15.12.1970
Efri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. um virkjun Lagarfoss er fram komið og að það hefur nú fengið afgreiðslu í hv. Nd. Í þessu frv. felst heimild til þess að virkja Lagarfoss til raforkuvinnslu í allt að 8 þús. hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu að Egilsstaðakauptúni til tengingar þar við veitukerfi Grímsárvirkjunar. Þetta er að sönnu ekki mikil orkuöflun miðað við það sem er til umræðu um framkvæmdir hér á Suðurlandi í virkjunarmálum, en eigi að síður er þetta mjög mikið hagsmunamál fyrir íbúa Austurlands. Það hefur verið alger samstaða á Austurlandi um að óska þess, að Lagarfoss yrði virkjaður. En því er ekki að leyna, að íbúum Austurlands hefur fundizt það taka óeðlilega langan tíma hjá stjórnvöldum að komast að þeirri niðurstöðu, sem nú er fengin í þessu máli, og að sá biðtími, sem orðinn er, sé ótrúlega langur. Það var því að vonum, að því var mjög fagnað, þegar hæstv. núv. orkumálaráðh. tók þá ákvörðun s. l. sumar, að Lagarfoss skyldi virkjaður svo sem þetta frv. mælir nú fyrir um og er staðfesting á. Og ég vil taka það fram, að hæstv. ráðh. á sérstakar þakkir skildar fyrir það að hafa stigið þetta skref. Það er hverju byggðarlagi og hverjum landshluta ákaflega mikils virði, að stefnt sé að sem hagkvæmastri orkuöflun til raforkuvinnslu, því að næg raforka á sæmilega hagstæðu verði er undirstaða þess, að um aukinn iðnað geti orðið að ræða á því svæði, sem á að njóta orkunnar, sem unnin er í því orkuveri, sem í hlut á. Og nú hillir undir það með samþykkt þessa frv., að á Austurlandi skapist skilyrði til þess að auka atvinnurekstur á iðnaðarsviðinu, þegar orka verður fáanleg frá Lagarfossvirkjun.

En ég vil vekja athygli á því, að grg. þessa frv. og rökstuðningur fyrir málinu er nær eingöngu bréf frá Rafmagnsveitum ríkisins til rn. Ég vil láta koma fram þá skoðun mína, að Rafmagnsveitur ríkisins, sérstaklega rafmagnsveitustjóri, hafi af sinni hálfu búið málið þannig í hendur hæstv. ráðh., að honum hafi orðið auðveldara en ella að taka þá mikilsverðu ákvörðun, sem hann tók um virkjun Lagarfoss. Þetta tel ég ástæðu til að láta koma fram í umr. um þetta mál.

Nú tek ég eftir því, að í hv. Nd. hefur verið gerð nokkur breyting á 4. gr. þessa frv. frá því, sem frv. var, þegar það var lagt fram. Mér er nokkuð kunnugt um aðdraganda þess, að þessi brtt. kom fram, og ég ætla ekki að orðlengja um það. En ég tók eftir, að það kom fram í orðum hæstv. ráðh., þegar hann mælti fyrir þessu máli nú áðan, að hann mundi fyrir sitt leyti vinna að því, að framkvæmdum yrði haldið áfram með fullum hraða af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins þrátt fyrir þá breytingu á efni málsins, sem nú er orðin í 4. gr. frv. Og ég vil fyrir mitt leyti leggja sérstaka áherzlu á, að svo verði gert. Þannig verði haldið á málinu af hálfu rn., og ég læt í ljósi ánægju yfir því, að sú skoðun kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðh. En í þessu sambandi mætti hugleiða, ef að því kemur, að sú heimild, sem sett er inn í 4. gr. þessa frv., verði notuð, hvaða verkefni verða þá eftir hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Út af fyrir sig væri það fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðh. á því, hvernig þá verður staða Rafmagnsveitna ríkisins í sambandi við raforkumálin í heild. En ég skal ekki fara lengra út í þetta, og ég ætla ekki að tefja þetta mál með langri ræðu, en vil að síðustu taka undir orð hæstv. ráðh. og þau tilmæli til hv. þd., að þetta mál fái greiða afgreiðslu hér þannig, að það verði lögfest, áður en þm. taka jólahléið.