22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. þm. Austf. hafa nú, sem vonlegt er, Íýst yfir ánægju sinni með framkomið frv. um virkjun Lagarfoss, sem hér er til umr. Það er vissulega ástæða til þess fyrir aðra þm. að samfagna þm. þessa landshluta vegna frv., því að framfaramál eins og rafvirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir héraðanna eru vissulega þess eðlis, að þau eiga ekki að vera pólitískt bitbein hvorki hér á Alþ. né annars staðar. En það eru fleiri landshlutar en Austfirðir, sem hafa þörf fyrir aukna raforku, og á Vestfjörðum hagar að mörgu leyti svipað til með raforkuna eins og á Austfjörðum. Þar var á sínum tíma ráðizt í tiltölulega litla vatnsaflsvirkjun á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Þar voru að vísu fyrir nokkur orkuver, en nú er svo komið, að rafmagnsframleiðslan á Vestfjörðum fer að verulegu leyti fram með dísilvélum.

Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann geti gefið upplýsingar um það hér á þessum stað, hvað líði undirbúningi að auknum virkjunum fyrir Vestfirði. Eins og kunnugt er, þá er aðalvatnsaflsvirkjunin, sem Rafmagnsveitur ríkisins eiga og reka, í Arnarfirði, við Mjólká, og þar eru miklir og margvíslegir möguleikar til þess að auka rafmagnsframleiðsluna. Mér er kunnugt um, að það hafa verið gerðar á þessu ýmsar athuganir, og munu þær enn vera í gangi, en mér er ekki kunnugt um, að ákvörðun hafi verið tekin um neina viðbót þar að öðru leyti en því, að fyrirhugað er að gera þar stíflu við Langavatn á næsta ári til þess að auka vatnsmiðlun við Mjólkárvirkjun. Þetta mun út af fyrir sig vera til bóta, því að það mundi þá e. t. v. draga nokkuð úr þörfinni á rafmagnsframleiðslu með olíu, en þetta er ekki nægilegt.

Það er svo komið á Vestfjörðum, þar sem mjög mikil framleiðsla er á fiskafurðum í frystihúsum svo að segja í hverjum firði, að það háir framleiðslunni, að frystihúsin verða að stöðva vélarnar um mesta álagstímann, af því að rafmagnið er ekki nóg. Ég geri alveg ráð fyrir, að þm. Vestf. eigi eftir að hreyfa þessu máli frekar á þessu þingi. Þarna er orðið um mikla og brýna þörf að ræða. En um leið og ég óska þm. Austf. og Austfirðingum öllum til hamingju með þennan árangur, sem þeir hafa nú náð í sínum virkjunarmálum, þá vil ég nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti gefið nokkrar upplýsingar hér um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir fyrir Vestfirði.