11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. þetta um virkjun Lagarfoss og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og fram kemur í áliti n. á þskj. 195. Í frv. felast þau meginatriði, að ríkisstj. sé heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Lagarfoss til raforkuvinnslu í allt að 8 þús. hestafla orkuveri, leggja þaðan aðalorkuveitu að Egilsstaðakauptúni og tengja það orkuveitusvæði Grímsárvirkjunar — enn fremur, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs til þessa verkefnis eða ábyrgjast lán, sem nemi allt að 180 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Fyrir n. lá bréf frá Rafveitu Reyðarfjarðar, þar sem þess er óskað, að Rafveitu Reyðarfjarðar verði heimilað að gerast eignaraðili að Lagarfossvirkjun. Þetta erindi var ekki stutt samþykktum annarra aðila hvorki sveitarstjórnar Reyðarfjarðarhrepps né samþykktum sveitarfélaga á Austurlandi. N. leit svo á, að hér væri um það stórt mál í skipulagningu orkuvinnslu að ræða, að ekki væri unnt að verða við þeirri ósk, sem í þessu erindi felst, ekki sízt þar sem það var ekki stutt samþykktum neinna aðila, sem líklegt væri, að gerðust einnig aðilar að þessu fyrirtæki á Austurlandi. Skipulag orkuvinnslu hér á landi er, sem kunnugt er, í höndum fleiri aðila. Í fyrsta lagi er það í höndum ríkisins, þ. e. Rafmagnsveitna ríkisins, í annan stað á vegum sameignarfélaga ríkis og sveitarfélaga, svo sem er um Landsvirkjun og Laxárvirkjun, og í þriðja lagi í höndum einstakra sveitarfélaga eins og t. d. Rafveitu Reyðarfjarðar, sem er eina orkuveita sveitarfélags á Austurlandi. Sú skoðun kom fram í n., enda þótt n. tæki enga afstöðu til þess, að heppilegt væri að stefna að því, að í framtíðinni yrði þessi skipan ekki með svo margbrotnum hætti — annað tveggja yrði ofan á, að orkuvinnsla og orkudreifing öll væri í höndum ríkisins eða hún væri í höndum sameignarfélaga ríkis og sveitarfélaga.

Margsinnis hefur verið um það rætt, að auka þyrfti eða koma á jöfnu verði á raforku til almenningsnota hér á landi, hvar sem væri á landinu. Verulegt gjald er innheimt af orkusölu til þessarar jöfnunar, en þó ekki nærri því svo, að fullt jöfnunarverð náist. Ef svo margbrotið kerfi er á orkuvinnslu eftir héruðum á landinu, þá er þess naumast að vænta, að hægt sé að fara fram á það með fullum rökum, að jöfnunarverð komist á. Þess vegna var þessari skoðun hreyft í n., að æskilegra væri, að sama skipulag ríkti í þessum efnum um landið í heild.

Hér er komin fram till. frá hæstv. iðnrh., sem felur það í sér, að ráðh. verði heimilað að veita samtökum sveitarstjórna á Austurlandi eignaraðild að virkjun Lagarfoss og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu, sé þess óskað. Þessi till. var ekki fram komin, þegar n. afgreiddi þetta mál, og hefur n. því ekki tekið afstöðu til hennar. Að svo mæltu vil ég ítreka þá skoðun n., að hún mælir með því, að frv., eins og það kom til hennar, verði samþ. óbreytt, en einstakir nm. munu hafa óbundnar hendur um afgreiðslu á þeirri till., sem hæstv. iðnrh. hefur lagt hér fram.