24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3023)

165. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni þeirra orða, sem hv. 1. þm. Reykn. lét hér falla, lýsa því, að mér er að vísu kunnugt um þetta ákvæði í hinu nýja frv. til tekju- og eignarskattslaga, sem lagt hefur verið hér fram að frumkvæði hæstv. ríkisstj., en það frv., sem ég var að mæla fyrir, var lagt fram nokkru áður en það stjfrv. sá dagsins ljós, og mér var að sjálfsögðu þá ekki kunnugt um, hvað í því stjfrv. kynni að vera. En ég get vel lýst því yfir, að þar sem mál það, sem ég var að mæla fyrir fer til sömu n. eftir þessa umr. og frv. ríkisstj., þá get ég sem flm. vel fallizt á, að það fái þar athugun og síðan, ef það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykn., að frv. ríkisstj. gangi að þessu leyti lengra heldur en mitt, þá get ég vel fallizt á það, að mitt frv. verði látið daga uppi í n.