18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (3109)

199. mál, sjúkrahús í sameign ríkis og bæjar á Akureyri

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa stuðningi mínum við þetta frv., sem þeir hafa flutt hér, þrír þm. úr Norðurl. e., og langar til að koma hér á framfæri ummælum, sem ég hlýddi á í fyrravetur í sambandi við sjúkrahúsið á Akureyri og komu fram af hálfu landlæknis. Þannig stóð á, að þegar í fyrravetur var farið að ræða við heilbrmrh. og landlækni um stækkun sjúkrahússins á Akureyri og meðal annarra tók ég þátt í þeim athugunum og undirbúningsviðræðum, sem fóru fram um það mál. Þá benti landlæknir á atriði, sem ég verð að játa, að mér hafði ekki hugkvæmzt, en liggur í raun og veru á borðinu, þegar á það er bent. Hann var að segja okkur og lýsa því sem sinni skoðun, hve það væri í raun og veru hættulegt fyrir byggð þessa lands, þegar það væri athugað, að hún væri að verulegu leyti hér við Faxaflóann og á Suðurlandsundirlendinu, þar sem væri jarðskjálftasvæði og gæti verið hætta á miklum og háskalegum afleiðingum af jarðskjálftum og öðrum náttúruhamförum, svo og líka því, ef á landið yrði ráðizt vegna styrjaldaraðgerða, þá mundi það fyrst og fremst bitna á þéttbýlinu hér suðvestanlands. Í sambandi við það benti hann á, hve það væri óvarlegt, að þau einu sjúkrahús, sem væru verulega búin til þess að taka við slíkum sjúklingum og slösuðu fólki, sem orðið hefði fyrir slíkum stórfelldum áföllum af völdum náttúruhamfara eða styrjaldar, væru öll staðsett í Reykjavík. Og þess vegna teldi hann, að eitt af því, sem renndi sterkustum stoðum undir það að byggja upp sjúkrahúsið á Akureyri til jafns við sjúkrahúsin hér í Reykjavík, væri einmitt það, að það væri nauðsynlegt að hafa utan mesta þéttbýlissvæðisins eitt sjúkrahús a. m. k., sem væri svo vel búið, að það gæti tekið við slösuðu fólki og sjúku, þegar einmitt svona bæri að, auk þess sem það þyrfti að gegna hlutverki fyrir stóran landsfjórðung, frekar tvo en einn. Þessu langaði mig að koma hér á framfæri, um leið og ég tek undir eða lýsi stuðningi mínum við þetta frv.

Ég veit að vísu, að það er ofurlítill ótti hjá starfsliði sjúkrahússins á Akureyri við það, að það fái ekki að öllu leyti eins góða fyrirgreiðslu, ef sjúkrahúsið er í hendi ríkisins eins og kannske bæjarins, ríkinu hætti til að hugsa betur um þau sjúkrahús, sem hér eru næst ríkisvaldinu, heldur en sjúkrahús úti á landi. Ég held, að við þurfum ekki að kvíða því. Það er nú einu sinni svo, að ríkisvaldið verður að hafa víðari sjónhring en svo, að það sjái aðeins það, sem næst því býr, og engum mun blandast hugur um það, að það er of erfitt fyrir eitt bæjarfélag, jafnvel þó að sæmilega stöndugt sé, að standa undir svo stóru og viðamiklu fyrirtæki eins og rekstur vel búins sjúkrahúss er, sem hér er gert ráð fyrir og vissulega þarf að koma á Akureyri. Því finnst mér þetta vera leið til athugunar a. m. k., að sjúkrahúsið verði sameign ríkis og bæjar.