11.11.1970
Efri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (3239)

90. mál, Togaraútgerð ríkisins

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. fluttum við framsóknarmenn í þessari hv. deild sams konar eða hliðstætt frv. því, sem hér er til umr. Málalok urðu þau þá, að því var vísað til ríkisstj. Síðan hefur ekkert heyrzt frá ríkisstj. um það mál. Það má að vísu segja, að aðstæður séu nokkuð breyttar, frá því að þetta frv. var flutt á síðasta Alþ., sem sé að því leyti til, að seint á síðasta Alþ. kom ríkisstj. fram með frv. um heimild sér til handa til þess að kaupa eða láta smíða togara til þess að endurselja þá. Þessi heimild náði, ef ég man rétt, til sex togara. Mun hafa verið unnið að því máli síðan, og eru sjálfsagt vonir til, að þeir togarar komi á sínum tíma til landsins eða verði smíðaðir hér innanlands. En sýnilegt er þó, að á því verður nokkur dráttur, að þeir togarar komi í gagnið og það sýnir, að það er betra að vera að í tíma með undirbúning þessara mála, enda liggur það í augum uppi, að það tekur ætíð verulegan tíma að undirbúa kaup eða smíði á togurum og verður að hafa fyrirhyggju um það.

Enn fremur er á það að minnast, að í sambandi við meðferð togarafrv. hæstv. ríkisstj. á síðasta Alþ. fluttu stjórnarandstæðingar, bæði hér í þessari hv. d. og eins í Nd., brtt. við frv., sem voru efnislega á þá lund, að svo kallaðar minni gerðir togara væru látnar sitja við sama borð og þessir stærri togarar 6, sem ríkisstj. fékk heimild til að kaupa, og var, ef ég man rétt, talað um í því sambandi, að heimild ríkisstj. að því er minni togarana varðaði næði til allt að 12 togara. Ég fer ekki að rifja það upp, hver sú fyrirgreiðsla var, sem veitt var í sambandi við togarakaupin eða samkv. togarafrv. s. l. vetur. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé það í fersku minni. En þessar brtt. okkar voru felldar, þrátt fyrir það að um það var vitað, að það var mjög mikill áhugi á ýmsum stöðum víðs vegar um landið að eignast eða geta aflað sér þessara togara. En í sambandi við umr. um það mál þá lét hæstv. sjútvrh. þau orð falla, að það mundi verða litið með vinsemd á málaleitanir þessara staða. Nú er það að vísu svo, að sumir þessara staða hafa við mikla erfiðleika haldið áfram tilraunum sínum við það að eignast skip, og sumum hefur tekizt það, en mér er ekki kunnugt um, að komið hafi neitt ákveðið frá hæstv. ríkisstj. um það, hverja fyrirgreiðslu hún hygðist veita við kaup á þessum minni togurum. Og mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram neinar ráðstafanir af ríkisstj. hálfu í því sambandi. Hygg ég þó, að nokkuð hafi verið eftir því leitað af fyrirsvarsmönnum þessara staða, sem hér er um að ræða.

Ég rifja þetta aðeins upp til þess að sýna fram á, að hér ber allt að sama brunni, að það er full ástæða til þess að flytja þetta frv. nú, þrátt fyrir þá heimild, sem ríkisstj. fékk í fyrravetur, og þrátt fyrir þær aðgerðir, sem þegar hafa farið fram til þess að festa kaup eða semja um smíði á hinum stærri togurum.

Að vísu má segja, að það sé ekki svo langur tími, sem þetta frv. hefur legið hjá hæstv. ríkisstj., en mér sýnist hann þó nægilega langur til þess að sýna það, að aðgerða er ekki að vænta af hennar hálfu í bráð í þessu máli. Þess vegna er frv. þetta endurflutt, að öllu verulegu leyti sama efnis og í fyrra, nema hvað fjárhæðum í því hefur verið nokkuð breytt til samræmis við eða í áttina til verðlagsbreytinga, sem hafa átt sér stað. Með þessu frv. og flutningi þess viljum við framsóknarmenn enn á ný ítreka stefnu okkar í þessu máli.

Þegar frv. þetta var til meðferðar í þessari hv. d. í fyrra, hélt ég allýtarlega framsöguræðu um það, og og vil ekki vera að þreyta hv. þdm. á því að endurtaka það allt, sem ég sagði þá, og get að nokkru leyti látið mér nægja að vísa til þess, sem þá var sett fram. En þetta frv. fjallar, eins og nafnið segir til um, um Togaraútgerð ríkisins og stuðning við útgerð sveitarfélaga.

Það þarf nú ekki að ræða um það, hver nauðsyn landinu er togaraútgerð, né heldur um það, hvern þátt togaraútgerðin hefur átt í framförum hér á landi og uppbyggingu íslenzks atvinnulífs á umliðnum árum. Það er öllum kunnugt, að togararnir eru langsamlega afkastamestu tækin til hráefnisöflunar og hafa haft ómetanlega þýðingu fyrir íslenzka atvinnuvegi. Út í það skal ég ekki frekar fara, en minni aðeins á þá staðreynd, að það hefur, á undanförnum áratug alveg sérstaklega, mjög dregið úr togaraútgerð hér. Ég skal ekkert fara út í að rekja það hér, hverjar orsakir hafa legið til þess, en staðreyndin er sú, að í árslok 1959 voru hér 43 togarar, en áratug síðar eða í árslok 1969 voru hér aðeins 23 togarar, að vísu nokkuð stærri togarar, nokkrir þeirra, en áður var. Það er þess vegna full nauðsyn á því að auka og efla togaraflotann. Sú aukning, sem kemur með þeim togurum, sem ríkisstj. hefur þegar fengið heimild til að festa kaup á, er hvergi nærri nægileg, — ekki einu sinni til að ná því marki, sem áður var. En auk þess verður að hafa það í huga, að ýmsir þeirra togara, sem enn eru taldir með, eru orðnir gamlir og það fer að styttast í því, að þeir verði gerðir út sumir hverjir, þannig að í þessum efnum þarf að verða mikil aukning. Ég vil líka benda á, að sú aukning er sérstaklega nauðsynleg vegna nýtingar fiskimiðanna. Við heyrum af því daglegar fréttir, mjög ískyggilegar fréttir, að hundruð togara liggja hér fyrir utan — útlendir togarar — og urga upp fiskimiðin hér fyrir utan. Það heyrist jafnvel talað um í framtíðinni eitthvert hugsanlegt kvótakerfi — að skipta veiðinni með tilliti til þess, hverjir hafa stundað hana. Ég er að sjálfsögðu algerlega andvígur slíku kvótakerfi, og ég geri ráð fyrir því, að við séum það allir og að við munum standa gegn því sem einn maður, en eigi að síður verður þó að horfast í augu við þennan hugsanlega möguleika, og þá ríður lífið á því, að við Íslendingar höfum tekið fullan þátt og mjög mikinn þátt í því að nýta þau fiskimið, sem eru í kringum okkur, og einmitt af þeirri ástæðu er sérstök þörf á því að auka og efla togaraútgerðina.

Enn fremur er það svo, að uppistaða í atvinnulífi margra staða, ekki hvað sízt úti um landið, er fiskiðnaður og fiskvinnslustöðvar. Til þess að tryggja örugglega hráefni þessara stöðva árið um kring þarf á stórum skipum að halda, — stórum skipum, sem geta sótt sjó á hvaða árstíma sem er og sótt fiskinn lengra út, þegar hann gengur ekki á grunnmið.

Að sjálfsögðu er það svo, að það hentar mismunandi skipastærð ýmsum stöðum, og verður auðvitað að taka tillit til þess og sjá um, að jafnframt sé aflað slíkra skipa. En ég held, að engum geti blandazt hugur um það, að togarar eru nauðsynlegir til þess að fylla upp í þær eyður, sem annars yrðu óhjákvæmilega í hráefnisöfluninni. En auk þess eru svo togarar nauðsynlegir til þess að sigla með afla og nýta þá markaðsmöguleika, sem þar eru fyrir hendi. Hagur togaraútgerðarinnar hefur hins vegar verið sá að undanförnu, að það er lítið útlit fyrir það, að einstakir menn eða einstök fyrirtæki, sem við þetta hafa fengizt, geti ráðizt í togarakaup upp á eigin spýtur. Enda er sú raun fyrir hendi, að því er varðar þessa togara, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir kaupum á, að það hefur þótt nauðsynlegt í því sambandi að veita mjög mikla fyrirgreiðslu, þannig að eigendurnir hafa í raun og veru ekki þurft að leggja fram nema 5%. Við, sem þetta frv. flytjum, teljum atvinnurekstur almennt og þar með togaraútgerð að vísu yfirleitt bezt komna í höndum einstaklinga eða félagsfyrirtækja, en við teljum, að ef þá aðila brestur bolmagn til þess að hefjast handa í þessu efni, þá verði ríkið að skerast í leikinn. Þess vegna er þetta frv. flutt, þess efnis sem það er, að það er gert ráð fyrir, að ríkið sjálft efni til fiskiskipaútgerðar, fyrst og fremst togaraútgerðar, en þó þannig, að það er ekki bundið við það endilega, að það séu togarar, heldur geta önnur fiskiskip einnig komið til greina, og er þá haft í huga þetta, sem ég nefndi hér áðan, að mismunandi skipastærð hentar á hinum ýmsu stöðum. Er gert ráð fyrir því, að sérstök stofnun, sem kölluð er Togaraútgerð ríkisins í þessu frv., geri þessa togara út, eins og segir í 4. gr. frv., í því skyni að hagnýta sem bezt fiskimiðin og stuðla með því að öflun hráefnis fyrir fiskiðnað landsmanna, og er þá jafnframt tekið fram, að við ákvörðun um það, hvar afla verði landað, skuli höfð hliðsjón af atvinnuástandi einstakra byggðarlaga, sem til greina koma. Í þessu frv. er líka heimild fyrir þessa fiskiskipaútgerð að taka skip á leigu. En með það höfuðsjónarmið okkar í huga, sem áður er nefnt, að við teljum æskilegast, að togaraútgerð eins og annar atvinnurekstur sé á höndum félagssamtaka eða einstaklingsfyrirtækja, er svo fyrir mælt í þessu frv., sbr. 9. gr. þess, að ef stjórn togaraútgerðarinnar telur ekki lengur þörf á því, að hún geri út togara til hráefnisöflunar og atvinnumiðlunar, sé henni heimilt, að fengnu samþykki sjútvrh., að selja fiskverkunarstöðvum og félagssamtökum, sem stofnuð eru fyrir forgöngu sveitarfélaga, togara sína, enda skuldbindi kaupandi sig til að leggja upp afla hjá tilteknum fiskvinnslustöðvum. Þó er hér sá varnagli sleginn, að togaraútgerðin skuli jafnan eiga og gera út fjóra togara hið minnsta.

Í þessu frv. eru ákvæði um fjármagn til þessarar stofnunar. Er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi henni til sem óafturkræft framlag 150 millj. kr. Enn fremur er ríkisstj. veitt heimild til þess að ábyrgjast lán allt að 400 millj, kr., sem Togaraútgerð ríkisins kynni að taka til þess að standa straum af kostnaði við byggingu skipaútgerðarinnar. En þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að togaraútgerðin eigi sama rétt og aðrir til lána úr opinberum sjóðum til skipasmíða.

Um stjórn þessarar stofnunar eru fyrirmæli í 6. gr. Samkv. því ákvæði skal stjórnin skipuð 7 mönnum: Fjórum mönnum, sem Alþ. kýs, og einum manni, sem sjútvrh. skipar sérstaklega án tilnefningar, og er hann formaður, og svo tveimur mönnum, sem skipshafnir á skipum þessarar útgerðar nefna til.

Þetta voru fáein orð um fyrri kaflann í þessu frv., sem fjallar um Togaraútgerð ríkisins. En þá er eftir II. kaflinn, sem fjallar um stuðning við útgerð sveitarfélaga. Og ég verð að segja það eins og er, að mér finnst þessi kafli og þau ákvæði, sem hann hefur að geyma, hafa fallið dálitið í skuggann af hinum fyrri kafla. Menn hafa ekki gert sér næga grein fyrir þeim ákvæðum, sem eru í II. kafla, en þau ákvæði, sem hann geymir, eru að minni hyggju mjög mikilvæg. En þar er í sem skemmstu máli gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að verja 75 millj. kr. til kaupa á hlutafé í útgerðarfélögum, sem stofnuð eru fyrir forgöngu sveitarstjórna og með þátttöku sveitarfélaga í byggðarlögum, þar sem atvinna er ótrygg og fiskvinnslustöðvar skortir verkefni. Og samkv. 11. gr. er ríkissjóði heimilað að ábyrgjast eða taka nauðsynleg lán og endurlána útgerðarfélögum til þess að tryggja þeim það fé, sem þarf umfram lán, sem fást úr opinberum sjóðum, til þess að lánsfjármagn nái 85% stofnkostnaðar.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég hef þegar sagt, að það er staðreynd, að atvinnulíf ýmissa kauptúna og sjávarþorpa úti um landið byggist fyrst og fremst á því, að fiskvinnslustöðvar, sem þar eru fyrir hendi, geti verið í fullum gangi, en á því er mjög mikill misbrestur víða. Sá misbrestur stafar að langmestu leyti af því, að hráefni skortir. Hráefni skortir mjög af þeim sökum, að það vantar skipakost til að sækja hráefnið, og þetta hefur staðarmönnum yfirleitt verið ljóst. Þess vegna hafa þeir lagt á það höfuðáherzlu margir hverjir og reynt að klífa þrítugan hamarinn til þess að geta eignazt skip, og eru margir að brjótast í því, en það er gert af alltof miklum vanefnum.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hið opinbera, ríkisvaldið, komi á móti þessum áhugaaðilum og rétti þeim örvandi hönd með þeim hætti, að leggja fram nokkurt stofnframlag og áhættufé sem hlutafé í þessum útgerðarfélögum. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef þessi leið yrði farin, þá gæti hún orðið veruleg lyftistöng á ýmsum stöðum og örvað mjög til athafna.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi, þá flutti ég allýtarlega framsöguræðu um þetta s. l. vetur, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en leyfi mér að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.