29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur verið unnið að kjarasamningum milli opinberra starfsmanna og ríkisins. Þetta mál eða þessir samningar hafa tekið langan tíma, og var gert upphaflega ráð fyrir því, að þeim yrði lokið fyrir síðustu áramót, en þá var samkv. sameiginlegri ósk beggja málsaðila óskað eftir því, að Alþ. veitti heimild til þess að fresta samningunum um eitt ár, til þess að auðið yrði að vinna að þeim á þann hátt, sem aðilar gerðu ráð fyrir, að gert yrði. En það mun hv. þdm. einnig kunnugt, að gert er ráð fyrir því að vinna að þessum samningum með nýjum hætti, þ. e. a. s. leggja til grundvallar svokallað kerfisbundið starfsmat. Það mat hefur tekið mjög langan tíma og hefur reynzt miklum mun erfiðara en menn í rauninni í upphafi gerðu ráð fyrir, en engu að síður eru aðilar sammála um það, að þarna hafi verið unnið mjög þarft og gott verk. Það hefur síðustu mánuðina verið þrotlaust að því stefnt að geta lokið samningum svo snemma, að hægt væri að hafa eðlilegan málatilbúnað í sambandi við samningsgerðina, en því miður hefur það ekki reynzt auðið að ljúka samningum nú fyrir 1. nóv., enda þótt að því hafi verið unnið af kappi af báðum aðilum. Það er hins vegar svo, eins og hv. þdm. er kunnugt, að samkv. kjarasamningalögunum ber að vísa málinu til kjaradóms hinn 1. nóv., hafi samningar ekki tekizt fyrir þann tíma. Það eru hins vegar svo góðar horfur á því, að samningar muni takast, að báðir aðilar eru sammála um, að það væri mjög óæskilegt og gæti í rauninni eyðilagt samningshorfur að fara nú að vísa málinu til kjaradóms, enda þótt að vísu væri framkvæmanlegt formlega séð að afturkalla málið frá dómnum. Af þessari ástæðu eru samningsaðilar sammála um það að óska eftir því við hið háa Alþ., að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ., en í því felst, að l. er breytt á þann hátt, að frestað er um tvo mánuði skyldu til þess að leggja málið til kjaradóms, og í stað þess, að það verði nú 1. nóv. verði veittur framhaldsfrestur til ársloka. Ég vil taka það skýrt fram, að þó að þessi frestur verði veittur til ársloka, þá mun það ekki draga úr áhuga málsaðila að ljúka málinu með öllum hraða, þannig að það á neinn hátt verði til að seinka málsmeðferðinni, en það þykir hins vegar varlegra að miða við þetta tímamark, og um það er algert samkomulag.

Hv. Ed. féllst á það að afgreiða málið við þrjár umr. nú áðan, og ég leyfi mér að fara fram á það við hv. Nd., að hún sýni einnig þá tillitssemi, þar sem hér er aðeins um formlegt atriði að ræða og hefur ekki neina efnislega þýðingu og báðir málsaðilar eru um það sammála að afgreiða málið nú, til þess að ekki þurfi að halda aukafund á morgun, en nú nálgast 1. nóv., þannig að málið yrði að afgerast fyrir helgi. Ástæðan til þess, að frv. var ekki fyrr lagt fyrir hið háa Alþ. er sú, að það þótti rétt að gera það ekki fyrr en á síðustu stundu og reyna að ljúka málinu fyrir 1. nóv., en þegar ljóst var, að það reyndist ekki auðið, þá var þessi leið farin.

Ég leyfi mér því að vænta þess, herra forseti, að hv. þd. geti fallizt á að afgreiða þetta mál eins og hv. Ed., án þess að það fari til n., og geri ég því ekki till. um n., en legg til, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr.