03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það hefur nokkuð verið talað hér um styrkina og metnaðinn og það allt. Ég held, að það sé nú ósköp hæpið að ræða á þeim nótum um þessi mál. Okkar þjóðfélag er nú einu sinni orðið þannig upp byggt, að það er alsiða í ótal greinum, bæði í atvinnugreinum og mörgum öðrum greinum, að samfélagið hleypur undir bagga, þegar stuðnings er þörf á ýmsum sviðum. Ég held því, að það sé ástæðulaust að ræða sérstaklega þá hlið í sambandi við þetta frv. hér. Það er ein alveg augljós ástæða til þess, að styrkjum er mikið beitt í sambandi við landbúnað til þess að tryggja, eftir því sem unnt er, að þeir menn hafi lífsframfæri, sem við hann vinna. Sú augljósa ástæða er hinar margháttuðu og stórkostlega breytilegu aðstæður og afkomumöguleikar ár frá ári í hinum ýmsu landshlutum vegna breytilegs veðurfars og af ýmsum slíkum náttúrlegum aðstæðum. Þetta hefur orðið til þess, að menn hafa nú á þessum samhjálpartímum talið sig þurfa að beita þessum ráðum, ekki sízt á þessum vettvangi.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að gróðureyðingin í túnunum, eins og hún hefur komið fram á undangengnum áratug og þó raunar lengur, að hún sé mjög stórfelld, sé í raun og veru mjög alvarlegt vandamál. Það gefur auga leið, að við svo stórfelldu og alvarlegu vandamáli verður að snúast eftir ýmsum leiðum og það verður að hafa mörg járn í eldi til þess að mæta slíkum vágesti, allt frá því að efla rannsóknarstarfsemi og tilraunastarfsemi og til þess, að fækka þurfi stórlega búfé á einstökum búum og í einstökum sveitum, þegar harðast fellur. Meginátökin, sem gerð hafa verið til þess að mæta þessum vágesti, tel ég vera að gera mönnum kleift að kaupa fóður, þegar í óefni er komið.

Ég hef lýst þeirri skoðun að það hafi vantað mikið á, að rannsóknarstarfsemi og tilraunastarfsemi hafi verið rekin með þeim myndarskap og veitt til þeirrar starfsemi það fjármagn, sem þyrfti. Og ég hef líka lýst þeirri skoðun hér og þó oftar annars staðar, að ég tel, að alls yfir þá hafi mjög skort á það, að menn hafi beitt sér að því, leiðbeinendur og bændur sjálfir, að tryggja verkun þess fóðurs, sem næst með þeirri verkunaraðferð, sem alkunn er fyrir löngu og örugg næstum hverju sem viðrar, að verka fóðrið vott. Og sú aðferð hefur enn orðið traustari eftir að efnablöndun er komin til sögu.

Sú leið, sem mest hefur verið farin, þ. e. hjálpin við fóðurkaupin, hefur stundum leitt til þess, að legið hefur við stóróhöppum. Mér verður efst í huga árið 1951, þegar gengið var nokkuð langt í því að hvetja menn til að setja á í því trausti, að hjálpað yrði um fóður, eins og gert var í ríkum mæli. En þá munaði ekki miklu, að til stóróhappa drægi í heilum landshluta, vegna þess að alveg einhliða var horft á þessa leið, en ekkert greitt fyrir því að fara þá leið, sem lagt er til að farin verði öðrum þræði hér í þessu frv., þ. e. að greiða fyrir því, að menn geti í neyðartilfellum fækkað bústofni í þeirri von að eiga þess kost að koma honum upp aftur. Ég held, að það sé alveg full ástæða til þess að íhuga þessa leið vandlega, þó að við flm. teljum hana auðvitað ekki einhlíta, það hefur margsinnis komið fram í okkar málflutningi bæði nú og endranær.