01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæður til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, eru tvær. Ég vil í fyrsta lagi lýsa því yfir, að ég skoða náttúruvernd sem gott mál svo lengi sem það fer ekki á þær villigötur að torvelda manninum að búa góðu lífi í sínu heimalandi. En þegar náttúruverndin fer út fyrir þau mörk og þegar hún tekur sér óskorað vald, sem kannske fáir menn eru um að nota, þá er ég á móti slíku og hér í 1. gr. þessa frv., a–lið, er málsgrein, sam hljóðar svo:

„Óheimilt skal að reisa þar mannvirki önnur en þau, er eðlileg megi teljast í sambandi við búskap á lögbýlum, án leyfis náttúruverndarráðs.“

Að einstök nefnd, þótt stjórnskipuð sé, geti tekið slíkar ákvarðanir, finnst mér ekki rétt og ég vil láta það koma hér fram þegar í upphafi, að þessari grein er ég algerlega mótfallinn. Hins vegar var tekið hér fram áðan í framsögu, að þetta mál yrði rannsakað betur og frv. e.t.v. breytt og því sé ég ekki ástæðu til að ræða svo mjög um frv. sem slíkt á þessu stigi málsins, ef það skyldi þá taka verulegum breytingum.

Allir kannast við orðatiltækið „að koma flugu í munn einhverjum“ og hér hefur það verið gert með þetta frv. Þar stendur í grg., að það sé samið af náttúruverndarráði og náttúruverndarráð hafi beðið menntmn. Nd. að flytja málið, en þetta er aðeins hálfur sannleikur, ef það er þá bara ekki 1/4, því að eftir því sem ég veit bezt, hefur aðeins einn maður úr náttúruverndarráði samið eða lagt blessun sína yfir það, sem hér heitir frv., en það var samið fyrir hann að mestu leyti annars staðar. Þetta finnst mér að koma flugu í munn menntmn., að hún flytji hér frv., sem náttúruverndarráð hafi samið, sem það hefur ekki gert og telja það að nokkru leyti sitt mál.

En það, sem kom mér þó enn þá fremur af stað að tala hér, var ræða hv. 4. landsk. þm. Hún var enn þá betra og áþreifanlegra dæmi um það, hvernig komið er flugu í munn einhverjum. Laxárvirkjunardeilan svonefnda hefur staðið lengi og ég ætla ekki að rekja hana mikið, en ég vil koma inn á það, að þar hafa komið fram rök og gagnrök, sem svo einkennilega vill til, að oft er haldið hvað hæst á lofti af þeim, sem minnst þekkja til. Hv. 4. landsk. þm. var t.d. að tala um deilur og verk Þingeyinga gegn einhverjum öðrum. Ég tel mig nú ekki minni Þingeying eða síðri Þingeying heldur en marga aðra, en ég vil lýsa því hér yfir, að þetta er alls ekki deila á milli Þingeyinga og einhverra annarra, sem þarna hefur gerzt norður við Laxá. E.t.v. veit ekki hv. þm. og ekki hv. þd. heldur, hve geysileg þörf er orðin fyrir aukið rafmagn á Laxárvirkjunarsvæðinu. Þess vegna ætla ég hér til fróðleiks að leyfa mönnum að heyra, hvernig byggt hefur verið upp orkuverið við Laxá og hvað við norður frá, Akureyringar, Eyfirðingar og Þingeyingar þurfum að nota mikið af dísilrafmagni til þess að sjá fyrir ljósi og hita og iðnaði og vantar þó verulega á, að þetta sé í góðu lagi og þess vegna er leitað eftir þessari aukningu á Laxárvirkjun.

Fyrst var virkjað í Laxá af hálfu Akureyrarbæjar og sú virkjun var 4.060 kw. Síðan var gerð önnur virkjun, sem var sameign Akureyrarbæjar og ríkisins, upp á 8.000 kw. Síðan ekki söguna meir. Eftir það hefur orðið að fá dísilrafstöð, sem fyrst var með 1.000 kw., síðan var bætt við öðrum 1.000 kw., þar næst 2.000 kw. og í fjórða skiptið 3.500 kw. Loks var svo gerð gufustöð, rafstöð í Mývatnssveit, sem hefur gefizt að sumu leyti vel og að sumu leyti illa. Hún er upp á 3.000 kw.

Eins og ég gat um áðan, þá er óskin um það að virkja áfram í Laxá sprottin af þörf. Allt þetta svæði, öll þessi byggð, sem nú kallast Norðurlandskjördæmi eystra, er í sárri þörf fyrir aukið rafmagn til upphitunar og til iðnaðar og jafnvel ljósa, því að eins og sumir ykkar munu vita vel, þá skortir mjög að raflýsa í N.--Þingeyjarsýslu heil héruð. Hv. 4, landsk. þm. var að flytja hér ræðu um mengun. Mér fannst hún skjóta einkennilega skökku við í sambandi við Laxárvirkjun, vegna þess að hingað til hefur það ekki verið talið og ég held að enginn, sem vit hefur á, telji að það sé einhver sérstök mengunarhætta af vatnsaflsstöðvum. Og hér er ekki verið að hugsa til þess að virkja upp á einhvern stóriðnað, sem geti stafað mengun af, því að sú virkjun, sem nú a.m.k. er ráðgerð, getur ekki framleitt slíkt rafmagn, sem geti dugað nokkuð til stórvirkjunar. Hún er aðeins, eins og ég tók fram í upphafi, til að bæta úr brýnni neyzlu þörf.

Mig langar að lokum til þess að benda hv. þingheimi á eitt, sem mér finnst alls ekki hafa komið nógu vel fram í öllum þeim deilum, sem hafa farið fram í blöðum og heyrzt í útvarpi um Laxárvirkjunina. Ég vil endurtaka það, að þetta er ekki deila á milli Þingeyinga og Akureyringa, ekki deila milli Þingeyinga, Akureyringa og Eyfirðinga. Þetta er deila milli landeigenda við Laxá og hinna fjölmörgu og miklu fleiri íbúa héraðsins, sem vantar aukið rafmagn. Þetta er þó ekki einu sinni deila allra landeigenda við Laxá, því að ríkið á margar jarðirnar, sem liggja að Laxá, m.a. þær jarðir, sem þessi virkjun fer fram á. Það hefur, held ég, afar óvíða komið fram. Og hér var sagt áðan af hv. l. þm. Norðurl. e., að landeigendafélag við Laxá hafi verið stofnað í fyrra vor. Það var nú ekki stofnað fyrr en í október í haust. Hins vegar kom það fram sem samningsaðili miklu fyrr, þ.e.a.s. kom fram sem samningsaðili áður en það sá raunverulega dagsins ljós.

Og að lokum vildi ég lofa ykkur að vita eitt — það verður þá borið til baka og ég skal þá segja, að ég fari með rangt mál, ef það er ekki rétt, — en ég veit ekki annað en það sé nýlega búið að spyrja hreppsnefndir, sem eiga aðild að þeim hreppum, sem að Laxá standa, þar sem virkjunin verður gerð, hvort þær séu andvígar Laxárvirkjuninni eins og hún er nú hugsuð, hreppsnefndina í Reykjahreppi, hreppsnefndina í Aðaldælahreppi og hreppsnefndina í Reykdælahreppi. Samhljóða sagði hreppsnefndin í Reykjahreppi, að hún væri samþykk því, að Laxárvirkjun nr. 3 yrði framkvæmd. Hreppsnefndarmenn í Aðaldal, 4 af 5, kváðu sig samþykka því, að virkjunin yrði framkvæmd, einn sat hjá. Hreppsnefndarmenn í Reykjadal, 4 af 5, kváðu sig samþykkja virkjunina, einn var á móti. Dettur ykkur nú í hug, að það sé rétt, sem stundum hefur verið haldið fram, að það sé verið að níðast á Þingeyingum í þessu máli, þegar hreppsnefndirnar taka málinu svona? Það er þetta, sem ég vildi koma hér á framfæri, svo að þingheimur léti sér ekki detta í hug, að það væru sannindi í því, sem hv. 4. landsk. þm. var að segja hér um deiluna um Laxrárvirkjun.