03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

201. mál, kjarabætur aldraðra

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., fjallar um vissar kjarabætur í þágu aldraðs fólks og er flutt af mér og hv. 2. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni. Í 1. gr. frv. segir, að markmið þess sé að bæta efnaleg kjör aldraðra, styðja sjálfsbjargarvilja þeirra og draga úr tekjumismun á efri árum fólks.

Mikilvægustu efnisatriði frv. eru þrjú. Í fyrsta lagi er um að ræða sérstök skattfríðindi aldraðra og um það fjallar 2. gr. frv. Í henni felst það, að öldruðu fólki, sem ekki nýtur lífeyrissjóðsréttinda, yrði ívilnað í sköttum og útsvörum eftir sjötugsaldur. Er þá gert ráð fyrir sérstökum skattafrádrætti, sem gildi fyrir það fólk, sem þannig stendur á um, eins og nánar er frá greint í 2. gr. frv. En meginröksemdin er sú, að þessu fólki yrði þá auðveldara að leggja fyrir til síðustu æviára sinna nokkurt sparifé, sem yrði því mikil stoð og til öryggis afkomu þess, þegar starfsævi hlýtur óhjákvæmilega að ljúka. Við flm. höfum hér í huga það aldraða fólk og þá alveg sérstaklega ýmiss konar daglaunafólk, sem vinnur langt fram yfir sjötugt á almennum vinnumarkaði og hefur því oft talsverðar vinnutekjur, sem eru óspart skattlagðar, þó að slíkt sé í hæsta máta vafasamt og að dómi okkar flm. fullkomið ranglæti. Við höfum á undanförnum árum flutt frv. um þetta tiltekna atriði, þetta um sérstök skattfríðindi aldraðs fólks. Því miður hefur þessi tillaga ekki hlotið samþykki Alþingis enn sem komið er, en samt gerum við flm. okkur vonir um, að skilningur á réttmæti þessa máls fari vaxandi. Þótt samþykkt yrði að veita öldruðu daglaunafólki og öðrum, sem líkt eru settir, slík skattfríðindi, sem hér um ræðir, þá mundi það ekki hafa neina úrslitaþýðingu fyrir tekjumöguleika hins opinbera. Hér er ekki um fjölmennan hóp manna að ræða og tekjuvon hins opinbera líður ekki við það, þótt þetta fólk nyti skattfríðinda. Það verður að hafa í huga, að hér á í hlut fólk með mikinn sjálfsbjargarvilja, fólk, sem vinnur fyrir sér og vill ekki vera upp á náð komið að neinu leyti. Ríkisvaldinu og þá sérstaklega löggjafanum ber að styðja sem verða má heilbrigðan sjálfsbjargarvilja fólksins í landinu. Það ber ekki síður að styðja heilbrigðan sjálfsbjargarvilja aldraðs fólks en hvers annars. Um það þarf ekki að deila, að hvers konar stuðningur við sjálfsbjargarvilja aldraðs fólks dregur jafnframt úr þörfinni á beinni opinberri aðstoð við aldraða. Réttlát skattfríðindi aldraðs fólks hvetja það til sjálfsbjargar og sparnaðar, sem kemur því sjálfu að gagni síðar, þegar starfsævinni hlýtur að ljúka og er einnig til styrktar almennum sparnaði í landinu, sem sízt er of mikill. Það er líka engin ofrausn af hálfu ríkisvaldsins, þótt þessi leið yrði farin til þess að rétta hlut hinna öldruðu sparifjáreigenda, sem rúnir hafa verið eignum sínum með gengisfellingapólitík síðustu ára. Með 2. gr. frv. um skattfríðindi aldraðra er reynt með virkum hætti að ná því markmiði frv. að styðja sjálfsbjargarvilja aldraðs fólks og létta hinu opinbera framfærslu öreiga gamalmenna. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem ég bið hv. þdm. að skoða gaumgæfilega og jafnframt að veita fylgi. Skal ég láta útrætt um þetta fyrsta efnisatriði frv.

Annað höfuðatriði þessa frv. er að finna í 3. gr. þess, 1. mgr. Það er nýmæli, sem vert er að veita nokkra athygli. Þar er gert ráð fyrir grundvallarstefnubreytingu í framkvæmd tryggingalaga að því leyti, að tilteknu fólki, hjónum eða þeim, sem búa saman sem hjón, sé greiddur fullur hjónalífeyrir, þegar fyrirvinna heimilisins hefur náð 70 ára aldri, þótt makinn hafi annars ekki náð ellilífeyrisaldri, sem er 67 ár. Eins og allir vita, byggja almannatryggingalögin rétt manna til ellilífeyris á persónubundnum aldursmörkum og á sú regla við um hjón sem einhleypinga, þannig að hjón fá ekki fullan hjónalífeyri fyrr en bæði eiginmaður og eiginkona hafa náð 67 ára aldri. Þessi regla er oft mjög ranglát í raun og kominn tími til að breyta henni eða draga úr ranglæti hennar, t. d. með þeim hætti, sem við leggjum til í þessu frv., að hjón, sem ekki hafa nein lífeyrissjóðsréttindi, fái fullan hjónalífeyri, þegar fyrirvinna heimilisins, sem yfirleitt er eiginmaðurinn, hefur náð 70 ára aldri, þótt eiginkonan sé undir 67 ára aldri. Ef þessi tillaga yrði að lögum, mundi nást fram mikilvæg kjarabót fyrir aldrað fólk.

Þriðja aðalefnisatriði frv. er einnig að finna í 3. gr. þess. Það er einnig nýmæli, sem ætlað er að fríska dálítið upp á andrúmsloftið í tryggingamálum og færa tryggingalögin svolítið nær nútímalegri hugsunarhætti. Þessu efnisatriði er fyrst og fremst stefnt gegn 21. gr. almannatryggingalaga, sem telja má eitt skýrasta dæmi um óheppileg tengsl tryggingalöggjafarinnar við fortíðina. Að dómi okkar flm. þarf að vinna að því að rjúfa slík tengsl, hvar sem þau er að finna í tryggingalöggjöfinni. Við leggjum að vísu ekki til, að 21. gr. almannatryggingalaga verði afnumin eða endursamin út af fyrir sig. Líklega verður við hana að una sem skráðan lagabókstaf enn um sinn eða þar til almannatryggingalögin verða endurskoðuð og endursamin í heild. En það frv., sem við flytjum hér, mundi, ef að lögum verður, draga stórlega úr ágöllum 21. gr. almannatryggingalaganna.

Það, sem í tillögu okkar felst, er það, að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða úr eigin sjóði verulegan viðbótarlífeyri öldruðum hjónum, sem ekki eru í lífeyrissjóði, og kæmi þá ekki til nein skipting milli sveitarfélags og ríkisins um uppbót, svo sem gert er ráð fyrir í 21. gr. almannatryggingalaga, né heldur reiptog milli sveitaryfirvalda og ríkisins um uppbætur. 21. gr. almannatryggingalaganna felur í sér ómannúðlega forneskju, sem leiðir til ófrjórrar skriffinnsku og niðurlægingar fyrir aldraða fólkið, sem neyðist til þess að leita kjarabóta á grundvelli hennar.

Ég hef rakið höfuðatriði þessa frv. Í frv. eru nýmæli, sem öll fela í sérkjarabætur fyrir aldrað fólk. Vissulega er farið inn á nýjar brautir með þeim tillögum, sem við flm. höfum hér uppi, og vel má vera, að einhver vegartálmi sé í sambandi við framkvæmd þeirra. Þó munu slíkar hindranir yfirstíganlegar og ekki örðugri viðfangs en mörg önnur lagaframkvæmd á sviði tryggingamála.

Flm. er auðvitað ljóst, að frv. mun hafa í för með sér aukin útgjöld til tryggingamála. M. a. þess vegna höfum við sett það ákvæði í 4. gr. frv., að lögin þurfi ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1972. Það ákvæði á að tryggja, að hægt sé að undirbúa framkvæmd væntanlegra laga með viðunandi hætti, m. a. að því er tekur til fjáröflunar.

Þess er skylt að geta, að þó að í þessu frv. felist mikilsverðar réttarbætur fyrir aldrað fólk og stefnt sé að því sem höfuðmarkmiði að draga úr ójöfnuði og efnalegu misrétti á gamalsaldri manna, þá fer því fjarri, að frv. leysi allan vanda aldraðs fólks. Frv. er aðeins spor í rétta átt og ber að meta sem slíkt. Þrátt fyrir það stendur eftir sú augljósa nauðsyn að endurskoða tryggingarlöggjöfina í heild í ljósi nútímaviðhorfa og nýs skilnings á mannlegum þörfum. Í sambandi við þá endurskoðun ber öllu öðru fremur að hafa í huga að jafna, svo sem kleift er, kjör aldraða fólksins og koma í veg fyrir þá mismunun í tekjum og afkomu, sem nú viðgengst, þar sem einn hópur manna er efnalega sjálfstæður og þarf engu að kvíða um afkomu sína í ellinni, en annar á allt undir náð framfærsluyfirvalda. Það hæfir ekki lengur, að þjóðfélagið geri sér slíkan mannamun, sem á sér stað í sambandi við kjör aldraða fólksins við núverandi aðstæður. Alþ. þarf að setja sér það mark að eyða þessari mismunun og koma á skipulagi tryggingabóta, sem gerir öldruðu fólki kleift að lifa sem lengst af eigin tekjum sínum án þess að vera háð útdeilingarvaldi framfærsluyfirvalda eða komið upp á náð skrifstofuvalds. Þetta frv. er tilraun til þess að bæta nokkuð úr ágöllum þessa ástands, sem við búum við nú í þessum efnum. Ég hef ástæðu til þess að ætla, að meginstefna frv. eigi hljómgrunn hér í hv. þd. og ég vænti þess, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, taki það til vinsamlegrar athugunar og jákvæðrar afgreiðslu. Hér er fyrst og fremst um félagsmál að ræða. Þess vegna legg ég til, að frv. verði nú að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn., þó að vísu sé þarna nokkuð rætt um skattamál einnig.