01.03.1971
Neðri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (3149)

221. mál, orlof húsmæðra

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Lögin um orlof húsmæðra voru sett á Alþ. 1960, og var þá höfð til hliðsjónar erlend löggjöf um þessi mál sérstaklega á Norðurlöndum, en þar hafði sá háttur verið tekinn upp, að sérstakar ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að greiða fyrir því, að húsmæður gætu tekið orlof eða fengið orlof. Samkvæmt lögunum frá 1960 um orlof húsmæðra eru kjörnar sérstakar orlofsnefndir af héraðssambandi kvenfélaga í hinum einstöku félögum, og er verkefni þeirra að sjá um veitingu orlofsfjár til húsmæðra, skipulagningu hvíldarstaða þeirra og ferðalaga og svo önnur verkefni í því sambandi. Til þess að veita orlofsnefndunum starfsaðstöðu var ákveðin sérstök tekjuöflun í lögunum, aðaltekjur orlofssjóðs, sem átti að veita framlög í þessu skyni. Aðaltekjur hans samkv. lögunum, er árlegt framlag ríkissjóðs, sem svarar til minnst 10 kr. fyrir hverja húsmóður í landinu, enn fremur framlög frá bæjar- og sveitarfélögum á hinum einstöku stöðum og svo framlög frá kvenfélögum og kvenfélagasamböndum. Þetta hefur verið framkvæmt þannig af hálfu Alþ., að venjulega hefur verið veitt framlag í orlofssjóð, sem svarar til þess lágmarka, sem gert er ráð fyrir í lögunum, sem ætti að vera nú í kringum 400–450 þús. kr., en við afgreiðslu síðustu fjárlaga eða núgildandi fjárlaga er þetta nokkuð hækkað, þannig að framlag ríkisins í ár verður 1 millj. kr. En þrátt fyrir það, að ríkið hafi ekki lagt meira fram í þennan sjóð en ég hef nú greint frá, þá hefur starfsemi orlofsnefndanna víða orðið veruleg, þannig að þær hafa efnt til ferðalaga og orlofa fyrir húsmæður á hinum ýmsu stöðum, og yfirleitt hefur þessi starfsemi hlotið mjög góða dóma þeirra, sem hafa notið hennar. Og það má geta um það í þessu sambandi, að í nágrannalöndum okkar er orðið nokkuð algengt, að húsmæður, sem fara sameiginlega í slíkar orlofsferðir, fari til annarra landa, t. d. suðlægra landa. Það viðgengst orðið í nokkuð stórum stíl, bæði í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, og ég veit það, að t. d. á Mallorka hafa gistihús tekið upp þá siðvenju, til þess að greiða fyrir slíkum ferðalögum, að veita ókeypis ákveðið hótelpláss allmörgum konum í tiltekinn tíma og hefur það gerzt í framhaldi af þessu, — ég hygg, að það hafi verið fyrir forgöngu ferðaskrifstofunnar Sunnu, — að hótel þar hafa boðið 30 íslenzkum konum ókeypis hálfsmánaðardvöl, ef þær kosta ferðalagið sjálfar. Í hitteðfyrra munu konur í Hafnarfirði hafa notfært sér þetta boð, á s. l. ári í Skagafirði og mér skilst, að það séu konur á Akranesi, sem munu njóta þessara hlunninda í ár eða hafa forgangsrétt að fara í slíka ferð. Og það væri áreiðanlega hægt, ef fjármagn orlofssjóðs ykist að ráði, að styrkja ferðalög eins og þessi, sem eru tiltölulega ódýr og ættu að vera flestum húsmæðrum viðráðanleg, þó að efnalitlar séu, ef það fengist til þess nokkur styrkur úr orlofssjóði. En hingað til er það svo, þegar þessar ferðir eru undanteknar, að orlofsdvalirnar hafa verið hér innanlands. Ég held, að það sé svo augljóst mál, að um það þurfi ekki að ræða hér, að fáir eða engir þjóðfélagsþegnar hafi meiri þörf fyrir orlof en húsmæður. En aðstaða margra er örðug til að njóta þess, nema þá að það komi einhver sérstök fyrirgreiðsla til, eins og sú, sem þetta frv. fjallar um.

Það, sem lagt er til í þessu frv., er í stuttu máli það, að í staðinn fyrir að lágmarksframlag ríkisins í orlofssjóð sé 10 kr. fyrir hverja húsmóður í landinu verði þetta hækkað upp í 100 kr., og ég held, að það geti enginn sagt, að þar sé um mikið fjármagn eða háan styrk að ræða. Ég vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í deildinni og fljóta afgreiðslu, þó að ekki sé orðinn langur tími eftir af þinghaldinu, eða það sem ráðgert er, og ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.