30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (3268)

110. mál, vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég stend aðeins hér upp aftur til þess að lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þetta frv. hefur fengið hjá hæstv. sjútvrh., og vænti þess, að sú afstaða hans verði til þess að tryggja það, að þetta frv. fái í alla staði rækilega meðferð og afgreiðslu. Ég skal sízt hafa á móti því, ef skynsamlegar brtt. koma fram við frv. undir meðferð þess í þá átt, að það taki meira til vinnslustöðvanna heldur en það gerir. Allt slíkt tel ég til bóta, ef hægt er að finna því raunhæfan grundvöll, og það mundi sízt sæta aðfinnslu af minni hálfu. En ég bendi aftur á það, sem ég raunar gerði í minni frumræðu, að hér er um grundvallaratriði að ræða, þ. e. a. s. hvernig varan er, þegar hún kemur að landi, og einnig eru ákvæði í frv., sem eiga að tryggja betri meðferð í vinnslustöðvunum heldur en verið hefur. En sé með raunhæfum hætti hægt að benda á lagaákvæði, sem tryggt gætu betur vinnsluna í vinnslustöðvunum, þá er ég því að sjálfsögðu meðmæltur.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að grundvallarnauðsyn í sambandi við þetta er það atriði, sem ákveðið er í frv., að nauðsynlegur verðmunur sé á milli gæðaflokkanna, þegar fiskur er dreginn að landi. Og ég er viss um, að það þarf að breyta matinu allverulega á ferskfiski frá því, sem nú er, þannig að það sé miklu meira metið, hvernig vöru sjómennirnir skila að landi, og um leið séu hagsmunir þeirra tengdir við það að koma með sem bezta vöru að landi, en ekki eingöngu við aflamagnið, því að auðvitað er það alveg rétt, sem ráðh. sagði, að þegar sáralítill eða jafnvel enginn munur er á verði lélegrar og góðrar vöru, þá hugsa menn fyrst og fremst um magnið. Það er hver sjálfum sér næstur í þeim efnum sem mörgum öðrum.

Ég hef ekki fengið tilefni til þess að fara fleiri orðum um málið en ég hef þegar gert, en endurtek það, að ég er ánægður með þá viðurkenningu á þessu máli, sem hæstv. ráðh. hefur látið í ljós.