01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Inn í umr. hafa nú blandazt deilur um Laxárvirkjun, eins og síðasti hv. ræðumaður vék að. Það yrði allt of langt mál að fara að rifja það mál og þær deilur allar upp hér, en ég vil aðeins í örfáum orðum víkja að því, sem ég tel skipta mestu máli, af tilefni þeirrar ræðu, sem hv. 4. þm. Austf. (LJós) flutti nú.

Það verður með engu móti sagt, að af stjórnvalda hálfu hafi verið þjösnazt í þessu mali. Það er ótrúlega löng saga, ef raktar væru þær tilraunir, sem af hálfu iðnrn. og af minni hálfu sem iðnrh. hafa verið gerðar á s.l. ári og alveg fram til síðasta dags til þess að reyna að ná sættum í þessu máli milli Laxárvirkjunar og landeigenda. Það hefur því miður ekki tekizt og ég skal ekki rekja það nú. Það getur vel verið, að það þyki ástæða til þess að gefa Alþ. skýrslu um það mál á síðara stigi, því að hér er auðvitað um mjög alvarlegt málefni að ræða, sem valdið hefur mjög leiðum deilum, sem gætu orðið alvarlegar deilur. Sumt af því, sem í kringum þetta hefur spunnizt, er síður en svo lítið alvarlegt. En það var í nóvember, eins og menn muna, í lok nóvembermánaðar s.l., að iðnrn. gerði tilraun til þess að ná samkomulagi um nýja virkjun við Laxá, sem kölluð var þá Laxá III, og með henni var meint af hálfu rn., að það ætti að geta verið alveg ljóst, að hinar upphaflegu ráðagerðir um Gljúfurversvirkjun væru algerlega úr sögunni. Nú náðist ekki samkomulag, eins og kunnugt er og þó að við hefðum margir gert okkur vonir um það og þó að mér sé kunnugt um það, að í héraði eru margir aðilar og héraðsstjórnir eða sveitarstjórnir, sem telja, að þarna hefði mátt vel við una, — en ég skal ekki dómfella neina, hvorugan aðilann fyrir, að þessi sáttargerð náði ekki fram að ganga, — þá hef ég nú á þessu ári og ekki alls fyrir löngu gert eina tilraun enn. Og ég verð að segja það, að það er einlægt af minni hálfu, að ég bind ákaflega miklar vonir við það, að sú síðasta tilraun, sem nú er verið að vinna að, geti leitt til sátta. Ég skal ekki fara að lýsa henni hér, það er ástæðulaust, en sáttanefndarmennirnir tveir, sýslumennirnir í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu, eru með þessar nýju tillögur iðnrn. og þar er alveg tekinn af allur vafi um það, — sem getur vel verið, að sé rétt hjá hv. þm., að menn hafi haft einhverjar ástæður til tortryggni allt fram til þessa um, — að þar er um tiltekna og ákveðna virkjun að ræða og hvorki annað eða meira fyrr eða síðar.

Um árangur af þessum tilraunum get ég ekki sagt núna, en ég get vel skilið það og það er ekkert óeðlilegt, að fram komi fsp. hér í þinginu um þetta og ég ítreka það, sem ég sagði, að svo kann að vera, að eðlilegt væri, áður en lyki, að iðnrn. gerði hv. þm. grein fyrir málinu, Laxármálinu. Þetta er nú annað mál í raun og veru, sem er hér á dagskrá, en það hefur blandazt inn í það. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé neitt illa tekið upp og til þess að ekkert af því, sem ég segi hér nú, verði til þess að spilla þessari síðustu tilraun, þá skal ég ekki hafa orð mín fleiri. En það er verið að gera alvarlega tilraun til þess að leiða þetta mál núna til sátta og það verður mjög fljótt úr því skorið og þá held ég, að það væri æskilegast, að við létum hér við sitja í deilunum um þetta mál.

Ég skal ekki fara út í lögbannsmálið. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, því að þó að lagðar hefðu verið fram tryggingar og væru lagðar fram fjártryggingar, sem beðið er um, þá var aldrei lögbann við þeim framkvæmdum, sem núna er verið að vinna að. En látum það eiga sig. Mínar óskir og vonir eru þær, að það geti fundizt friðsamleg lausn á þessu máli og ég vona, að það verði mjög fljótlega og þá finnst mér eðlilegt, að það kynni að koma að því, að rn. gerði þinginu nánari grein fyrir því á sérstakan hátt.