15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (3183)

244. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Þegar fellt var niður 75 þús. kr. lánið, sem hv. frsm. gat um og vill hér, að tekið sé upp að nýju, þá var það fyrst og fremst vegna þess, að það voru gerðar aðrar ráðstafanir með sömu lögum, sem ætlazt var til, að betur gætu leyst vanda þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Það var með verkamannabústaðalánunum, sem ákveðið var, að veitt yrðu þannig, að það fengjust full lán frá hinum almenna byggingarsjóði út á verkamannabústaðina, ef byggðir væru, og síðan viðbót, ef ég man rétt, allt upp í 80% af stofnkostnaði, sem veitt væru viðbótarlán með 2% vöxtum, og það eru náttúrlega miklu betri kjör heldur en veitt eru í hinu almenna kerfi. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram. Þessi rök voru að vísu færð fram, þegar lögin voru til umr. hér á þinginu í fyrra, og ég bara vil endurtaka það nú, að það er hægt að leysa vandræði þessa fólks á miklu betri og virkari hátt heldur en gert yrði, þó að þessum 75 þús. kr. yrði bætt við sem nýju láni frá Byggingarsjóði. En náttúrlega getur vel verið, að einhverjir falli þarna á milli, sem hafi verið búnir að hefja sínar byggingar í góðri trú, þannig að þeir fái ekki það, sem þeir bjuggust við, og er þó raunar komið bráðum ár síðan lögunum var breytt, svo að menn hafa vitað allan þennan tíma, á hverju von var, og möguleikar til þess að hefja aðgerðir með stofnun verkamannabústaðabygginga hafa verið fyrir hendi á þessu tímabili. En ég vil bara undirstrika það, að með þessu móti er betur séð fyrir þörfum láglaunafólks heldur en þó að þessi 75 þús. kr. lán hefðu verið veitt.