11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa við meðferð þessa máls komið fram þau sjónarmið, að æskilegt væri að finna eitthvert rúm fyrir hugsanlega, sameiginlega eignaraðild eða rekstraraðild sveitarfélaga með Rafmagnsveitum ríkisins í þessari virkjun, sem hér um ræðir í þessu frv., og svipuð sjónarmið hafa reyndar komið fram annars staðar eða í sambandi við undirbúning annarra rafvirkjana eins og t. d. í Norðurl. v. Ég felli mig út af fyrir sig vel við þá hugmynd, að sveitarstjórnirnar, ef þær óska þess, á hverjum stað eigi þess kost að gerast eignaraðilar með Rafmagnsveitum ríkisins að virkjunum, bæði virkjunarframkvæmdum og rekstri rafmagnsveitnanna á viðkomandi stöðum. Þm. Austf. áttu viðræður við mig um þetta nú fyrir skömmu. Það var greinilegt, að það er nokkur skoðanamunur hjá þeim, en megináherzlu lögðu þeir á það, að slíkt yrði ekki til að tefja framgang þessa máls og allra sízt framkvæmdir í sambandi við Lagarfossvirkjunina.

Eftir þennan fund reyndi ég að samræma þau sjónarmið, sem fram komu á fundinum með þm., í brtt. á þskj. 230, og fannst mér fara bezt á því, að brtt. yrði þá gerð við 4. gr., en þar er um að ræða heimild til þess, að yrði þess óskað af samtökum sveitarstjórna á Austurlandi, að þau gætu gerzt eignaraðilar að virkjun Lagarfoss og öðrum orkuverum á svæðinu, þá væri ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins. Þetta mundi, eins og nú háttar í framkvæmd, ekki hala nein áhrif á gang málsins. Ég gerði fastlega ráð fyrir því, þar sem þetta er töluvert óljóst enn í hugum sveitarstjórna þar fyrir austan. Það hefur, eins og réttilega hefur verið tekið fram, aðeins komið fram ein ósk frá einni rafveitu á Reyðarfirði um að gerast þarna aðili, og þá bygg ég, að þetta mundi í framkvæmdinni verða þannig, að rafmagnsveiturnar eins og segir í gr. mundu koma virkjuninni á fót. Síðan væri undir atvikum komið og vilja manna og aðstöðu þar fyrir austan, hvort þeir síðar meir kynnu að óska eftir einhvers konar eignaraðild. En það er ekkert ólíklegt, að það kynnu að skapast þau viðhorf, að slíkt kæmi fram á síðari stigum málsins vegna hugsanlega breyttra kringumstæðna á Austurlandi — við skulum segja vegna aukinnar síldveiði aftur eins og var hér, þegar síldveiði var þar bezt, og það örvar allt atvinnulíf og alla uppbyggingu iðnrekstrar í sambandi við síldariðnaðinn og kannske annan iðnað og bætir aðstöðu heimamanna í sveitarfélögunum til þess að geta haft hönd í bagga með rekstri slíkra rafveitna. Ég taldi, að með þessu væri ég að koma til móts við það, sem menn gætu verið ásáttir um eftir viðræðurnar við þm. Austf., og vona, að það þurfi ekki að verða ágreiningur um þessa till. Hún er a. m. k. flutt í þeirri veru, að það geti orðið samstaða um hana.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en mér er kunnugt um, að það hafa komið tilmæli til forseta um, að n. fengi að athuga till. milli umr. Það tel ég eðlilegt, en ég legg áherzlu á, að þeirri athugun — ef einhverjar brtt. væru, sem menn vildu gera á þessu — yrði lokið þannig, að málið yrði afgreitt hér frá d. ekki síðar en á mánudag. Ég hef mikinn hug á því, að málið nái fram að ganga í Ed., áður en þinghlé verður fyrir jólin.