08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (3154)

225. mál, orlof húsmæðra

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Eflaust hafa hv. þm. fleiri en ég fundið það, þegar þeir koma í heimsókn í dvalarheimili aldraðra, eða elliheimili, eins og þessir staðir hétu nú áður, að andrúmsloft er þar einhvern veginn ekki eins sæluríkt og maður hefði gjarnan óskað. Jafnvel þar sem bezt er að hinu aldraða fólki búið, og víðast hvar á þessum stöðum mun vel að því búið, þá finnur maður það, að nokkur drungi ræður ríkjum hið innra með því allt of mörgu. Ég hygg, að ekki þurfi lengi að leita orsakanna til þessa. Það vantar tilbreytni, það vantar fjölbreytni í líf þessa fólks. Og þessi fjölbreytni, þessi tilbreytni verður að sjálfsögðu þeim mun nauðsynlegri, þar sem samband þessa fólks, lífrænt samband þessa fólks við aðrar kynslóðir í landinu er harla lítið orðið. Þetta er að mörgu leyti utangarðsfólk, og því miður á þetta einnig við um marga þá aldraða, sem enn dveljast þó á heimilum sínum, þar sem dætur eða synir eða barnabörn eru orðnir húsbændurnir.

Það er svo margt, sem verður eftir í hinni öru þróun, á hinni hröðu ferð yngri kynslóðanna í nútímaþjóðfélagi, og þar á meðal er því miður allt of mörg öldruð manneskjan. Hér er ekki ætlunin að ræða til hlítar það, sem gera mætti til að bæta úr þessu. Hér er aðeins með þessu frv. bent á eina leið, þó eflaust mjög þýðingarmikla leið, sem fara mætti til þess að bæta úr þessu, til þess að veita meiri fjölbreytni í líf þessa fólks og þar með meiri lífsfyllingu og meiri gleði. Frv. þetta stefnir að því, að sett verði í lög ákvæði um orlof aldraðs fólks. En eins og segir í grg., þá ná gildandi lög um orlof yfir allt fólk, „sem starfar í þjónustu annarra“, svo og húsmæðra. En hins vegar eru engin lög um orlof aldraðs fólks eða gamalmenna, þó að þörfin sé þar sízt minni á slíkri lagasetningu að sjálfsögðu.

Í frv. er miðað við það fólk, sem náð hefur 67 ára aldri, og á það bent, að mjög æskilegt sé, að kvenfélagasambönd skipuleggi þessa orlofsstarfsemi. Kvenfélögin hafa með sóma skipulagt orlof húsmæðra, og því virðist æskilegt, að ákvæðið um orlof aldraðra verði sett inn í lög um orlof húsmæðra. Í frv. er gert ráð fyrir því, að reist verði sérstök sumardvalarheimili, þar sem dvalargestir njóti orlofs við sem skemmtilegastar aðstæður, og þá er að sjálfsögðu ekki aðeins átt við sumardvalarheimili aldraðra heldur einnig húsmæðra. Frv. gerir ráð fyrir einu slíku heimili í hverjum landsfjórðungi, en þau mættu gjarnan víðar vera. Það eru margir staðir mjög hentugir fyrir slík heimili, slík orlofsheimili, hvað snertir fjölbreytni í náttúrufegurð og fleira, sem gæti orðið þessu fólki til ánægju. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að framlag ríkisins á einstakling hækki frá því, sem nú er gert ráð fyrir í orlofslögum húsmæðra, sem hér er um að ræða, hækki úr 10 kr. og upp í 100 kr., sem manni virðist nú eiginlega, að sé algert lágmark, þar sem um er að ræða aðild ríkisins að þessari starfsemi. Mér skilst, að þetta mundi nema ekki meiru en 1½ milljón. Það fólk, sem hér mundi bætast við, hvað snertir það að njóta orlofs, mundi verða svona eitthvað um eða yfir 15 þús.

Það má að sjálfsögðu furðulegt heita, að ekki skuli þegar vera komin inn í landslög ákvæði um orlof aldraðs fólks. Og furðulegt þó kannske ekki svo mjög, þegar þess er gætt, að það er ekki einu sinni séð fyrir því, að þetta fólk hafi almennilega í sig og á, sbr. þann smánarlega ellistyrk, sem þetta velferðarþjóðfélag okkar lætur sér sæma að skammta þessu fólki. Og ein ástæðan til þess, að þessi ákvæði eru ekki komin í lög, er eflaust sú, að þetta fólk, þetta aldraða fólk, er ekki sérlega kröfuhart, kröfur þess vilja gjarnan kafna undir kröfum hinna, sem yngri eru og harðskeyttari.

Það virðist sjálfsagt að stefnt verði að því, að skipulagðar verði orlofsferðir aldraðra til útlanda. Manni virðist, að þetta fólk eigi ekki síður en aðrir þjóðfélagsþegnar skilið að njóta þess að skreppa út fyrir pollinn sér til hressingar og skemmtunar. En jafnvel þó að einhver dráttur kynni nú að verða á slíku, þá er ég sannfærður um það, að ein slík ferð þessa fólks, ein slík ferð milli landshluta, t. d. héðan að sunnan og norður til orlofsdvalar í tvær eða þrjár vikur, eða vestur og austur, eða að austan og vestur, svona milli landshluta, ein slík orlofsferð, þó að ekki sé hún löng og ekki taki hún langan tíma, þá mundi henni fylgja miklu meiri sönn hamingja og gleði heldur en mörgum Mallorkaferðum þeirra, sem yngri eru og hæst hossa sér í lystisemdum lífsins.

Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.