11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Vegna ræðu hv. 4. þm. Austf. ætla ég ekki að fara að flytja hér langt mál, þó að það sé kannske einhver skoðanamunur okkar í milli. En hins vegar lít ég svo á, að bollaleggingar hans hér eigi ekki heima, fyrr en til þess kemur að athuga málið, ef þessi brtt. hæstv. iðnrh. verður samþ. og sveitarfélög á Austurlandi leita eftir því að verða aðilar, þá vitanlega koma fram öll þessi atriði, sem hann var hér að velta fyrir sér. Ég sé ekki, að þau hafi nein áhrif á þessu stigi um það, hvort þessi heimild er sett inn í lögin eða ekki. En það var þó ekki út af þessu, sem ég kvaddi mér hljóðs, heldur öðru, sem ég vildi láta koma hér fram vegna ummæla hv. frsm. um málaleitan Rafveitu Reyðarfjarðar um það að verða aðill að þessari virkjun, sem var lýst hér við 1. umr. málsins. Ég tók þannig eftir, að það hefði komið fram hjá hv. frsm., að ekki hefði legið fyrir nein samþykkt frá sveitarstjórn Reyðarfjarðar. Nú þori ég ekki að fullyrða um það, hvort þetta bréf, sem áreiðanlega var sent frá rafveitunni, hefur borið þetta með sér, en hins vegar hélt ég, að svo hefði verið, og ég vil a. m. k., að það komi hér fram, af því að mér er kunnugt um það, að áður en stjórn rafveltunnar ákvað að senda þetta bréf frá sér, þá var það samþ. af sveitarstjórn Reyðarfjarðar. Þetta vildi ég, að lægi hér ljóst fyrir.