum tillögu um, fái kostnað sinn endurgreiddan frá fyrirtækinu, þegar það hefur hafið starfrækslu, þótt raunar sé einnig hugsanlegt, að undirbúningsfélagið verði að hluta til eignaraðili að þurrkvínni og leggi þá fram tilkostnað sinn sem hlutafé. En í sambandi við þessa hugmynd viljum við flm. leggja áherzlu á, að hún er okkur ekkert sáluhjálparatriði. Telji menn eðlilegra að hafa annan hátt á, þá erum við til viðtals um hvers kyns breytingar á þessari tilhögun. Forsendur okkar eru einvörðungu þær, að nú verði teknar ákvarðanir og hafizt handa. Aldarfjórðungs bollaleggingum þarf að ljúka og athafnir þurfa að taka við. Vil ég vænta þess, að sú hugmynd hljóti góðar undirtektir hér á þingi og ekki sízt vil ég gera mér vonir um, að þetta mál njóti þess, að borgarstjórinn í Reykjavík, hv. þm. Geir Hallgrímsson, er nú í okkar hópi, en hann hefur að sjálfsögðu fylgzt vandlega með þessu máli að undanförnu og látið í ljós áhuga á framgangi þess.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.