01.03.1971
Neðri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (3074)

188. mál, loðdýrarækt

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér urðu það nokkur vonbrigði, að hv. þm. Ásberg Sigurðsson, sem er forustumaður fyrir áhugamönnum um minkarækt hér í þinginu, skyldi taka neikvæða afstöðu til þessa litla frv., því að ég hélt, að þetta ætti að vera áhugamál fyrir minkaeigendur líka. Ég held, að þeir menn, sem hafa trú á minkaeldi á Íslandi og hafa trúa á því, að hægt sé að láta rætast þá spádóma, sem um þá eru sagðir, ættu einmitt að beita sér fyrir því, að hafðar séu uppi sem beztar varúðarráðstafanir. Það er vafalaust rétt hjá þessum hv. þm., að það mundi fylgja því kostnaður að merkja þessi dýr, það efast ég ekki um. En ég held, að þjóðfélagið verði að leggja þann kostnað á þennan atvinnurekstur, einmitt vegna þess að atvinnureksturinn er hættulegur umhverfi sínu á Íslandi, ef dýrin sleppa. Það er ekki einhlítt að vísa þar til reynslu annarra þjóða. Við vitum það mjög vel, að land okkar og dýralífið í landinu er allt annars eðlis en í ýmsum þjóðfélögum öðrum. Það eru til ýmis þjóðfélög í nágrenni okkar, þar sem það breytir í sjálfu sér ákaflega litlu, hvort minkar sleppa úr búrum. En sú er ekki raunin hér. Af því höfum við alvarlega reynslu áður, og við viljum ekki, að slík reynsla endurtaki sig. Ég er sannfærður um það, að það er hægt að framkvæma merkingar, án þess að af því hljótist þeir feiknalegu erfiðleikar, sem hv. þm. var að tala um. Það hefur til að mynda verið bent á þá einföldu aðferð að gera það með tattóveringu, húðflúri, og ég held, að það þyrfti ekki að skemma skinnin á neinn hátt og ætti ekki að þurfa að valda mjög miklum erfiðleikum. Ég vil því vænta þess, að hv. n. verði við þeim tilmælum mínum og hæstv. ráðh. að athuga þetta gaumgæfilega, hvort ekki er hægt að framkvæma slíka merkingu með góðu móti, og ef það reynist vera hægt, þá sé ég ekki, að það séu nokkur rök gegn því að framkvæma slíka merkingu og mér finnst, að eigendur minka eigi að hafa á því sérstakan áhuga sjálfir.