18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

199. mál, sjúkrahús í sameign ríkis og bæjar á Akureyri

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér að flytja frv. til l. um sjúkrahús í sameign ríkis og bæjar á Akureyri ásamt tveimur öðrum hv. þm., samþingismönnum mínum úr Norðurl. e., Stefáni Valgeirssyni og Gísla Guðmundssyni. Eins og fram kemur í 1. gr. þessa frv., er það markmið frv. að hafa sem fullkomnast deildaskipt sjúkrahús á Akureyri og að sameina ríki og bæ, Akureyrarbæ, um þetta málefni. Ég vil geta þess, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. Það er nauðsynjamál bæði frá sjónarmiði heilbrigðismála almennt hér er um almennt öryggismál að ræða í heilbrigðismálum — og einnig er hér um mikið og stórt málefni að ræða fyrir Akureyrarkaupstað og fyrir Norðurland sérstaklega. Ég tel, að hér sé um að ræða réttlætis- og nauðsynjamál, að það sé mikið réttlætis- og nauðsynjamál, að fullkomið sjúkrahús sé starfandi utan Reykjavíkur og það er ekki blöðum um það að fletta, að slíkt sjúkrahús hlýtur að eiga að vera á Akureyri, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Mig langar til þess að geta þess nú við þetta tækifæri, að Akureyrarsjúkrahús á sér langa sögu. Það hefur starfað sjúkrahús á Akureyri, tiltölulega vandað sjúkrahús ætíð, nú í nærfellt 100 ár. Fyrsta sjúkrahús á Akureyri, sem sögur fara af, var stofnsett 1873 og síðan kom nýr spítali þar 1899 og 1920 kom viðbygging við það sjúkrahús og 1953 tók til starfa núverandi fjórðungssjúkrahús, sem svo er kallað, og var ákaflega mikil framför á sinni tíð, en þó að ekki séu liðin nema um það bil 17–18 ár síðan þetta sjúkrahús tók til starfa, er svo komið, að það hefur úrelzt og sjúkrahúsið er orðið mjög vanbúið nú, má segja, miðað við hin stóru og góðu sjúkrahús, sem eru hér í Reykjavík. Og það er samdóma álit allra, sem til þekkja, að nauðsynlegt sé að gera stórátak í sjúkrahúsmálum fyrir, Akureyri og sem þá jafnframt sé lausn fyrir Norðlendingafjórðung í heild og raunar kannske miklu stærra landsvæði.

Eins og mörgum er kunnugt, er Fjórðungssjúkrahúsið svonefnda á Akureyri í raun réttri bæjarsjúkrahús á Akureyri, því að bærinn hefur allan veg og vanda af þessu sjúkrahúsi, og þess vegna hafa líka orðið miklar umr. í bæjarstjórn á Akureyri og meðal áhugamanna um þessi efni annars í bænum um það, að nauðsynlegt sé að fara að breyta þarna til og stækka sjúkrahúsið verulega og koma því í nýtízkuhorf. En því miður hafa þessar umr. ekki leitt til neinnar niðurstöðu og ekki til þess, að framkvæmdir yrðu hafnar, en mig langar til í sambandi við þetta mál, vegna þess að ég hef hér við höndina skýrslu frá stjórn sjúkrahússins á Akureyri, þá vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að hafa hér yfir nokkur orð úr þessari skýrslu, einkum það, sem varðar núverandi starfsaðstöðu og þjónustu sjúkrahússins. Þar kemur greinilega fram, hvernig sjúkrahúsmálunum er komið og hversu brýn nauðsyn það er að fara að breyta þarna til. Í þessari skýrslu segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjúkrahúsið hefur fram til þessa borið gæfu til að veita viðurkennda þjónustu og notið álits og trausts landsmanna. Er þar fyrir að þakka ósérhlífnu og völdu starfsliði sérfræðinga, hjúkrunarliðs og sérhæfðs starfsfólks, sem þó hefur um árabil búið við ónóga starfsaðstöðu. Nú er svo komið, að sjúkrahúsið fær naumast veitt nauðsynlega og sjálfsagða þjónustu, sem af því er krafizt, vegna skorts á starfsaðstöðu og sjúkrarými. Það er ekki verjandi öllu lengur að búa þannig að starfsliði stofnunarinnar á sama tíma og gerðar eru fyllstu kröfur um alla þjónustu:

Síðan er á það minnzt, að þetta hús hafi verið reist af stórhug og vel við vöxt og það hafi kostað mikið átak af bæjarins hálfu á sinni tíð, en síðan segir þannig orðrétt:

„Síðan húsið var byggt hefur þróunin orðið svo ör í læknisfræði og breytingar svo miklar í spítalamálum, að nú orðið stenzt sjúkrahúsið engan veginn kröfur tímans í tæknilegu og sérfræðilegu tilliti. Segja má, að læknavísindunum fleygi fram með sívaxandi hraða frá ári til árs. Að því er varðar spítalamálin í landinu hafa sjúkrahúsin í Reykjavík verið í örum og miklum vexti á síðustu árum og jafnframt hefur átt sér stað hraðfara þróun í allri starfsemi og þjónustu þeirra. Er það bæði í samræmi við fólksfjölgun og þróun læknavísindanna yfirleitt. Nú hafa sjúkrahús í smærri kaupstöðum og kauptúnum á landinu nálgazt sjúkrahúsið hér að húsakosti og tækjabúnaði. Aðstaða þessa sjúkrahúss gagnvart öðrum sjúkrahúsum í landinu er því sífellt versnandi. Bilið milli þess og sjúkrahúsanna í Reykjavík breikkar stöðugt, jafnframt því sem bilið minnkar milli þess og annarra sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni.“

„Sjúkrastofur“ — segir svo hér síðar — „eru hér þéttskipaðar sjúklingum. Aukarúm eru víðast hvar á sjúkrastofum, þrengsli á þeim þar af leiðandi mikil, athafnarými þar lítið og mjög örðugt að koma þar við nauðsynlegri hjúkrun, flóknum og margháttuðum rannsóknum og meðferð mjög veikra sjúklinga. En það, sem er örðugast viðfangs, er skortur á húsrými fyrir starfsemi og starfssvið sjúkrahússins utan sjúkrastofanna. Vinnurýmið á sjúkrahúsinu er óeðlilega og bagalega lítið og setur allri þróun þess skorður.“

Síðar er svo minnzt á legudaga, hvernig skipting legudaga er á þessu sjúkrahúsi, og er það mjög upplýsandi um þetta mál og vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum og vísa hér til skýrslu sjúkrahússtjórnarinnar: „Sjúkrastofurými sjúkrahússins í dag er sem hér segir eftir deildum: Lyflækningadeild 40 rúm, handlækningadeild 40–44 rúm, blönduð deild, þ. e. ellideild með 24 rúm og barnadeild 10 rúm, fæðingardeild 12–14 rúm og geðveikideild, sem er sérstök bygging, 10–12 rúm. Rúmafjöldi sjúkrahúsbyggingarinnar er í dag 126–132, en upphaflega var hún skipulögð fyrir 117 rúm.

Á s. l. ári var skipting legudaga á sjúkrahúsinu milli héraða sem hér segir,: Akureyri 29139, hreppsfélög Eyjafjarðarsýslu 5669, Grýtubakka- og Hálshreppur og Svalbarðsstrandarhreppur í Suður-Þingeyjarsýslu 1673, Ólafsfjörður 2015 og aðrir, 11550. Legudagar alls á árinu 1969 50044.

Hér er síðan getið um, hvernig skipting legudaga á sjúkrahúsinu milli Akureyrar og utanbæjarmanna á árunum 1963–1969 hefur verið og það eru til upplýsingar um það, hverjir það eru, sem nota þetta sjúkrahús. Árið 1963 voru legudagar Akureyringa 26624, en legudagar utanbæjarmanna 27218, alls voru legudagar 53842. Hlutur Akureyringa prósentvís — þetta er nú kannske slumpareikningur hjá stjórninni — er 50% og 50% utanbæjarmanna. 1964 eru hlutföllin þannig, að þá eru 52% af legudögunum vegna Akureyringa, sem þá njóta þjónustunnar, en 48% utanbæjarmenn. 1966 er hlutur Akureyringa 55%, en hlutur utanbæjarmanna 45%. Og 1966 eru það 56% Akureyringar, en 44% hlutur utanbæjarmanna. 1967 er 55% hlutur Akureyringa, en 45% hlutur utanbæjarmanna og 1988 er 54% hlutur Akureyringa og 46% hlutur utanbæjarmanna. 1969 er 58% hlutur Akureyringa, en 42% hlutur utanbæjarmanna.

Þessi skýrsla sýnir það, að hlutur utanbæjarmanna er ákaflega stór í notkun sjúkrahússins. Hann hefur að vísu nú aðeins lækkað á undanförnum árum, sem kannske er ekki alveg óeðlilegt miðað við stöðu sjúkrahússins sem bæjarsjúkrahúss á Akureyri og þegar mjög þrengist um. En þetta bendir aftur á það, hvílík höfuðnauðsyn það er, að á Akureyri sé spítali, sem getur tekið við fleiri sjúklingum heldur en þeim, sem heimili eiga í Akureyrarbæ.

Það er að vísu nokkurt nýmæli hér í 1. gr. þessa frv., að þar er gert ráð fyrir því að breyta því eignarhlutfalli, sem nú er samkv. lögum milli ríkis og sveitarfélaga í sjúkrahúsbyggingu. Sú almenna regla er, að ríkið eigi 60%, en sveitarfélögin 40, en hér er gert ráð fyrir því að breyta þessum hlutföllum svo, að ríkið taki þátt í þessu sjúkrahúsi, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., að 80 hundraðshlutum, en Akureyrarbær 20%. Og meginröksemdin fyrir því, að við leggjum þetta til, er þessi sérstaða Akureyrarspítala, sem hlýtur að vera hverjum manni ljós, sem vil1 kynna sér það, að Akureyrarspítali veitir þjónustu langt út fyrir bæjarmörk Akureyrar, enda hefur það reynzt alveg óhjákvæmilegt að gera slíkt. Það er þörf fyrir þetta sjúkrahús og vitanlega ekki hægt að neita mönnum, þó að utanbæjarmenn séu, um þá þjónustu, sem þeir telja sig þurfa og sjúkrahúsið frekast getur í té látið. Þetta hefur sjúkrahúsið getað gert, jafnvel þó að húsið sé nú orðið mjög vanbúið að ýmsu leyti, og það mun ekki ofmælt, sem segir í skýrslu sjúkrahússtjórnarinnar, að þetta sé að þakka því, að spítalinn hefur haft yfir að ráða völdu og góðu starfsliði, góðum læknum og hjúkrunarliði, sem hefur unnið mjög merkilegt þjónustustarf á þessu sviði. Og það má náttúrlega enn þá tala um það, enn frekar um þessa sérstöðu Akureyrarspítala, að það er nauðsynlegt frá almennu sjónarmiði að efla Akureyrarspítala og koma upp fullkomnu deildaskiptu sjúkrahúsi þar. Það er alveg brýn nauðsyn frá almennu sjónarmiði og ríkið ætti þar að koma til móts við bæjarfélagið, því að það er tæpast forsvaranlegt, að ekki sé fullkomið sjúkrahús einhvers staðar utan Reykjavíkur og ég held, að engum manni geti blandazt hugur um það, að Akureyri er sá staður, eða á Akureyri yrði slíkt sjúkrahús bezt sett af flestum ástæðum, hygg ég. Bæði er það, að sjúkrahúsið á Akureyri á þegar að baki langa sögu. Það er þegar deildaskipt sjúkrahús, það hefur góðum starfskröftum á að skipa, læknum og hjúkrunarliði, og þar er fjölmenni mest utan Reykjavíkur á einum stað og yfirleitt greiðastar samgöngur við Akureyri úr nágrannasveitum af Norðurlandi og raunar kannske líka úr öðrum fjórðungum. Ég hygg, að núv. landlæknir hafi eitthvað leitt hugann að þessum efnum, sem ekki er óeðlilegt stöðu hans vegna. Þó að ég hafi ekki átt sjálfur tal um það við hann, þá skilst mér, að hann sé því mjög fylgjandi, að til sé deildaskipt og fullkomið sjúkrahús utan Reykjavíkur, og ég hygg, að hann muni telja, að Akureyri ætti einmitt að vera sá staður, sem slíkt sjúkrahús er á. Og það er einmitt að því, sem þetta frv. miðar, þ. e. að ríkið komi til móts við þá þörf, sem þarna er fyrir hendi, og leggi fram stærri hlut heldur en almennt gerist í sjúkrahús, vegna þess að hér er um talsverða sérstöðu að ræða.

Ég skal nú ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, enda skýrir frv. sig að flestu leyti sjálft. En þó get ég ekki stillt mig um að minnast hér á 3. gr. frv. vegna þess að þar er hreyft nýmæli, sem e. t. v. ýmsum finnst að þurfi athugunar við, og er það ekkert óeðlilegt. Ég vil leyfa mér að fara aðeins nokkrum orðum um 3. gr. frv. Þar segir, að stefnt skuli að því, að hagnýt kennsla og starfsþjálfun geti átt sér stað í sambandi við sjúkrahúsið á Akureyri með sérstöku tilliti til sérmenntunar héraðslækna og aðstoðarfólks þeirra. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að þegar komið er upp fullkomið deildaskipt sjúkrahús með fjölmennu starfsliði, þá verði sá spítali, Akureyrarspítali, í framtíðinni kennslustofnun. Þetta er út af fyrir sig ekki nýmæli, að spítali sé kennslustofnun, því að það eru flestir spítalar, sem ráða yfir þeim tækjabúnaði og starfsliði, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En nú er það svo, að við gerum barna ráð fyrir, að þetta sjúkrahús verði nokkuð sérstök kennslustofnun, þ. e. a. s. sjúkrahúsið hafi með að gera sérþjálfun héraðslækna og aðstoðarfólks héraðslækna. Einn af þeim málaflokkum, sem nú eru hvað brýnastir til úrlausnar í okkar landi, eru læknamálin, einkum og sér í lagi þetta að útvega héraðslækna til þess að starfa úti um landsbyggðina. Yfirleitt er það þannig, að mörg héraðslæknisumdæmin eru óveitt langtímum saman og þarf ekki að eyða í það mörgum orðum, hvílíkt ófremdarástand slíkt er og er alveg nauðsynlegt, að menn leiði hugann að því, hvernig úr þessu megi bæta. Ýmsir hafa bent á það, að nokkurn þátt í héraðslæknisleysinu og því, hversu fáir menn fást til þess að gegna héraðslæknisstörfum, eigi það, að kennsla í læknisfræði beinlínis fæli menn frá því að takast slík störf á hendur. Ef þessi ásökun er rétt, sem ég hef út af fyrir sig ekki möguleika til þess að staðreyna fullkomlega, en hef þó mínar ástæður til að trúa, en ef þetta reynist rétt, þá er náttúrlega fullkomin ástæða til þess, m. a. fyrir Alþ., að leiða hugann að þessu og gera þá kröfu til þeirra, sem skipuleggja þessi mál, kennslu í læknisfræði, að þessi mál séu tekin til gaumgæfilegrar skoðunar og athugað, hvort þetta er rétt.

Að sjálfsögðu er Háskóli Íslands eða hver annar háskóli í senn kennslustofnun og vísindastofnun. En eigi að síður hlýtur hinn almenni borgari og við, sem á Alþ. sitjum sem fulltrúar hins almenna borgara, að líta á háskólann og raunar alla aðra skóla, sem mennta menn til sérgreindra starfa, þá hljótum við að líta á slíka skóla þannig, að þeir þjálfi menn til ákveðinna starfa, sem þarf að inna af hendi fyrir fólkið í landinu og fyrir þjóðfélagið í heild. Og ef það er svo, að Háskóla Íslands takist ekki að þjálfa menn í þeim störfum, sem þjóðfélagið þarf brýnast á að halda, þá er eitthvað bogið við þetta kerfi; þá er eitthvað bogið við þetta skipulag og það er skylda okkar sem alþm. að leiða hugann að þessu og það er skylda þeirra, sem stjórna málefnum þessarar stofnunar, að gera hið sama og finna úrlausn á því.

Það er m. a. í sambandi við þennan mikla og brýna læknaskort í landinu, sem við flm. höfum farið að hugleiða það, hvort ekki væri ástæða til þess að taka þessi kennslumál læknaefnanna til endurskoðunar og jafnvel svo að flytja kennsluna að nokkru leyti frá Háskóla Íslands í núverandi mynd til sérstakrar stofnunar, sem yrði í tengslum við fullkomið sjúkrahús á Akureyri. Við teljum þessa tillögu þess virði, að hún sé skoðuð, og þess vegna höfum við leyft okkur að bera hana fram og forma hana hér í 3. gr. þessa lagafrv.

Herra forseti. Ég skal ekki eyða fleiri orðum að sinni að þessu máli, en ég vænti þess, að það fái sína skoðun í þn., og legg til, að þegar 1. umr. lýkur hér nú, þá verði málinu vísað til heilbr.- og félmn.