03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið þessar umr., en ég get þó ekki stillt mig um að skjóta hér inn í örfáum orðum, í fyrsta lagi í sambandi við það, sem hv. 9. landsk. þm. sagði hér áðan, að hann hefði ekki átt við hæstv. landbrh., þegar hann viðhafði þessi ummæli, er ég hafði eftir honum. En ég vil bara vekja athygli á því, að hann segir: „Yfirstjórn og hagsýni í landbúnaðinum“ — og við vorum að ræða í þessum umr. um landbúnaðarmál yfirleitt. Ég veit auðvitað ekki, við hvað hann átti, en eftir orðanna hljóðan getur hann ekki átt við annað en hæstv. landbrh. Hvað er yfirstjórnin í landbúnaðinum? Um það mál ætla ég svo að láta þetta nægja.

En hv. 11. landsk. þm. vildi meina, að ég hefði verið að bera saman ræður þeirra hv. 9. landsk. þm. og hans í minni ræðu áðan. Það er alger misskilningur. Ég hafði aðeins upp eftir þeim báðum, hvað þeir hefðu sagt. Ég var ekki að bera það saman, en það var dálítið athyglisvert, að svona reyndur, gamall bóndi skyldi vilja skrifa þetta eingöngu á reikning máttarvaldanna um afkomuna og áföllin fyrir norðan. Við búum nú bara í svona landi, að við getum alltaf vænzt þess, að tíðarfar sé misjafnt. Það er ekkert nýtt og það ættum við að þekkja af langri sögu, því að auðvitað verður að breyta um ýmsar aðferðir og stefnu, eftir því hvernig tíðarfar og annað er á hverjum tíma, og hann gat í raun og veru ekki átt við annað í sinni ræðu en að hann væri mjög óánægður með þá aðstoð, sem þarna hefði verið veitt, sem ég er ekkert hissa á og tel einmitt, að hann sé meiri maður eftir en áður að hafa látið þetta í ljós, en hins vegar harma ég það, að hann skuli vilja taka það hér aftur, sem hann var þó búinn að segja.

Hv. þm. var að tala um það, að mér hætti til að skamma hæstv. landbrh. Það er nú svo, að þegar maður er að tala um landbúnaðarmál, þá verður maður náttúrlega að ræða um það við þá menn, sem stjórna þessum málum. Ekki dettur mér í hug að fara að skamma hv. þm. Ég veit, að hann ræður engu um þessi mál, og það væri að snúa sér að manni, sem væri þar alveg saklaus, enda mundu þessi mál vera á allt annan veg, ef hann réði, þannig að mér finnst þetta vera dálítið einkennilegur málflutningur hjá þm. Hins vegar er ég honum þakklátur fyrir það, ef hann vill fara að kenna mér ræðumennsku, og ég er ekki að misvirða það við þm., ef hann ætlar að gera það við mig og fleiri hér í hv. d. Það er alveg rétt, að ég hef fundið að við hv. 11. landsk. þm. í sambandi við afgreiðslu mála úr hv. landbn. Mér finnst, að sum þessi mál gangi seint, og á síðasta fundi, sem ég var á þar, óskaði ég eftir því, að ég fengi um það skýr svör, hvort það frv., sem nú hefur verið lagt fram, ég held í gær, um stofnlánadeildina, ætti að ná fram að ganga, og ég mundi þá, ef það væri ekki, fara fram á það, að n. afgreiddi með einhverjum hætti þau mál, sem nú hafa verið hér til umr. og snerta þessa sömu þætti, þó að það sé náttúrlega líka í sambandi við breytingu á jarðræktarlögunum og hefði ekki þess vegna þurft að salta það til að bíða eftir þessu frv. En nú vil ég spyrja þm.: Hefur hann orðið við þessum tilmælum mínum um að fá við því skýr svör, hvort þetta frv. á að ná fram að ganga á þessu þingi? Ég tel það nokkurs virði, að það komi fram sem fyrst.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta öllu meira. Ég held, að hér sé einmitt verið að ræða um ákaflega alvarlegt mál, kannske alvarlegra en margir hv. þm. gera sér grein fyrir. Það er enginn vafi á því, að ef lítið verður gert í þessum málum, verður stórfækkun í sumum landshlutum, fækkun, sem getur leitt til þess, að það verði jafnvel heilar byggðir, sem fara í auðn á fáum árum, ef ekki þreytist tíðin verulega frá því, sem hún hefur verið á þessum áratug. Og þetta hlýtur að verða eitt af þeim málum, sem verður blátt áfram kosið um í næstu kosningum, hvernig á að taka á þeim á næstunni, ef ekki breytist mjög til batnaðar með tíðarfar frá því, sem nú er.