17.02.1971
Neðri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég er nú búinn að tala það mikið í þessu máli, að samkv. þingsköpum hef ég aðeins leyfi til þess að gera aths.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. (SV) talaði hér áðan um það geðvonzku kast, sem ég hefði fengið hér um daginn vegna afstöðu Framsfl. í þessum málum, þar sem ég harmaði það, að talsmaður Framsfl. þá hefði enn einu sinni sýnt, að flokkurinn á erfitt með annað en hafa já—já— og nei–nei–stefnu í stórmálum. Út af þessari aths. um geðvonzku kastið vil ég nota þetta tækifæri til þess að láta í ljós þakklæti mitt til hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir það notalega andrúmsloft, sem fylgir því hér í salnum, hvað hann er ávallt í sérstaklega góðu skapi, þegar hann heldur ræður.

Ég bendi mönnum á það, að þeir menn, sem talað hafa hér af hálfu Framsfl., hafa uppi allt annan tón en þann, sem fulltrúi Framsfl. hafði hér um daginn. Nú er kveðið miklu sterkara að orði og afstaðan orðin miklu ótvíræðari til þessara mála sem við erum hér að deila um, þ.e.a.s. Laxárvirkjunarmála. Ég vil í þessu sambandi segja, að viðkunnanlegra hefði mér nú þótt, að sú afstaða hefði komið fram um daginn, áður en haldinn var sá glæsilegi fundur, sem haldinn var í Háskólabíói um þessi mál núna um daginn, þar sem ótvírætt kom í ljós, hver vilji alls þorra almennings er í þessum má1um, hver vilji þjóðarinnar er og þar með náttúrlega hver skylda okkar er hér á þingi varðandi þessi mál. En því miður kom þessi afstaða ekki fram fyrr en núna í dag. Það hefur svona aðeins verið ýjað í þá áttina, að menn væru að tala hér í þeim tilgangi að veiða atkvæði á tilteknum stöðum. Ég vildi skjóta því að hv. framsóknarmönnum, að ég er ekki í framboði í Norðurl e., en beint hefur verið þannig skeytum til mín, að maður skyldi halda það. En út af þessum fullyrðingum, að menn væru að fiska eftir atkvæðum, þá vil ég leyfa mér að láti í ljós grunsemdir um það, að þessi breytta afstaða framsóknarmanna núna í þessum málum stafi af því, að þeir finna, hvar samúðin er og hver vilji manna er og þar með, hvar atkvæðin eru.

Hv. fyrsti ræðumaður hér í dag, Bragi Sigurjónsson, sendi frændum okkar þar nyrðra heldur en ekki kveðjurnar og talaði um múgsefjun í þessu sambandi. Fundurinn t.d. í Háskólabíói er dæmi um múgsefjun og það er samúðin með ofríkismönnunum, sem hefur orðið ofan á, en ekki með lítilmagnanum, þar sem er Laxárvirkjun og ríkisvaldið. Ég læt í ljós harm minn vegna þessarar afstöðu þessa hv. þm. og ég vil í sambandi við aðra aths., sem hér kom fram varðandi eignarrétt og afstöðu okkar Alþb.–manna til eignarréttarins, láta þess getið, að ég tel ekki, að land okkar, framtíð þess og einstakra hluta þess eigi að veru undir því komin, hvort tilteknir menn eiga það eða eiga það ekki, en í þessu tilfelli læt ég í ljós ánægju mína með það og sannarlega fagna því, að þeir menn, sem eiga þetta land þar nyrðra, skuli vera Þingeyingar af því tagi, sem þeir eru, en ekki Þingeyingar af því tagi, sem sá hv. ræðumaður er, sem hér talaði fyrstur í dag.

Það hefur verið varað við því að gera þetta að flokksmáli. Það hefur verið þjarkað hér um það, að vissir menn væru að reyna að eigna sér þetta sem flokksmál og þá fyrst og fremst við Alþb.–menn. Það, sem við gerum, er það að taka skýra afstöðu. Reyndar vantar nú enn á skýra afstöðu framsóknarmanna töluvert í sambandi við málaferlin gegn Þingeyingunum 65, þar sem við fullyrðum, Alþb.–menn, að hinn raunverulegi sökudólgur sé látinn sleppa, þ.e.a.s. Laxárvirkjun, en hins vegar höfðað mál gegn þeim mönnum, sem hafa orðið að sæta ofríki af sökudólgnum. Afstaða framsóknarmanna til þessa máls er að mínum dómi enn ekki orðin nógu skýr hér, hvort þeir eru sammála okkur Alþb.–mönnum í þessu, hvort hinn raunverulegi ofríkisaðili þarna er Laxárvirkjun að þeirra dómi eða landeigendur. En ég sé ekki, að neinu máli sé gerður ógreiði með því að jafn ágæt samtök eins og Alþb. láti í ljós eindreginn stuðning við málstaðinn. Og þegar hv. fyrsti ræðumaður í dag, Bragi Sigurjónsson, segir, að við séum að reyna að fiska atkvæði fyrir norðan út á þetta mál, þá vil ég segja honum, að við erum að sjálfsögðu að því, vegna þess að afstaða manna þar nyrðra er okkar megin í þessu máli, alls þorra manna þar nyrðra. Það sakar ekki, að þetta verði flokksmál að þessu leyti, að flokkar taki afstöðu. Að vísu hafa flokkar ekki tekið eins skýra afstöðu eins ag við Alþb.–menn höfum gert hér, en fulltrúar allra flokka hafa þó talað í þessu máli nema eins. Þau samtök eða sá flokkur, sem nefnir sig Samtök frjálslyndra og vinstri manna, hefur ekkert látið í sér heyra í þingsölum um þetta mál. Og ég vil leyfa mér að benda á þetta, vegna þess að hér á sæti á Alþ. formaður þeirra samtaka og það væri sannarlega fróðlegt fyrir okkur og þá ekki sízt Þingeyinga að heyra, hver afstaða þeirra samtaka er.