17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (3247)

95. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. meiri hl. (Kristján Ingólfsson) :

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er flutt af hv. 2. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, sem nú er fjarverandi, er fjallað um sauðfjárbaðanir og fylgir frv. ýtarleg grg. Í stuttu máli talað gerir frv. þetta ráð fyrir, að sauðfjárbaðanir skuli fara fram alls staðar á landinu næsta vetur, veturinn 1971–1972, en eftir það verði heimilt að baða einungis annað hvert ár. Þetta mun í samræmi við lög, sem í gildi eru um þetta efni. En frv. kveður einnig á um, að heimilt verði ráðherra, — í frv. stóð upprunalega sýslunefnd, en meiri hl. landbn. Ed. gerir þá brtt. að valdið verði sett í hendur ráðh., sem telja má eðlilegra, — að veita undanþágu frá böðun sauðfjár, eins og hér segir, í héraði eða tilteknum byggðarlögum, þar sem fylgt hefur verið settum reglum um böðun og óþrifa í sauðfé hefur ekki orðið vart í mörg ár, enda mæli yfirdýralæknir og hlutaðeigandi héraðsdýralæknir með því, að slík undanþága sé veitt. Hins vegar er sá varnagli sleginn, að undanþága verði ekki veitt nema í eitt skipti í senn, þannig að aldrei líði lengri tími en 4 ár í milli þess að baðað sé. Ég hygg persónulega, að það, sem hv. flytjandi frv. á við í þessu sambandi, komi einkum og sér í lagi til með að snerta einangruð byggðarlög, sem vel hafa staðið sig, — byggðarlög á milli stórfljóta, sanda og áa, sem ekki hafa mikinn afréttarsamgang við önnur byggðarlög. Við vitum, að víða á landinu hefur regla á þessu verið ágæt, en þau byggðarlög eru reyndar til, sem því miður hafa ekki jafngóðan sess hér sem skyldi. Um það ætla ég ekki að ræða nánar.

Ég vil geta þess hér, að landbn. Ed., eins og þskj. gerir grein fyrir, klofnaði í tvennt í málinu, og mun minni hl., sem hv. 5. hm. Sunnl. er frsm. fyrir, gera grein fyrir sínu máli hér á eftir.

Ég tel, að hvað sem öllu öðru líður, eigi samþykkt þessa frv. að vera að fullu og öllu hættulaus, ég set svo mikið traust á þann mann, sem fer með landbúnaðarmál hverju sinni, og ætla, að aldrei verði sá maður svo ábyrgðarlaus, að hann veiti heimild til þess að sleppa böðun í byggðarlögum, sem þyrfti samkv. áliti héraðsdýralæknis að baða í. Ég álít, að það sé fullforsvaranlegt gagnvart heilsuvernd sauðfjárstofnsins að samþykkja frv., því að valdið er ekki í höndum eins einstaks bónda, heldur í höndum ráðh. að undangengnu áliti héraðsdýralæknis hverju sinni.