15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (3178)

237. mál, siglingalög

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á siglingalögum á þskj. 450 ásamt 3 öðrum hv. alþm. Frv. þetta er skýrt allrækilega í grg. og þarf því ekki ýkjamiklu við að bæta, aðeins nokkrum atriðum til skýringar.

Fyrir tæpu ári kom hæstaréttarlögmaður einn hér í borg að máli við mig út af ákvæðum laga um ábyrgð á sjóslysum. Taldi hann, að sjómenn, sem verða fyrir slysum við störf sín, njóti ekki nægjanlegrar réttarverndar samkv. gildandi skaðabótareglum. Kvaðst hann einnig hafa minnzt á mál þetta við hv. þm. Pétur Sigurðsson. Þetta samtal varð til þess, að ég fór að rifja upp það, sem ég kunni eða átti að kunna í skaðabótarétti. Urðum við, ég og hv. 7. þm. Reykv., síðan ásáttir um að hreyfa þessu máli á þingi í einhverju formi. Kom fyrst til álita að flytja um það þáltill., en við nánari athugun rifjaðist upp, að frv. um þetta efni hafði verið flutt á Alþ. árið 1968, en þá í öðru formi, eins og segir í niðurlagi grg. með þessu frv. Umræddu frv. var á sínum tíma, eða árið 1968, vísað til sjútvn., en hún mun aldrei hafa skilað áliti um það. Örlög þess urðu því að sofna í nefnd. Skal ekki farið fleiri orðum um aðdraganda þessa máls að sinni.

Eins og segir í grg., er ákvæði um þetta efni að finna í siglingalögum nr. 66 frá 1963, þ. e. a. s. um fébótaábyrgð útgerðar á kröfum út af lífs- eða líkamstjóni skipverja eða annarra, sem í þágu skips vinna. Samkv. þeim ákvæðum er fébótaábyrgðin háð því, að útgerðarmaður eigi sjálfur sök á tjóninu, þ. e. sé valdur að því af ásetningi eða gáleysi eða kenna megi um yfirsjónum eða vanrækslu vissra starfsmanna hans. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að bregða upp til skýringar þessu máli svipmynd af einu skaðabótamáli, sem gengið hefur til hæstaréttar. Hygg ég, að það horfi betur til skýringar á því máli, sem hér er til umr., heldur en langt tal um reglur skaðabótaréttar á þessu sviði. Ég vi1 geta þess, að þessi dómur er aðeins einn af mörgum, valinn af handahófi. Þar segir um aðdraganda slyssins, með leyfi hæstv. forseta:

„Um kl. 20.30 var verið að lyfta pokanum inn fyrir bakreipið, þar sem skipta átti yfir og kasta bakborðsvörpunni. Stefnandi, sem var háseti á togaranum, var við gilsinn. Stóð hann við spilkoppinn bakborðsmegin. Þegar búið var að hífa pokann upp fyrir bakborðsreipið, ætlaði stefnandi að slaka á vírnum. Slóst þá bragð af vírnum um fætur honum og kippti honum á loft og fram í fiskkassa með þeim afleiðingum, að hann fótbrotnaði.“

Manni gæti dottið í hug, að hér hafi verið viðvaningur að verki við störf um borð í þessum togara. Svo var ekki. Skipstjórinn segir:

„Stefnandi hafði verið við þetta starf í meira en eitt ár og alla tíð reynzt góður gilsmaður.“ Þetta slys er því ekki því að kenna, að hér hafi verið óvanur maður við störf um borð í togaranum. Eftir að dómarinn í undirrétti er búinn að veita þessu máli fyrir sér og rekja rök og gagnrök, segir svo í forsendum dómsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Um það, hvernig slysið bar að, eru engir sjónarvottar. Er stefnandi því einn til frásagnar um það. Skýrsla stefnanda og vætti vitna gefa til kynna, að einhver olía hafi verið á þilfarinu, er slysið varð. Hins vegar hefur stefnandi hvorki leitt í ljós, að olían skapaði meiri hálku en oft vill verða á þilförum togskipa af sjó, slori og öðrum fiskúrgangi, á meðan á veiðum stendur, né að hann hafi einmitt runnið til í olíunni. Það er heldur ekki sannað, að sjór hafi verið svo ókyrr, að óvarlegt hafi verið af skipstjórnarmönnum að láta vinna það starf, sem stefnandi var að framkvæma, þegar slysið varð. Þá verður slysið heldur ekki talið þess eðlis, að reglum skaðabótaréttar um hættulegan atvinnurekstur verði beitt. Telja verður því, að slysið hafi orðið fyrir óhappatilvik, sem hvorki verður rakið til vanbúnaðar skipsins, handvammar skipverja né annarrar áhættu, sem stefndi ber ábyrgð á. Verður krafa stefnda um sýknun því tekin til greina.“ — Dómsorðið er því sýkna. Stefnandi, umræddur sjómaður, fær engar bætur. Hæstiréttur tekur málið til meðferðar og segir svo: „Ekki er leitt í ljós, að slys það, sem mál þetta er af risið, verði rakið til vanbúnaðar skips, handvammar skipverja eða annarrar áhættu, sem stefndi ber ábyrgð á. Ber því að staðfesta héraðsdóminn.

Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.“

Dómskrafan í þessu máli, skaðabótakrafan, nam 447 þús. kr. Ef bregða skal ljósi á, hvað þessi mál taka langan tíma, þá er því til að svara, að í þessu máli verður slysið í janúar 1960. Dómur sjó- og verzlunardóms Reykjavíkur gengur í janúar 1963, dómur hæstaréttar fellur í febrúar 1965. Allan þennan tíma hefur hinn slasaði sjómaður orðið að bíða eftir því, hvernig dómur félli, í algerri óvissu um málalok, og fær ekki eina krónu að hæstaréttardómi gengnum. Eins og ég sagði áðan er þetta aðeins eitt dæmi af mörgum. Það eru ekki mín orð að áfellast útgerðina í þessu efni. Það eru mörg dæmi um það, sem betur fer, að skipverjar hafa í svona tilvikum fengið miklar bætur, en líka önnur, sem hafa fallið á þann veg, sem ég nú lýsti. Við vitum, að útgerðin verður að greiða há iðgjöld til sjómannatrygginga. En allt um það, er ljóst mál, að öryggi sjómanna okkar er ekki nægilega mikið að þessu leyti, og hlýtur það að vera umhugsunarefni þeirra manna, sem nokkuð þekkja til þessara mála. Það er alkunna og þarf ekki um það að fara mörgum orðum, að sjósókn hér við Íslandsstrendur er erfið og áhættusöm. Menn leita frekar atvinnu í landi, ef hana er að fá. Það hefur oft gengið erfiðlega að manna bátaflotann, m. a. á þessari vetrarvertíð, a. m. k. í sumum byggðarlögum. Það verður að reyna að stefna að því að gera sjómannsstarfið svo öruggt og eftirsóknarvert, sem kostur er á miðað við önnur störf. Undir því er mikið komið fyrir þjóðarbú okkar. Frv. þetta, ef að lögum verður, gerir ráð fyrir, að lögfest verði svonefnd hlutlæg (objektiv) ábyrgð í þessu efni, eins og nánar er rakið í grg. Þá öðlast hinn slasaði bótarétt, hvernig sem slysið hefur að höndum borið, nema hann sé meðvaldur þess eða meðábyrgur. Þessi fyrirvari er í samræmi við hina „objektivu“ fébótaábyrgðarreglu umferðarlaga og verður að teljast eðlilegur. En höfuðatriðið í þessu máli er, að sá, sem verður fyrir slysi á sjó, öðlist bótarétt og fái tjón sitt bætt, þó að þar sé engu sérstöku um að kenna nema þá óhöppum, náttúruhamförum eða sjálfum höfuðskepnunum. Það má vel vera, að unnt sé að nálgast það markmið, sem ég hef nú farið um nokkrum orðum, eftir öðrum leiðum, og má þar minnast á umferðarlögin. Þar er ekki fylgt sömu reglu um öll Norðurlönd. Í einu eða tveim Norðurlandanna er farin leið hinnar öfugu sönnunarbyrðar. Annars verður það að segjast, að umferðarlög, eða löggjöf um umferð, er ekki fyllilega sambærileg að þessu leyti. Hin „objektiva“ skaðabótaregla var fyrst formlega lögfest á því sviði, sviði umferðarlöggjafar, árið 1958 og hefur að því er ég held, gefizt vel.

Það er svo alveg rétt, að þetta mál verður að skoðast vel í n., og skoðast af ýmsum aðilum, sem því eiga að lúta. Það er alveg ljóst mál, að bættum tryggingum fylgja aukin iðgjöld í einhverri mynd, og alveg sérstaklega verður að rannsaka, hvaða áhrif hefur hin nýja ábyrgðarregla, ef að lögum verður, á hagsmuni þeirra, sem við hana eiga að búa. — En einmitt í svona málum verður svo oft að fara fram hagsmunamat. Og það er fyrst og fremst sú spurning, sem ég tel að svara þurfi í þessu máli. Og þá verða að koma til skjalanna tryggingafræðingar, sem eru bærir um að fjalla um þessa hlið málsins. Það er að sjálfsögðu alveg rétt, að sjómenn okkar njóta, sem aðrir, slysabóta eftir ákvæðum almannatryggingalöggjafar og einnig samningsbundinna viðbótartrygginga í ýmsum samböndum. En ég held samt sem áður, að það sé nauðsynlegt að skoða þetta mál betur og reyna að marka í því skynsamlega stefnu.