11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar setningar. Ég vil láta í ljósi ánægju mína með þá brtt., sem hæstv. iðnrh. hefur flutt við þetta frv., og mun styðja hana, og ég vænti þess, að þegar frv. um virkjun Reykjafoss í Skagafirði verður flutt hér í þinginu, verði í því frv. ákvæði, sem er í samræmi við þessa brtt. Ég get fallizt á það með hv. 4. þm.. Austf., að það sé eðlilegt, að hv. fjhn. athugi þessa till. hæstv. ráðh. á milli umr., og ég er honum sammála um það, að það væri raunar réttara að orða hana eins og hann óskaði eftir.

En ég vil nota þetta tækifæri, af því að þetta virkjunarmál er hér til umr., til að beina því til hæstv. iðnrh., að það verði ekki látið líða á löngu, þangað til frv. um virkjun Svartár eða Reykjafoss í Skagafirði verði lagt fyrir þingið. Það er búið að gefa fyrirheit um það, og það væri mér mikið ánægjuefni, ef það gæti orðið nú, áður en þingið fer heim í jólafrí, þó að það yrði ekki afgr. fyrr en siðar. Það mætti að vísu tala langt mál um rafmagnsmálin og skipan þeirra. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég vil aðeins minna á það, að í mínu kjördæmi er mjög rík samstaða um það, að sveitarfélögin verði aðilar að þessari virkjun, og ég held, að það sé sú stefna, sem eigi að taka, að heimabyggðirnar eigi að verulegum hluta sj álfar þessar stofnanir, þ. e. rafmagnsvirkjanirnar. Ég gæti trúað því, að með þeim hætti yrði þessum málum að mörgu leyti betur stjórnað en gert er nú, án þess að ég ætli að fara út í nokkrar ádeilur á stjórn þeirra, þó að mér finnist það vissulega, að ég gæti gert það og hefði rök fy rir því. En það er aðeins þetta, sem ég vildi segja: Ég styð till. hæstv. iðnrh. og óska eftir því, að sams konar ákvæði komi inn í frv. um virkjun Reykjafoss og það frv. fái að birtast hér í þinginu sem allra fyrst.