11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

236. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Flm. (Eðvarð Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 448 flyt ég ásamt hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, frv. til l. um 40 stunda vinnuviku. Efni frv. er, að vinnutími í dagvinnu megi eigi vera lengri en 40 stundir á viku, og skal að því stefnt, að vinnuvikan verði 5 dagar. Vinnutími í vaktavinnu verði sami, þ. e. a. s. 40 stundir á viku. Kjarasamningar, sem kveða á um lengri dagvinnu eða vaktavinnu, skulu breytast í samræmi við fyrirmæli þessara laga, en aðilar vinnumarkaðarins í hinum ýmsu starfsgreinum skulu með samningum kveða á um skiptingu milli dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu.

Í 2. gr. frv. segir: „Nú styttist vinnutími launamanna samkv. fyrirmælum þessara laga, og skal þá vikukaup hans og mánaðarkaup fyrir dagvinnu eða vaktavinnu haldast óbreytt í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga, en tímakaup hans hækka í sama hlutfalli og dagvinnuvikan styttist. Hliðstæð breyting á kaupi skal koma til framkvæmda, þar sem tímakaup er lagt til grundvallar við ákvörðun launa í bónus- og ákvæðisvinnu.“

Og í 3. gr. segir, að lög þessi öðlist gildi 1. maí 1971.

Ég tel, að efnisatriði þessa frv. séu öllum hv. þm. svo ljós, að þau þurfi ekki nánari útskýringa við.

Ég vil strax minna á, að annað frv. með ákvæðum um 40 stunda vinnuviku liggur nú fyrir þessari hv. d. Er þar um að ræða frv. hv. 9. þm. Reykv., Hannibals Valdimarssonar, og 5. þm. Vesturl., Benedikts Gröndal, um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfrest o. fl., en það frv. hefur oft áður verið flutt hér á hv. Alþ. Okkur flm. þessa frv. þótti ástæða til að flytja þetta mál eitt sér og sárstaklega nú. Nýlegir atburðir í kjaramálum launafólks, þar sem Alþ. og ríkisstj. hafa komið mjög við sögu, eru þess sérstaklega valdandi. Ég á hér annars vegar við kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem ríkisstj. samdi um 40 stunda vinnuviku fyrir sambærilegar starfsstéttir og um er rætt í þessu frv. Um leið og þeir ánægjulegu atburðir gerðust, þ. e. a. s. samið var um styttan vinnutíma fyrir þær starfsstéttir, var einnig samið um hækkað kaup til opinberra starfsmanna og það stórhækkað til þeirra, er há laun höfðu fyrir. Ég ætla mér ekki hér að ræða það mál sérstaklega, en aðeins leggja áherzlu á, að í þessu frv. okkar er ekki gert ráð fyrir neinni kauphækkun, aðeins að kaup haldist óbreytt í samræmi við styttingu vinnutímans. Hins vegar hefur svo það einnig gerzt, að ríkisstj. hefur nú látið koma til framkvæmda skerðingarákvæði verðstöðvunar laganna frá í haust, þ. e. a. s. að laun eru nú um 2.6% lægri en þau ættu að vera samkv. þeim samningum, sem verkalýðshreyfingin gerði í sumar. Hér er um að ræða öll laun og þá einnig hinna lægst launuðu, sem einnig eru með lengstan dagvinnustundafjölda. Samtímis því, að þessi skerðing er látin koma til framkvæmda, hefur orðið stórkostleg verðhækkun á útflutningsvörum okkar. Afli er mikill, og það er ekki annað sjáanlegt en að efnahagsafkoma þjóðarinnar geti orðið góð og því séu engin efnahagsleg rök fyrir hendi til slíkra skerðinga eins og hér eru nú framkvæmdar. Þessir atburðir og ýmislegt fleira gera það að verkum, að verkalýðshreyfingin endurskoðar nú stöðu sína og stefnu í kjaramálum í ljósi gerbreyttra aðstæðna frá því að samningar voru gerðir í sumar.Það er öldungis ljóst, að enn einu sinni eru fram undan stór átök á vinnumarkaðinum. Einn þáttur þess væntanlega uppgjörs verður óhjákvæmilega krafan um styttingu vinnuvikunnar í 40 stundir. Samþykkt þessa frv. væri því stórt framlag til lausnar mikils handa.

Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þess, að Alþ. skipti sér af kjaramálum. Ákvörðun vinnutíma er þó þess eðlis, að þar er um félagslegt mál að ræða, og því ekki óeðlilegt, að um slíkt séu sett lög. Baráttan fyrir takmörkun og styttingu vinnutímans er jafngömul verkalýðshreyfingunni. Sú barátta hefur farið fram jafnt á sviði löggjafar sem samningamála. Það má minna á í íslenzkri löggjöf kannske sérstaklega setningu vökulaganna, lágmarkshvíld á togurum á sínum tíma og ýmis fleiri atriði. Stytting vinnutímans og barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir styttingu vinnutímans er ekki síður nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi en áður var, þjóðfélagi tækniþróunar og stöðugt aukinnar vélvæðingar, þegar svo er komið, að vinnuhraðinn og álagið á manninn ákvarðast af vélum og skipulagi, er miðar að því að gjörnýta vinnuaflið. Það er því tilhlýðilegt, að löggjafinn reyni að vernda manninn gegn hinum blindu og miskunnarlausu öflum framleiðsluháttanna.

Víða um lönd er þessum málum, takmörkun vinnutímans og ákvæðum um hámark vinnutíma, skipað með lögum. Ég ætla ekki hér að rekja einstaka þætti þessarar baráttu, hvorki hér á landi né alþjóðlega baráttu verkalýðsins, en hún er orðin býsna gömul. Ég vil aðeins minna á, að telja verður, að almennur 8 stunda vinnudagur, dagvinnudagur, hafi komizt á hér 1942 og 48 stunda vinnuvika. Fram að þeim tíma var vinnuvikan yfirleitt 60 stundir, dagvinnan yfirleitt 10 stundir og vinnuvikan 60 stundir. Skrefið, sem stigið var 1942, var eitt það stærsta, sem íslenzk verkalýðshreyfing hefur stigið. Með samningum 1965 er svo tekin upp 44 stunda vinnuvikan. En það verður því miður að segja, að þessi vinnutími hefur ekki verið raunverulegur. Hann hefur verið lengri og það miklu lengri oft og tíðum, eins og menn þekkja svo gjörla. Þar kemur tvennt til: Atvinnuhættir okkar eru þannig, að óhjákvæmilegt er á köflum að vinna langan vinnutíma, og svo einnig hitt, að dagvinnukaupið hefur ævinlega verið svo lágt, að það hrekkur ekki fyrir nauðþurftum. 5 daga vinnuvika er nú orðin almenn. Sú skoðun ryður sér æ meir til rúms, að fækka beri vinnudögum vikunnar og auka hvíldartímann. Þetta auki afköstin og skili sér betur, bæði fyrir verkafólkið með betri frítímum og fyrir atvinnurekendurna í meiri afköstum. En 5 daga vinnuvika á að miðast við 8 stunda dagvinnu og vinnuvikan verður þá að vera 40 stundir. Það má ekki dreifa löngum vinnutíma, miklu lengri vinnutíma, á 5 daga, þá fer hver dagur að verða of langur og þreytan að segja til sín og afköstin í samræmi við það.

Efni þessa frv. mætti ræða í löngu máli, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég vænti þess, að stjórnarflokkarnir, sem nýlega hafa gefið gott fordæmi um styttingu vinnutíma opinberra starfsmanna, sem vinna alveg hliðstæð störf því launafólki, sem þetta frv. fjallar um, sýni þessu máli nú fullan stuðning og samþykki þetta frv. Ég vil aftur minna á, að samþykkt þessa frv. stuðlar að lausn mikils vanda, sem nú blasir við á vinnumarkaðinum og stuðlar að réttlátri lausn þess vanda.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.