14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3059)

171. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég er algerlega sammála því atriði þessa frv., að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins beri skylda til að leggja fram fjármagn til þess að vekja athygli almennings, ekki sízt ungs fólks, á því, að það er orðið sannað mál, tvímælalaust sannað mál, að það er mjög hættulegt heilsu manna að reykja, sérstaklega sígarettur. Hins vegar finnst mér það framlag, sem í þessu frv. felst, vera furðulega lágt. Þarna er talað um 2% af brúttósölu eða heildsöluverði vindlinga, samtals 1 millj. eða svo á næsta ári. Þetta er ákaflega lítil upphæð, ef á að nota hana í auglýsingar í blöð, hljóðvarp og sjónvarp. Ég hugsa, að menn þurfi ekki annað en að átta sig svolítið á því, hvað það kostar að auglýsa, til þess að sjá, að ákaflega lítið mundi muna um þessa upphæð. Og það, sem mér finnst vera smæst í þessu sambandi, er það, að ætlazt er til, að um leið verði felld niður ráðstöfun, sem þó var samþykkt hér á þingi í fyrra, þ. e. að hafðar verði sérstakar merkingar á sígarettupökkum. Þaðan á að taka meiri hluta þessarar upphæðar. Það má sem sé ekki auka framlag stofnunarinnar í þessu skyni nema um sáralitla upphæð, nokkur hundruð þúsunda.

Ég hygg, að menn muni eftir því, að þegar Alþ. samþykkti í fyrra, að sett skyldi viðvörun á sígarettupakka, þá var það tekið æði óstinnt upp af ýmsum sígarettuframleiðendum. Mér fannst íslenzk stjórnarvöld vera furðu lengi í viðræðum við þessa framleiðendur, samningamakki, með þeim árangri m. a., að ekki tókst að framkvæma lagasetningu Alþ. fyrr en löngu eftir að hún átti að vera komin til framkvæmda. En í framhaldi af þessu þá var þessi ákvörðun Alþ. framkvæmd á ákaflega dauflegan hátt, að því er mér finnst. Aðvörunin var sett neðan á pakkann, þar sem enginu maður lítur á pakkann. Og hún var auk þess prentuð með ákaflega grönnum hástöfum, svo að það er hreinlega erfitt að lesa úr því, hvað þar stendur. Ef menn hefðu ætlazt til þess, að þessi áletrun vekti athygli, þá hefði auðvitað þurft að fá eitthvert auglýsingafyrirtæki til að ganga þannig frá henni, að hún gengi í augun og setja hana ofan á pakkann, þar sem menn yrðu hreinlega að þreifa á henni eða rífa hana af, áður en þeir kæmust í pakkann. Ef í þessu hefði verið full alvara, þá átti auðvitað að hafa þennan hátt á. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að í ýmsum löndum er nú einmitt verið að taka ákvörðun um slíkar merkingar á sígarettupökkum. Mér er kunnugt um, að það er verið að undirbúa það í Noregi. Og ég mundi telja það algerlega óeðlilegt, að við felldum niður þessa merkingu á sígarettupökkum á sama tíma og verið er að taka hana upp í löndunum umhverfis okkur. Ástæðan fyrir því, að þessi ráðstöfun hefur haft lítil áhrif, er að minni hyggju fyrst og fremst sú, hvað þetta hefur verið slælega framkvæmt.

Nú er það svo með sölu á sígarettum, eftir að það er orðin augljós vitneskja, að þar er um mikla hættu að ræða, að mér finnst það vera orðið æði mikið alvörumál fyrir sjálfan ríkissjóð og fyrir þá menn, sem veita forstöðu tóbaksverzlun ríkisins. Hæstv. fjmrh. kemur hér í ræðustól á Alþ. aftur og aftur og lýsir andstöðu sinni við sígarettureykingar. Mér dettur ekki í hug að draga það í efa, að hann segir það af fullum heilindum. En hæstv. ráðh. er í þeirri aðstöðu, að hann á líka að tryggja ríkissjóði hámarkstekjur. Mér virðist, að í honum togist dálítið á þessi gamalkunna barátta milli holdsins og andans, og mér hefur virzt hingað til, að holdið hafi miklu betur. Ég fæ ekki betur séð en þegar þessi hæstv. ráðh. verður að taka ákvörðun um það, einu sinni til tvisvar á ári, hvernig á að verðleggja t. d. tóbak, þá séu útreikningar hans miðaðir við það að tryggja ríkissjóði hámarkstekjur. Og það er eitt, sem ég á dálítið erfitt með að skilja, ef mönnum er alvara með að beita sér gegn sígarettureykingum. Hvernig stendur á því, að verðlag á sígarettum er u. þ. b. helmingi lægra á Íslandi en það er annars staðar á Norðurlöndum? Hæstv. ráðh. hristir höfuðið. Mér er kunnugt um, að í Danmörku er sígarettupakkinn svo til tvöfalt hærri en á Íslandi miðað við gengið. Ef hæstv. ráðh. tæki upp þá reglu að því er varðar sígarettur, sem oft er talað um í sambandi við aðrar vörur, t. d. í sambandi við benzínverð fyrir nokkrum dögum, að selja þær á svipuðu verði hér og annars staðar á Norðurlöndum, þá hugsa ég, að það mundi draga ákaflega mikið úr sígarettureykingum, en þá mundi væntanlega einnig draga úr tekjum ríkissjóðs.

Ég held, að við eigum ekki að tala um þessi mál á neinni tæpitungu hér. Þetta er fullkomið alvörumál og ef við meinum, að þetta sé fullkomið alvörumál, þá verðum við líka að vera menn til að taka á okkur þau óþægindi, sem af því kynnu að stafa, ef tekjur ríkissjóðs lækkuðu um allverulegar upphæðir. Og ég tel, að hæstv. ráðh. þurfi sérstaklega að búa sig undir það.