02.11.1970
Efri deild: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (3230)

60. mál, vegalög

Flm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af þeim aths., sem hv. 5. þm. Sunnl. gerði við þetta frv.

Það er alveg rétt hjá honum, að það má sjálfsagt haga þessum málum á ýmsa vegu, en meining mín og okkar flm. með þessu frv. er sú, að það beri að stefna að því, hvort heldur um heimreið er að ræða eða aðra sýsluvegi, að kosta það á breiðari grunni en þegar um fámenn sveitarfélög er að ræða. Ég tel sýsluheildina sterkari aðila til þess að koma þar til móts við hlutaðeigandi en sveitarfélagið, fyrir utan það, að í vegalögum er svo ráð fyrir gert, að sýsluvegasjóðirnir fái að meðaltali 2 kr. úr vegasjóði á móti hverri einni, sem þeir leggja fram sjálfir, þannig að á þennan hátt er hægt að afla sýsluvegasjóðunum meira fjármagns í heild heldur en mundi vera hægt, ef sveitarstjórnir eða sveitarsjóðir ættu að rísa undir heimreiðum. Ég tel, að þetta verði árangursríkari aðferð til þess að leysa þessi vandamál, sem að sjálfsögðu eru allmisjöfn, og mér þykir gott að heyra það, að í Árnessýslu skuli ekki vera neitt verulegt vandamál í þessu sambandi. Það sýnir, að þeir þar hafa haft miklu betri aðstöðu til að koma sínum vegum áfram heldur en margar aðrar sýslur, sem eru fámennari og hafa búið við vonda vegi. Það er alveg rétt, að það er ekki vegalengdin ein, sem segir til um þarfirnar, heldur það ástand, sem almennt ríkir í vegunum.

Hv. þm. sagði það, að yfirleitt væri hægt að komast af með lakari vegi, þar sem sýsluvegir væru, heldur en hið almenna þjóðvegakerfi, mjórri og ekki eins kostnaðarsama vegi, sagði hv. þm. Ég tel það verri vegi, ég tel þá lakari í þessu tilviki heldur en breiðu vegina. Það á kannske ekki við alls staðar, en ef maður ræðir um vegakerfið hér á jörðu, þá hygg ég, að það eigi þó frekar við. Ég vil benda hv. þm. á það, að nú eru allir vegir á landsbyggðinni heim að skólum, félagsheimilum og kirkjum sýsluvegir, og ég hygg, að á öllum þessum stöðum sé mikil umferð og engu minni umferð heldur en almennt um þjóðvegakerfið. Þarna er því ekki hægt að gera mikinn mun á vegum, hvorki sýsluvegum né þjóðvegum, því að reynslan hefur sýnt, að umferðin um þá er í mörgum tilfellum engu minni heldur en á landsbrautum og hraðbrautum. Þarna verður að búa vel um og margir skólarnir þurfa að búa við miklu betra vegakerfi heldur en þeir hafa nú, og sú upphæð, sem var látin fylgja, þegar þessir vegir voru teknir í sýsluvegatölu frá landsbrautunum, segir ekkert til þess að halda þessum vegum við eða endurbyggja það, sem endurbyggja þarf, þar sem aðeins um 1 millj. kr. er að ræða. Ef ég man rétt, er þessi vegalengd bara til skóla, félagsheimila og kirkna, nokkuð á þriðja hundrað km yfir landið allt, þannig að 1 milljón segir ákaflega lítið til þeirra hluta. Og ég held, að ef árangurs á að vænta í vegagerðinni, þá verði þeim árangri fyrr náð með því að fela sýslusjóðunum þessi verkefni heldur en sveitarsjóðum eða sveitarstjórnum, af því að tekjumöguleikarnir í gegnum sýsluvegasjóði eru meiri heldur en hjá sveitarstjórnum að afla fjár í vegagerð, hví að eftir því sem ég þekki til varðandi sveitarmálefni, þá held ég, að hvert og eitt einasta sveitarfélag eigi í miklum vanda með að afla fjár hjá þeim fámennu hópum, sem sveitarfélögunum tilheyra, til þeirra lögboðnu útgjalda, sem Alþ. og ríkisvaldið hafa lagt sveitarfélögum á herðar á undanförnum árum. Og þetta hefur orðið erfiðara með hverju ári, sem hefur liðið, og ég held, að við megum gá vel að okkur í því að bæta verkefnum á sveitarfélögin frá því, sem nú er.