07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

145. mál, þurrkví í Reykjavík

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þurrkvíarmálið er rætt hér á hv. Alþ., svo mikilvægt sem það er fyrir landið í heild og fyrir Reykjavík, sem er eðlilegur staður fyrir slíka þurrkví. Þurrkví í Reykjavík verður heldur ekki reist nema með einhvers konar atbeina ríkisvaldsins og þá væntanlega löggjafarvaldsins. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs þegar við 1. umr. málsins, er sú, að ég vildi gjarnan koma fram með nokkrar ábendingar í tilefni af flutningi þessa frv., ábendingar, sem ég vænti, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, taki til athugunar. En áður en ég vík að þeim ábendingum vildi ég aðeins geta um helztu röksemdir fyrir nauðsyn þurrkvíar til viðbótar því, sem hv. flm. gat um hér áðan.

Það er ljóst, að núverandi dráttarbrautir í landinu geta ekki tekið á land nema hluta af skipastóli landsmanna sökum stærðar skipanna. Það er enn fremur ljóst, að hluti af þeim skipastóli, sem hægt er að taka á land, leitar viðgerða erlendis, sumpart sökum þess, að þeir fá viðgerðirnar fljótar unnar og sumpart ódýrari. Einkum var það hér áður fyrr, þegar gengisskráningin var ekki í samræmi við staðreyndir og á þann hátt flyzt mikil vinna, sem íslenzkir iðnaðarmenn eru færir um að leysa af hendi, úr landi og ekki fæst möguleiki eða sköpuð skilyrði til þess að þjálfa íslenzka iðnaðarmenn þannig, að þeir séu samkeppnis færir við starfsbræður erlendis.

Þá má leiða töluverðar líkur að því, að nokkur viðgerðarþjónusta umfram það, sem nú er unnin í landinu, mundi verða framkvæmd á erlendum skipum, ef samkeppnisfær viðgerðarstöð risi hér og þá er það ekki álitamál heldur, að verulegt öryggi mundi það verða allri siglingu um Norður–Atlantshaf, ef slík viðgerðarstöð risi hér, enda munu tryggingafélögum oft berast fyrirspurnir um, hver aðstaða sé hér fyrir hendi til skipaviðgerða.

Það má að vísu spyrjast fyrir um það, hvort sú uppbygging dráttarbrauta, sem átt hefur sér stað fyrir forgöngu hæstv. iðnrh. á undanförnum árum, sé ekki slík, að hún fullnægi að einhverju leyti þeim þörfum, sem þurrkví í Reykjavík mundi eiga að gera.

Ég held, að svo sé ekki. Ef rekstrargrundvöllur er góður fyrir fiskiskipastól landsmanna og annan skipastól og eðlilegar afskriftir og hagnaður eiga sér stað í þeim atvinnurekstri, þá mun það vera svo, að núverandi dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar anna alls ekki nægilega viðhaldi og endurnýjun skipastólsins, eins og hann nú er, með hagkvæmum rekstri stöðvanna. Og þess vegna mundi þurrkví, sem e.t.v. hefði viðhald helzt að verkefni sínu, þótt samhliða henni væri nauðsyn á nýskipasmíðum, ekki vera óþörf, heldur miklu fremur fullnægði hún þörfum, sem nauðsynlegt er að sinna. Ég sagði fyrst í minni ræðu, að það væri eðlileg staðsetning þurrkvíar í Reykjavík, enda hefur svo verið um talað ávallt, frá því að þessari hugmynd var fyrst hreyft. Það er ekki eingöngu vegna þess, að Reykjavík er heimahöfn flestra hinna stærri skipa siglingaflotans. Hér er og sigling tíðust þeirra erlendra skipa, sem mundu nota þjónustu slíkrar stöðvar. Þá eru og hér þeir iðnaðarmenn og þeir tæknimenn, sem nauðsynlegir eru til að vinna við slíkt fyrirtæki. Aðstæður eru og mjög góðar við Gelgjutanga, þar sem áætlanir hafa verið gerðar um byggingu þurrkvíar.

En um leið og við lítum á allar þessar staðreyndir og um leið og við erum sammála um nauðsyn á byggingu þurrkvíar, þá hljótum við að gera okkur ljósa grein fyrir þeim vanda, sem þarf að ráða við, til þess að þurrkví verði að veruleika. Og sá vandi er, að þrátt fyrir bjartsýnar rekstursáætlanir mun rekstur sjálfrar þurrkvíarinnar ekki gera betur heldur en standa undir reksturskostnaði. En óbeinn hagnaður verður slíkur samt sem áður, að hann réttlætir fullkomlega framkvæmdina. Það er ætlunin, að í tengslum við þurrkví verði byggð ýmiss konar iðnaðarver og þegar fram líða stundir, munu þau e.t.v. að hluta eða jafnvel að öllu leyti geta endurgreitt þjónustu þurrkvíarinnar, en til að byrja með verður að horfast í augu við það, að stofnkostnaður þurrkvíarinnar verður að fást þegar tryggður í upphafi með stofnfjárframlögum, sem ekki er ætlazt til að beri beina vexti eða verði endurgreidd um nokkurt árabil a.m.k. Og það er þessi vandi, sem hefur verið tálmun þess að koma þurrkvíarmálinu fram.

Ég vil til viðbótar því, sem getið er um í grg. hafnarstjórans í Reykjavík um þær kannanir og athuganir, sem fram hafa farið á byggingu þurrkvíar, geta þess, að töluverð athugun hefur farið fram á möguleikum þess og leiðum til að afla fjár til greiðslu stofnkostnaðar og þá yfirleitt gengið út frá því, að framlag ríkissjóðs eða hafnarbótasjóðs yrði a.m.k. 40% af framkvæmdakostnaði, eins og tíðkazt hefur t.d. um dráttarbrautir í eigu hafnarsjóða úti á landi. Og ýmis rök hníga að því, að hægt væri að fella byggingu þurrkvíar undir 75% stofnframlag ríkissjóðs, eins og gerist um dýpkun hafna og byggingu hafnargarða. Auk þessa gat hv. flm. um ábendingar og tillögur Gísla heitins Jónssonar alþm. um sérstaka skattlagningu á byggingarkostnað skipa. Önnur ábending hefur komið fram um 10 kr. gjald á hverja brúttórúmlest íslenzks skips á ári hverju sem og sams konar skattheimtu af fyrstu komu erlends skips hér í höfn á ári hverju. Seinni fjáröflunaraðferðin mundi gefa 9–10 millj. kr. árlegan tekjustofn, sem mundi vissulega hafa þýðingu í þessu efni.

Nú sem stendur er það helzt á dagskrá, að ljúka verður við jarðvegskannanir til þess að fá endanlega skorið úr, hvort fyrirhuguð staðsetning þurrkvíar er reist á traustum forsendum. Kostnaður við könnun til þessarar ákvörðunar hefur verið talinn frá 500 þús. kr. til 1 millj. kr. og vissulega getur það orðið svo, að þessi könnun leiði í ljós þörf á enn frekari könnun, áður en til framkvæmda kemur. Þetta er vandamál, sem vissulega er alls ekki stórt og Reykjavíkurhöfn mun út af fyrir sig ein geta séð því borgið, enda hefur hún farið þess á leit við Orkustofnunina að annast þessa könnun fyrir sína hönd. Orkustofnunin hefur þegar hafið nokkra könnun að þessu leyti, en vegna þess að sú könnun, sem gerð var á s.l. sumri, gaf ekki fullnægjandi niðurstöðu, m.a. vegna þess að nauðsynleg tæki voru ekki til staðar, heldur bundin við önnur verkefni inni á öræfum í sambandi við virkjunarframkvæmdir, þá er þessum könnunum ekki endanlega lokið.

Þá þarf í öðru lagi að fá sérfræðinga til þess að gera tillögur um uppbyggingu og áætlun um rekstur stöðvarinnar. Í því skyni hefur stjórn iðnþróunarsjóðs verið ritað og óskað eftir fyrirgreiðslu sjóðsins í þessum efnum, bæði hvað snertir lánsfjárútvegun til þess að framkvæma slíkt verk og sömuleiðis tækniaðstoð við verkið sjálft. Í sama skyni hafa viðræður átt sér stað við hæstv. iðnrh. og iðnrn., sem hafa tekið málinu mjög vel og heitið því fulltingi sínu. Samfara þessari málaleitun hafnarstjórnar til iðnþróunarsjóðs hefur Meistarafélag járniðnaðarmanna á Íslandi óskað eftir því við iðnþróunarsjóð, að fram fari könnun á aðstöðu járniðnaðar á Íslandi og hefur stjórn iðnþróunarsjóðs gert ráðstafanir til þess að fá sænskt ráðgjafarfyrirtæki til þess að hafa slíka tækniaðstoð með höndum. Ég á ekki von á því, að iðnþróunarsjóður muni telja sér fært að lána til þurrkvíarinnar sem slíkrar, en hins vegar hef ég góða von um, að hann sjái sér fært að lána til þess kostnaðar, sem er bundinn við rannsókn á uppbyggingu og rekstri þurrkvíarinnar, hönnun mannvirkisins sem slíks. Og sömuleiðis mun iðnþróunarsjóður væntanlega geta lánað til þeirra fyrirtækja, viðgerðarverkstæða og annarra mannvirkja, sem nauðsynlegt er að reisa í tengslum við slíka þurrkví.

Ég hef talið nauðsynlegt að rekja þessi atriði hér við 1. umr. málsins, til þess að fram komi, að vandamálið í sambandi við þurrkví og til þess að koma því máli á betri rekspöl og hraða framkvæmdum, er e.t.v. ekki skortur á fjármagni við könnun og athugun málsins, heldur blátt áfram fjármagnsskorturinn við það að koma fyrirtækinu sjálfu á fót. Ég skil flutning þessa frv. svo og grg. hv. 1. flm. svo, að flm. hafi sniðið frv. eftir frv. til l. um olíuhreinsunarstöð og vil í því sambandi aðeins geta þess, að þar sem frv. um olíuhreinsunarstöð er flutt af hæstv. iðnrh. með þeirri röksemd, að iðnrn. sem slíkt og stóriðjunefnd áður hafi ekki tök á því að fylgja málinu frekar fram, með því að rn. sé ekki til þess búið, þá sé nauðsynlegt að stofna til sérstaks hlutafélags um könnun málsins, áður en ákveðið er að ráðast í framkvæmdir. Ég hygg, að nokkru öðru máli gegni um könnun og athugun á byggingu þurrkvíar í Reykjavík. Reykjavíkurhöfn hefur í samráði við þá aðila, sem helzt hafa hagsmuna að gæta í sambandi við uppbyggingu þurrkvíar, haft mál þetta með höndum og hefur athugun málsins verið í fullum gangi. En ég vil fagna því hins vegar, ef flutningur slíks frv. og árangur af því verður sá, að ríkisvaldið vill leggja þarna hönd á plóginn og þegar í upphafi skuldbinda sig til þess að standa að lausn þess, sem beinist helzt að fjárútvegun til framkvæmda.

Ég vík þá að þeim ábendingum, sem ég vildi gera við frv., en þær eru helztar, að við 1. gr. teldi ég eðlilegt, að það væri ríkisstj. og Reykjavíkurborg, sem sameiginlega beittu sér fyrir stofnun slíks hlutafélags. Í 2. gr. tel ég óþarfa og e.t.v. til tálmunar að setja það skilyrði að a.m.k. 50% af hlutafé félagsins skuli jafnan vera í eigu ríkisins og varðandi 3.gr. vildi ég mælast til þess við hv. n., að hún kveðji sér til ráðuneytis varðandi afgreiðslu þessa máls hafnarstjóra og aðra þá, sem afskipti hafa af undirbúningi þurrkvíarmálsins og athugi í því sambandi möguleika á því að gera óþarft það millistig, sem frv. gerir ráð fyrir, nefnilega það millistig að stofna fálag eingöngu um könnun og athugun á stofnun þurrkvíar í Reykjaví:k. Ég tel alla möguleika geta verið á því, ef vel er á málum haldið, að unnt sé að kveða á um stofnun félags í því skyni að stofna þurrkví í Reykjavík og millistig um félagsstofnun, sem eingöngu hefur það á stefnuskrá sinni að athuga þessi mál, sé vonandi óþarft. Um þetta skal ég þó ekki fullyrða eða fjölyrða á þessu stigi málsins. Það er rétt, að fleiri menn fjalli um það og vegi og meti aðstæður allar, á hvaða stigi málið er núna, áður en endanlega er tekin afstaða að því leyti. En að lokum vil ég ítreka þá skoðun mína, að meginvandinn við að koma þessu þjóðnytjamáli í framkvæmd, er fjáröflun til stofnkostnaðar. Ég fagna flutningi þessa frv. í þeim anda, að það verði að liði í þeim efnum að opna skilning manna fyrir nauðsyn þessa máls og skilning manna á að horfast í augu við þetta höfuðvandamál, að með einhverju móti verði að afla óendurkræfs stofnfjárframlags til þurrkvíarinnar.