17.02.1971
Neðri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Bjartman Guðmundsson:

Herra forseti. Það hafa nú þrír hv. þm. talað hér á undan mér um frv., sem hér liggur fyrir til umr. um náttúruvernd. En aðalefni í ræðum allra þeirra var þó um annað mál, sem raunar er þessu þó skylt og get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að það sé ekki óeðlilegt, að það blandist nokkuð inn í. Hv. 9. landsk. þm. sagði réttilega, að of miklu moldviðri hefði verið þyrlað upp í kringum Laxárvirkjunarmálið, sem ég vil kalla ofhitamál, eins og nú er komið og raunar nokkru áður en hér er komið. Ég gat tekið undir ýmislegt í ræðu hans, þó að ég væri öðru ósamþykkur og skal ég ekki fara út í það, því að ég ætlaði ekki að tala um það mál hér, taldi það ekki við eiga, þar sem annað mál er til umr., þó að það sé þessu skylt.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér réttilega og ég vil taka undir það mjög sterklega, að það væri nauðsynlegt að finna lausn á þessu máli, sem allir gætu við unað. Og ég held, að lausnin sé ekki langt frá, þar sem er sú sáttatillaga, sem fyrir lá hér í vetur eða haust frá sáttasemjurum, þó að ég telji hana ekki ná alveg nógu langt. Og vonandi verður áfram haldið að leita hliðstæðrar lausnar og þar var lagt til og ég vil vænta þess, að hv. 5. þm. Norðurl. e. leggi því lið, að svo megi takast. Hv. 3. þm. Norðurl. e. (IG) talaði hér einnig og vék réttilega að því, hver eru upptök þessa máls, upptök þeirrar deilu, sem orðið hefur um Laxárvirkjun, sem er ákaflega löng og ströng og ég vil segja einnig, að þar hafi komið fram mikið af villandi frásögnum, bæði í blöðum og útvarpi og jafnvel sjónvarpi. En ég vil taka undir það hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., að það er mjög nauðsynlegt að rekja upptök þessa máls, rekja málið frá upptökum til þess dags, sem nú er yfir okkur hlutlaust, svo að fólk í landinu viti og skilji meira, en það veit um þetta mál nú vegna einhliða upplýsinga, vil ég segja, svo að ég kveði ekki fastara að orði, um þetta stóra mál. En þetta er nóg um Laxárvirkjunarmálið sjálft. Þó ætla ég að bæta því við, að ef aldrei hefði komið upp sú fáránlega hugmynd hjá forráðamönnum Laxárvirkjunarstjórnar, sem í upphafi var að gera Gljúfursversvirkjun í öllum fimm áföngum og þar með breyta löndum og vötnum stórkostlega, eigendum til tjóns og einnig að breyta náttúru til mikilla óbóta, ef þessi hugmynd hefði aldrei komið upp, heldur væri nú aðeins verið að ræða um virkjun á borð við þá, sem hönnun Laxárvirkjunar III gerir ráð fyrir, þá mundi enginn maður í héraði hafa sagt neitt.

En út af sjálfu frv. um náttúruvernd við Laxá og Mývatn vil ég segja það, eins og ég sagði raunar hér um daginn við þessa umr., að það kom fram vegna þeirra fyrirhuguðu breytinga á náttúrufari í héraðinu, sem Gljúfursversvirkjunar áformið var, til þess að afstýra náttúruspjöllum af völdum virkjunar. Nú tel ég, að sú ástæða sé ekki mjög fyrir hendi, þar sem málið er komið þar, sem það er komið nú, ekki sízt ef lengra yrði gengið til móts við landeigendur, heldur en í tillögum sáttasemjaranna nú í vetur. Eigi að síður er Laxársvæðið allt og Mývatn svo merkilegt, að ég álít, að það sé nauðsynlegt að setja sérstök lög um verndun þess, þó að ekki sé vegna virkjana beinlínis.

Ég minntist á dögunum á olíutankana, sem eru á bökkum Mývatns við hvert hús, sumir stórir og sums staðar fleiri en einn. Ég álít, að það verði að taka þessa tanka í burtu eða tæma þá og hita húsin í kringum Mývatn með rafmagni, en ekki olíu, því að það býður svo gífurlegri hættu heim að hafa olíuna á bökkum þessa merkilega vatns vegna fuglsins. Einnig tel ég, að það sé nauðsynlegt að gera róttækar ráðstafanir til þess að vernda fuglinn fyrir netjunum, sem hafa eyðilagt hann í stórum stíl því að þeir, sem netin eiga, geta ekki að gert, þó að hann fari í þau, ef lagt er á annað borð á þeim tíma þar í vatnið, sem fuglinn heldur sig, þegar hann er að alast upp. En það er einmitt gert um það bil. Ef flóarnir væru friðaðir fyrir netjaveiði tvo mánuði, jafnvel þó að það væri ekki alveg að öllu leyti, heldur að einhverju leyti og þá með eftirliti, þá væri fuglinum að mestu bjargað frá netjadauðanum. Þá er einnig nauðsynlegt, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að verja þetta svæði fyrir mink, en hvergi á landinu mun vera eins erfitt að verja nokkurt svæði fyrir mink eins og Mývatn og Laxá vegna hraunanna. Þetta mundi kosta mikið fé. Svo þarf nauðsynlega að takmarka ferðir hraðbáta um Mývatn og það þarf líka nauðsynlega að takmarka ferðamannaumferð um svæðið fyrri hluta sumars, meðan hreiður eru og ungarnir litlir. Það mætti fleira upp telja, sem er nauðsynlegt að gera til verndar þessu svæði og mjög eðlilegt, að um það gildi sérstök lög eins og t.d. um Þingvallasvæðið. En þegar kemur að því að afgreiða þetta frv., sem hér liggur fyrir og samið var á vegum náttúruverndarráðs í fyrra, að vísu eftir óskum manna norðan úr landi, þá kemur á daginn, að ýmislegt er í því, sem óhjákvæmilega þarf að breyta. Og mér verður fyrst fyrir að líta á það, hver á að bera kostnaðinn af því að varðveita allt þetta svæði fyrir náttúruspjöllum héðan í frá. Um það er ekki eitt orð í frv. En nær liggur, að þó sé gert ráð fyrir því, að um það gildi sömu reglur eins og um aðra náttúruvernd, að sýslusjóður á viðkomandi stað borgi 1/4, en ríkissjóður 3/4. Þarna mundi vera um svo gífurlegar upphæðir að ræða, ef þetta ætti að gera á nógu róttækan hátt, að ég sé ekki nokkrar líkur til þess, að sýslusjóður Suður–Þingeyjarsýslu gæti staðið undir því, enda væri það ekki sanngjarnt.

Ýmislegt fleira kemur svo inn, sem breyta þarf og verður mér þá hugsað til bréfs eða raunar símskeytis, sem ég fékk frá nokkrum merkum Mývetningum í fyrra, þegar þetta frv. var lagt fram, þar sem þeir töldu, að ýmsu þyrfti nauðsynlega að breyta í frv. Ég held, að það hafi staðið nöfn 12 eða 14 merkra Mývetninga undir þessu skeyti og þeir mótmæltu ýmsu í þessu frv., sem þá kom á daginn, að snerti einmitt einstaka eigendur landa kringum Mývatn. T.d. snerust mótmælin um þessa grein frv., sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt skal að reisa þar mannvirki önnur en þau, er eðlileg mega teljast í sambandi við búskap á lögbýlum, án leyfis náttúruverndarráðs.“

Þessu mótmæltu þessir Mývetningar harðlega, þó að fram kæmi að vísu í ályktun, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. las hér áðan, frá sveitarfundi eða sveitarstjórnarfundi, að ekki var á þetta minnzt. En það gæti svo sem skeð, að þegar ætti að fara að lögbinda ýmis ákvæði í þessu frv., þá kæmi upp einhver ágreiningur meðal Mývetninga sjálfra.

Í öðru lagi mótmæla þessir menn harðlega 4. gr. frv., sem ég vil einnig lesa, með leyfi hæstv. forseta :

„Í samráði við sveitarstjórn Mývatnssveitar getur náttúruverndarráð bannað umferð óviðkomandi manna um tiltekin svæði í sveitinni á tímabilinu frá 1. maí til 1. október ár hvert. Einnig skal heimilt að takmarka ónauðsynlega umferð um vatnið á sama tímabili.“

Þessu var harðlega mótmælt líka. Ég ætla, að fleira kunni að koma upp, þegar kemur að því að afgreiða þetta frv., sem ég er eindregið samþykkur að reynt verði að gera sem fyrst. Og þess vegna mun það ekki vera lítið vandaverk fyrir þá n., sem um það fjallar, að taka öll atriði þess til greina og ganga vel frá, svo að ekki verði ósanngirni í eða mikil óánægja út af. Skal ég svo ekki eyða meiri tíma í umr. um þetta mál, en tek aftur fram það, sem ég byrjaði á, að það er nauðsynlegt að finna lausn á Laxármálinu án óskapa og ég held, að hún sé finnanleg, ef góður vilji er til og inn í málið er ekki blandað einhverju og einhverju, sem ætti utan við það að standa og finnst mér, að nóg sé búið að gera af því áður á umliðnum tíma.