15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (3182)

244. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Eðvarð Sigurðsson); Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, að flytja hér frv. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins á þskj. 468. Efni þessa frv. er í 1. gr., stutt, en þar segir, að við B-lið 8. gr. l. bætist:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga, allt að 75 þús. kr. á íbúð.“

Það, sem hér er lagt til, að tekið verði upp í lögin, er svo til orðrétt það, sem fellt var niður úr lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins á síðasta þingi, í fyrravetur. Þessi viðbótarlán sem hér um ræðir og þá voru felld niður úr lögunum, eru til komin á þann hátt, að þegar svokallað júní-samkomulag var gert í vinnudeilum verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda 1964, þá hét ríkisstj. Því, að það skyldu tekin upp viðbótarlán úr Byggingarsjóði til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaganna. Þetta hafði staðið í nokkrum viðræðum við ríkisstj. undanfarið, en í lok deilunnar var því heitið, að þessi háttur skyldi upp tekinn. Tilgangur þessarar yfirlýsingar eða samkomulagsins frá 1964 hvað þetta áhrærir, var aðeins liður í öðru og miklu meira samkomulagi einnig varðandi húsnæðismálin. Tilgangur þessa liðs samkomulagsins var að reyna að jafna aðstöðu þessara efnalitlu meðlima verkalýðsfélaganna til þess að geta fengið lán til íbúðabygginga og sérstaklega að reyna að jafna stöðu þeirra við þá, sem nutu lána úr lífeyrissjóðum. Þegar þetta samkomulag var gert, var gengið út frá því, að Atvinnuleysistryggingasjóður lánaði eða keypti veðskuldabréf Byggingarsjóðs nokkurn veginn sem næmi þessari upphæð, sem til þessara lána færi. Sú er nú orðin reyndin, að. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur keypt ekki aðeins það, heldur fyrir miklu meiri fjárhæð af Byggingarsjóðnum, þannig að núna undanfarin ár hefur um það bil helmingur af iðgjaldatekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs farið til kaupa á bréfum Byggingarsjóðsins. Þetta er nú nokkuð yfir 100 millj. á ári og hefur verið það undanfarin ár. Það fé, sem til Atvinnuleysistryggingasjóðs rennur vegna iðgjalda, var og er að langmestu leyti til fallið vegna vinnu þess fólks, sem ekki naut og ekki nýtur neinna lána úr lífeyrissjóðum. Þess vegna þótti eðlilegt og raunar sjálfsagt, að aðstaða þessa fólks væri bætt með þeim hætti, sem yfirlýsing ríkisstj. og samkomulagið frá 1964, júní-samkomulagið, ákvað. Með breytingu á lögum á síðasta þingi í fyrravetur var þetta svo fellt niður, og skyldu þessi lán falla niður frá ársbyrjun 1971. Um þetta urðu nokkrar umr. á síðasta þingi, og ég ætla ekki að fara að rekja þær eða endurtaka neitt af því, sem þá var sagt, en breytingin var gerð á lögunum og framkvæmdin hefur orðið slík, að allverulega hefur verið lánað á árinu 1970 af slíkum lánum sem hér um ræðir, en þó engan veginn til allra, sem höfðu lánhæfar íbúðir fyrir árslok. framkvæmd þessa ákvæðis verður á þann hátt, að menn, sem höfðu lánhæfar íbúðir í desembermánuði eða fyrir árslok og áttu því að fá lán samkv. reglum ársins 1970 á sínar eigin íbúðir, fengu ekki afgreiðslu á lánum fyrr en í janúar og öll lán, sem veitt hafa verið í janúar, eru án þessara viðbótarlána, þannig að þeir, sem fá lán út á íbúðir sínar, sem voru lánhæfar fyrir áramót, fá sem sagt þetta mikið lægri lán heldur en þeir, sem voru búnir að fá lánin áður.

Hjá afgreiðslustofnun lánanna, skrifstofu húsnæðismálastjórnar og ábyrgðarmönnum þar, er þeim, sem nú ekki fá þessi lán, vísað á lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna, þannig að þeir geti tekið við að lána sambærileg lán. Þeir, sem til þekkja, vita ósköp vel, hvar á vegi þessir sjóðir eru nú staddir. Iðgjaldagreiðslur til þeirra hófust fyrst í ársbyrjun 1970. Það er þess vegna búið að greiða til þeirra aðeins í eitt ár, og það má segja það, að það hafa ekki verið í öllum tilvikum of góðar heimtur til að byrja með, en enn fremur vil ég geta þess, að það er ekki nema fjórðungur af endanlegu iðgjaldi, sem fellur til á þessu ári, því að launþegarnir greiða ekki nema 1% af launum sínum fyrsta árið og atvinnurekendur 1,5%. Þessir sjóðir eru því engan veginn þannig á vegi staddir, að þeir geti tekið við þessu hlutverki, sem þessi lán höfðu fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna. Það geta þeir áreiðanlega ekki á þessu ári. Hvað verður síðan í framtíðinni skal ég ekki fullyrða um, en mér hefur nú fundizt, að lífeyrissjóðunum væri ætlað annað og miklu meira hlutverk en svo í íbúðabyggingarkerfinu, að þeir stæðu ekki aðeins undir þessum upphæðum.

Í frv. því, sem við flytjum nú hér og þar sem lagt er til, að þessi lán verði tekin upp að nýju, er upphæð lánanna óbreytt, 75 þús. Þessi upphæð hefur staðið allar götur frá 1965, þegar lánin fyrst komu til framkvæmda. 1965 var byggingarvísitalan 220 stig. Þá var talið, að kostnaðarverð rúmmetrans í vísitöluhúsinu væri 2044 kr. 360 rúmmetra íbúð kostaði þá samkv. því í vísitöluhúsinu 735840 kr. 1971 er byggingarvísitalan komin í 524 stig, hefur hækkað um 138% á þessum árum. Rúmmetrinn í vísitöluhúsinu, sem kostaði 2044 kr. 1965, er nú kominn í 4874 kr. og sama íbúð, 360 fermetrar, sem kostaði 735840 kr. 1965, kostar í dag 1754640 kr. Venjulegu húsnæðismálalánin 1965 voru 280 þús. kr. í sama mund og þessi viðbótarlán, verkalýðslánin, voru upp tekin. Þessar 280 þús. kr. stóðu þá undir 38.5% af þeim byggingarkostnaði eða byggingarkostnaði þeirrar íbúðar, sem ég hér nefndi. Lánin 1971 verða 600 þús. kr. á íbúðir, sem hafin er bygging á á árinu 1971. Þessar 600 þús. kr. standa hins vegar ekki undir nema 34.2% af kostnaðarverði þeirrar íbúðarstærðar, sem ég gat um áðan, þ. e. a. s. þessi föstu lán, sem þó hafa hækkað úr 280 þús. upp í 600 þús., standa undir minni hluta af kostnaði samsvarandi íbúðar heldur en þau gerðu 1965. Ef lánin ættu að standa undir sama hluta af kostnaðarverðinu, þyrftu þau að verða 668 þús. kr. í staðinn fyrir 600 þús., sem þau nú eru.

Það gefur auga leið, að þessar 75 þús. kr. eru náttúrlega að sama skapi verðminni eða standa undir minni hluta af kostnaðarverði íbúðarinnar í dag heldur en þau gerðu 1965. Og ef þessar 75 þús. kr. ættu að fylgja hækkun byggingarvísitölunnar, ættu þær nú í dag að vera 178 þús., kr., rösklega þó, þannig að heildarlánið, sambærilegt lán, sem launþegi fengi, ef lánin hefðu haldizt í hendur við byggingarvísitöluna og viðbótarlánin væru enn í gildi, sambærilegt lán við 280 þús. kr. 1965 að viðbættum 75 þús. ætti að vera í dag 668 þús. og 178500 kr. eða 846 þús. kr. samanlagt.

Eins og ég sagði áðan, leggjum við ekki til í þessu frv. að hækka þessar 75 þús. kr. og mætti gjarnan svo sem álasa okkur fyrir það. En það, sem fyrir okkur vakir, er að reyna að leysa vanda þeirra mörgu, sem nú hafa lent í vandræðum, vegna þess að þeir fá ekki þessi viðbótarlán, sem þeir þó mjög fastlega höfðu reiknað með að fá, menn, sem byrjaðir voru á byggingum, þegar lögunum var breytt. Ég trúi því naumast, að ekki verði ráðin hér bót á og hér er ekki fram á svo mikið farið, að ekki ætti að vera mögulegt að framkvæma það. Vissulega þarf íbúðakerfið miklar fjárveitingar til þess að geta veitt veruleg lán, svo að um muni. En ef þarf að breyta þar einhverju um, þá þarf náttúrlega að reyna að auka það fé og umfram allt að skera það ekki niður hjá þeim, sem langverst eru á vegi staddir.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.