20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

1. mál, fjárlög 1971

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fjárlög eru spegilmynd af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstj., sem að þeim stendur. Fjárlagafrv. fyrir árið 1971 er góð sönnun fyrir gildi þessarar reglu. Einkenni þess, sem fyrri fjárl. ríkisstj., er verðbólga og útþensla ríkiskerfisins. Um þetta segir svo í grg. fjárlagafrv., með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. gefur hins vegar eftirtektarverða mynd af áhrifum hinna miklu launa- og verðlagshækkana á hag ríkissjóðs.“ Síðan segir: „Hins vegar verða verulegar hækkanir vegna lögákveðinna útgjalda, m. a. lagaákvæða frá síðasta þingi.“

Þessar tilvitnanir nægja til að sýna fram á réttmæti orða minna, að verðbólga og útþensla ríkiskerfisins einkenni þetta fjárlagafrv. Hins vegar vil ég færa frekari rök að því, að verðbólga og hækkun fjárl. hafi átt betri liðsmenn í hópi núverandi valdhafa en hjá öðrum ríkisstj. Ég hef gert samanburð á hækkun fjárl. á tveimur 8 ára tímabilum. Það fyrra er frá 1950–1958, en það síðara frá 1963–1971. Niðurstöður af þessum samanburði eru þær, að á árunum 1950–1958 hækkuðu fjárl. um rúmar 500 millj. kr. eða 168%. Á árunum 1963–1971 hækkuðu þau um 8400 millj. kr. eða 380%. Til þess að sýna sambandið á milli verðbólgunnar annars vegar og hækkana fjárl. hins vegar vil ég minna á það, að vöxtur verðbólgunnar var 123% á áratugnum 1950–1960, en 250% frá 1960 til ágústmánaðar í sumar. Þessar tilvitnanir sanna, svo að ekki verður á móti mælt, hve holl stefna ríkisstj. hefur reynzt verðbólgunni og hvað sambandið á milli hækkandi fjárl. og verðbólgu hefur verið sterkt. Enda þótt það, sem ég hef sagt um síhækkandi fjárlög, segi mikið um þróun í fjármálum ríkisins, segir það þó ekki alla söguna, vegna þess að tekjur umfram fjárlög hafa orðið um 1200 millj. kr. á árunum 1967–1969. Þrátt fyrir þetta er halli á ríkisrekstrinum þessi ár 300–400 millj. kr. Þessu til viðbótar kemur svo það, að ýmsar framkvæmdir, sem áður voru greiddar af tekjum hvers árs, hafa á síðari árum verið framkvæmdar með lánsfé. T. d. skuldar Vegasjóður nú 600–700 millj. kr. og skuldir ríkissjóðs í þrengstri merkingu, þ. e. ekki meðtaldar skuldir ríkisstofnana eða endurlán, hafa hækkað um 780 millj. kr. á árunum 1967–1969, þ. e. 440%. Og frá 1958 hafa þær hækkað um 740%. Fleira en það, sem hér hefur verið talið, kemur fram sem bein áhrif frá verðbólgustefnu ríkisstj. T. d. er ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna, þó að útgjöld hækki um 25%. Hver trúir því, að hjá þeim verði komizt, þó að ekki sé veitt fé til þess á fjárlagafrv.? Alvarlegast er þó það, að ekki er nema að litlu leyti rúm fyrir hækkaðar fjárveitingar til nauðsynlegustu verkefna í 2000 millj. kr. hækkun fjárl. Nokkur dæmi vil ég nefna máli mínu til sönnunar.

Fjárveiting til byggingar barna- og gagnfræðaskóla hækkar um 23.1 millj. kr. Hvað þýðir það? Þessi fjárhæð er ekki meiri en svo, að hún nægi til þess að mæta hækkuðu verðlagi vegna þeirra skóla, sem eru í byggingu. M. ö. o., það er engin fjárveiting áætluð í fjárlagafrv. til nýrra bygginga á barna- og gagnfræðaskólum. Stjórnarliðar gera sér mikið far um að mikla sig af þeim fjárveitingum, er fara til byggingarframkvæmda í þessum skólum. Ég hef enga löngun til þess að gera lítið úr því, sem gert hefur verið í þessum málum, en það, sem skiptir máli hér sem í öðrum málum, er, hvernig tekst að leysa þau verkefni, sem til úrlausnar eru á hverjum tíma. Það hefur ekki tekizt hvað skólabyggingar varðar. Það er mér vel kunnugt um: Vilji héraðanna til framkvæmda og þörfin fyrir þær hefur alltaf verið miklu meiri en möguleikar ríkisins til úrlausnar. Það er því ekki rétt, sem haldið hefur verið fram, að það standi á héruðunum í þessum efnum. Það mun því engum koma annað til hugar en til þessa málaflokks verði að verja stórum fjárhæðum á þessum fjárl.

Eitt af þeim málum, sem mjög hefur verið til umr. nú um nokkurt skeið, er að jafna aðstöðu æskunnar til framhaldsnáms. Á Alþ. veturinn 1969 var samþ. þáltill. frá þm. Ingvari Gíslasyni og Sigurvin Einarssyni um athugun á þessu máli. Í framhaldi af þeirri samþykkt var á fjárl. 1970 fjárveiting, er nam 10 millj. kr., til að jafna aðstöðumun æskufólks til framhaldsmenntunar. Enda þótt hv. þm. væri ljóst, að hér væri um allt of litla fjárhæð að ræða, var þeim samt viðurkenningin mikils virði. En hvað skeði svo um framkvæmd málsins hjá hæstv. menntmrh.? Samkv. auglýstum reglum um úthlutun þessa fjár voru nemendur, sem stunduðu gagnfræðaskólanám í heimavistarskólum úti á landi, útilokaðir frá því að njóta dvalarstyrks af þessari fjárveitingu. Hér er um hróplegt ranglæti að ræða, sem ekki verður þolað. Öllum var það ljóst, að þessi fjárveiting var aðeins viðurkenning á nauðsyn málsins, eins og áður er fram tekið, en mundi ekki nægja til að jafna aðstöðumuninn. Það vakti því undrun, þegar ljóst var, að fjárhæðin á fjárlagafrv. árið 1971 hækkaði ekki einu sinni sem nemur hækkun námskostnaðar, hvað þá að litið væri á þörfina eða nemendafjölgunina. Að þannig sé tekið á máli, er skiptir sköpum fyrir æsku landsins, í fjárlagafrv., er hækkar yfir 2000 millj. kr., munu hv. þm. ekki láta bjóða sér.

Ekki er betri sögu að segja af framlögum til byggingar sjúkrahúsa og læknabústaða. Af 2000 millj. kr. hækkun ríkisútgjaldanna á að verja 1.7 millj. kr. til þeirra. Ástandið í heilbrigðismálum er svo alvarlegt, að einskis má láta ófreistað til þess að bæta úr því. Allmiklar umr. hafa farið fram hér á landi um skipulagsbreytingu í læknisþjónustu með samstarfi við lækna við læknamiðstöðvar. Það verður að treysta því, að ekki standi á fjárveitingu til þess að koma slíkri skipulagsbreytingu í framkvæmd, þar sem samstaða er fyrir hendi til þess að skapa hana og annað, er verða má til aukins öryggis í læknisþjónustu, þótt fé sé ekki áætlað til þess á fjárlagafrv. nú, verður Alþ. að taka þar í taumana.

Ekki þarf orðum að því að eyða, hversu ákaft þeir, sem ekki hafa raforku frá samveitum, óska eftir henni og er það að vonum. Á síðari árum hefur verið gripið til þeirra ráða, að byggðarlög hafa útvegað sér fé til framkvæmda við raflagnir og hafa sjálf greitt vextina. Hér er um mikið ranglæti að ræða, að byggðarlög, sem núna fyrst hafa verið að fá rafmagn eða eru að fá það, skuli verða að leggja á sig fjárútlát til að fá rafmagnið frá ríkissamveitum, en þeir, sem hafa búið við það um áraraðir, þurftu ekkert slíkt á sig að leggja. Þannig getur ríkið ekki mismunað þegnunum. Úr því verður að bæta. Af 2000 millj. kr. hækkuninni var aðeins hægt að veita 4.9 til þessa málaflokks.

Ekki verður séð, hvernig Vegasjóður á að valda verkefnum sínum með þeim tekjustofnum, er hann hefur. Framsóknarmenn hafa alltaf talið, að ríkissjóður geti ekki tekið í sína vörzlu svo miklar tekjur af umferðinni, eins og nú á sér stað og það í landi, sem á jafnmikið af óleystum stórverkefnum í vegagerð. Fram hjá málum Vegagerðarinnar var gengið, þegar fjárlagafrv. var samið, þó að útgjöld þess hækkuðu um 25%. Þannig sogar verðbólgan og útþensla ríkiskerfisins til sín þær tekjur, sem ríkisstj. sækir til þegna landsins.

Til þessa hef ég ekki vikið að breytingum á tekjuáætlun fjárlagafrv., en þær eru verulegar. Söluskattur í þeirri mynd, sem hann er nú, var upp tekinn af núv. ríkisstj. í upphafi árs 1960. Á fyrstu valdaárum viðreisnar gætti hans litið, en nú er hann orðinn stærsti tekjustofn ríkisins og eru áætlaðar tekjur af honum um 3500 millj. kr. Eðli söluskatts sem tekjustofns er það, að hann er jafnhár, hvort sem um er að ræða nauðsynlegustu neyzluvörur eða miður nauðsynlegar vörur. Hann leggst því með meiri þunga á rekstur heimilisins eftir því, sem börnin eru fleiri. Auk þess eru skil á honum til ríkissjóðs ekki svo örugg sem vera skyldi. Hér áður fyrr, þegar söluskattur var á dagskrá sem tekjustofn, voru Alþfl.-menn mjög skeleggir andstæðingar hans, m. a. fórust núverandi formanni Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasyni, þá orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Þetta er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með það, að hann sé ranglátur í eðli sínu. Framkvæmdin í söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða.“

Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hæstv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, og hans liðsmenn eru nú orðnir slíkir stuðningsmenn söluskatts, að sú ríkisstj., er þeir sitja í, hefur söluskatt fyrir stærsta tekjustofn ríkissjóðs. Til viðbótar söluskattsálögum á barnmörgu heimilin má geta þess, að námsbókagjöld eru tvöfölduð. Skoðanagjöld af bifreiðum hækka um 5.8 millj. kr. og enn þá eru bifreiðaeigendur að greiða skatta vegna hægri umferðar. Það er stefna Framsfl., að tollar verði að vera mismunandi háir eftir eðli varanna og skatta megi ekki leggja á brýnustu nauðsynjar. Ef söluskattur er notaður sem tekjustofn að einhverju marki, verður að létta þeirri byrði af þeim efnaminni með tryggingabótum og afnámi skatta á nauðþurftartekjum. Gegn þeirri íhaldsstefnu að leggja þyngstu skattana þar á, sem getan er minnst, eins og nú er gert, mun Framsfl. berjast, svo sem hann hefur orku til. Auk þessa verkar þessi tekjuöflunarstefna sem olía á verðbólgubálið.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun framsóknarmanna við hliðstæðar umr. og endurtek það nú, að ekki er unnt að halda áfram á þeirri braut, sem nú er farin um fjármál ríkisins. Þetta fjárlagalrv. og verðbólgan í þjóðfélaginu sanna það. Mér er það ljóst, að mikið átak þarf til að breyta ríkisrekstrinum, svo að áhrifa gæti, og ég geri heldur ekki litið úr því, sem gert hefur verið í þá átt. Ég get hins vegar ekki annað en látið í ljós vonbrigði mín með það, sem til athugunar hefur verið í sparnaðarátt, hvað seint gengur. Það er skoðun okkar framsóknarmanna, að það þurfi að eiga sér stað viss samdráttur í ríkiskerfinu til þess að rýma fyrir nýjum verkefnum. Ekkert hefur enn þá þokazt í áttina um endurskoðun á skipun lögreglumála, þar sem stefnt var að sparnaði, svo sem undirnefnd fjvn. vann að í fyrrasumar. Hvað gerist í því að sameina viðgerðarverkstæði ríkisstofnana, og hvað er með verkfræðingaþjónustu ríkisins? Er nokkur skipulagsbreyting þar í vændum? Er þörf á Efnahagsstofnuninni? Mér sýnast verkefni hennar vera komin til Seðlabankans og að nokkru leyti til fjármáladeildar menntmrn. Er ekki hægt að koma því svo fyrir, að Hagstofan og hagsýslan annist þau verkefni, sem eftir eru hjá þessari stofnun? Er ekki með tilveru hennar verið að láta marga aðila vinna sama verkið? Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að eðlilegt væri að afhenda Búnaðarfélagi Íslands þau verkefni, sem eftir eru hjá Landnámi ríkisins. Hvað um vélasjóð? Hefur hann nú því hlutverki að gegna, að þörf sé á að halda uppi starfsemi hans? Ég spyr: Er ekki fullkomin ástæða til þess, að ríkisvaldið hafi forustu um samstarf sjúkrahúsa, m. a. í sambandi við kaup á dýrustu og fullkomnustu tækjum og verkaskiptingu í sambandi við þau? Ég spyr enn: Er aðhald hjá ríkisstofnunum af hálfu stjórnvalda svo sem nauðsyn ber til? Skortir ekki á, að skipulagið tryggi samband á milli stofnana og stjórnvalda? Umsetning Pósts og síma er að krónutölu álíka há og fjárlög íslenzka ríkisins 1958. Alþingi starfaði þá sem nú að því í nokkra mánuði að fjalla um fjárl. og algreiddi þau við þrjár umr. En hjá Pósti og síma þarf ekkert slíkt við. Þar er meðferð fjár á valdi forstöðumanna stofnunarinnar, sambandið á milli stjórnvalda og stofnana er harla lítið. Áætluð fjárþörf stofnana er að jafnaði eftir till. forstöðumanna þeirra án raunhæfra afskipta ríkisvaldsins. Orkustofnunin ásamt Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum undirstöðustofnunum hennar hafa a. m. k. 700 millj. kr. umsetningu á næsta ári. Ég spyr: Er það sambandið á milli stjórnvalda og þessarar stofnunar, sem gildir? Fleiri dæmi mætti nefna, þótt ég láti hér staðar numið um upptalningu stofnana, en ég vil undirstrika það, að nauðsyn ber til að athuga stöðu ríkisstofnana gagnvart stjórnvöldum, ekki sízt þeirra, sem hafa sjálfstæða tekjustofna, enda er eðli málsins samkv. meira eftirlit haft með hinum. Ég vil taka það fram, að það á ekki hvað sízt við um ríkisstofnanir og aðra opinbera þjónustu, sem Framsfl. telur brýna nauðsyn bera til athugunar á samstarfi þeirra og jafnvel sameiningu. Nefni ég þar til ýmsa opinbera sjóði með hliðstæð verkefni, en hala þó ekkert samstarf.

Um aðhald eða eyðslu í ríkisrekstrinum umfram það, sem ég hef vikið að, skal ég ekki vera margorður. En ég leyfi mér að geta þess, að kostnaður við risnu og ferðalög ríkisstj. og á vegum aðalskrifstofu rn. var á árinu 1969 16.5 millj. kr. Mér er það að vísu ljóst, að nú orðið, þegar fjárlög eru orðin yfir 10 þús. millj. kr., þykja þetta kannske ekki háar fjárhæðir. En ég vek þó jafnframt athygli á því, að á sama ári var 15 millj. kr. varið til stofnkostnaðar í öllum héraðsskólum landsins eða lægri fjárhæð heldur en til risnu og ferðalaga á vegum ríkisstj. Og til stofnkostnaðar gagnfræðaskóla í Reykjavík og öllum kaupstöðum landsins 19.2 millj. kr. eða 2.7 millj. kr. hærri fjárhæð en risna og ferðalög þessara aðila. Ég leyfi mér einnig að minna á afgreiðslu ríkisstj. á aths. ríkisendurskoðunarinnar við reikninga húsameistaraembættisins, þar sem nokkrum starfsmönnum var gert að greiða verulega fjárhæð aftur til embættisins vegna rangrar færslu að dómi endurskoðunarinnar. Áður en úrskurður var upp kveðinn ákvað dómsmrh., Jóhann Hafstein, að greiða skyldi forstöðumanni stofnunarinnar fyrir aukavinnu frá fyrri árum fjárhæð, sem dregin var frá þeirri fjárhæð, er honum hefði annars borið að greiða. Hins vegar endurgreiddi forstjórinn embættinu samkv. úrskurði. Eftir að úrskurður hafði verið upp kveðinn af ríkisendurskoðuninni ákvað dómsmrh. að greiða einnig tveimur öðrum starfsmönnum laun 3 ár aftur í tímann vegna auka- og eftirvinnu og sléttaði með þeim hætti næstum reikninga þeirra. Um þetta mál höfðu farið fram nokkur bréfaskipti á milli fjmrh. og dómsmrh., svo sem fram kemur í aths. við ríkisreikninginn 1969. En niðurstaðan gilti þrátt fyrir úrskurð ríkisendurskoðunarinnar og bréf fjmrh. Ég ætla mér ekki dómarastarf í þessu máli frekar en öðrum. En vel má vera, að rétt sé, er fyrrv. gjaldkeri stofnunarinnar hélt fram í Morgunblaðinu fyrir stuttu síðan, að hann hefði haft samþykki forstjóra stofnunarinnar til að inna af hendi greiðslur til sjálfs sín fyrir yfirvinnu og aukastörf. En ég spyr, af hverju var þá ekki gengið frá þessu máli fyrr en eftir það, að það var búið að vera til umr. á Alþ. og í blöðum, þegar farið var 3 ár aftur í tímann? Er hægt að viðhafa slík vinnubrögð? Ég spyr einnig: Hvernig er farið með skattgreiðslu af slíkum tekjum, sem samþykktar eru 2–3 árum eftir að viðkomandi aðill hefur unnið fyrir þeim? Hvað sem um þetta mál má segja, er framkvæmdin og endalok þess með þeim hætti, að slíkt má ekki og á ekki að koma fyrir í opinberum rekstri.

Þá vil ég minna á það, að ekki hefur ríkisstj. enn skilað grg. um tölu nefnda, sem störfuðu á vegum ríkisins árið 1969, eða launagreiðslur til þeirra. Eins og ég vék að í upphafi máls míns, er þetta fjárlagafrv. svo greinilega brennimerkt verðbólgunni, að þar kemst enginn vafi að. Það mun því lítið þýða að ræða um fjármál ríkisins né tala um úrbætur án þess að víkja að efnahagsstefnu ríkisstj. og verðbólguvandanum. Það er venja hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmanna, þegar efnahagsmál eru til umr., að tala þá aðeins um eina leið, eina stefnu. Það er þá stefnu, sem stjórnarliðar hafa fylgt. Þegar við framsóknarmenn höfum rætt aðrar leiðir og sett fram aðrar skoðanir, hefur svarið jafnan verið þetta: Þið hafið enga stefnu, ekkert til málanna að leggja. Ég vil því víkja að þeirri reynslu, sem fengizt hefur af efnahagsstefnu ríkisstj.

Hún hófst með gengislækkuninni 1960, önnur gengislækkun var árið 1961. Árin þar á eftir voru ein beztu ár í efnahagsmálum þessarar þjóðar. Þrátt fyrir þetta varð á þessum árum að gera margvíslegar ráðstafanir vegna atvinnuveganna. Með júnísamkomulaginu 1966 var vísitala tekin upp að nýju, niðurgreiðslur voru felldar niður af ýmsum vörutegundum fyrri hluta sumars. En þegar leið á sumarið 1966 var í skyndi ákveðin verðstöðvun. Niðurgreiðslur á vöruverði voru auknar að miklum mun. Efnahagskerfið riðaði til falls. Máli mínu til sönnunar um það, hvernig efnahagsstefna ríkisstj. skilaði efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar eftir mestu góðæri í sögu hennar, leyfi ég mér að vitna til ræðu, er hæstv. forseti Sþ., Birgir Finnsson, flutti við 1. umr. fjárlaga í október 1966, þegar hann ræddi um efnahagsmál, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Langsamlega stærsti þáttur í vanda þeim, sem við er að etja, er verðbólgan. Hún hefur veikt starfsgrundvöll útflutningsatvinnuveganna meira en nokkuð annað og sú staðreynd, að ekki hefur fyrr komið til stöðvunar byggist eingöngu á því, að verðlag að undanförnu hefur verið mjög hagstætt á flestum útflutningsafurðum sjávarútvegsins.“

Þessar setningar þurfa ekki skýringar við. En hvert var svo framhaldið frá haustinu 1966? Ríkisfé var mokað í niðurgreiðslur til að halda verðlagi í skefjum fram yfir kosningar. Stjórnarliðar kepptust við að halda því fram, að allt væri í lagi og verðstöðvunin yrði til langframa. Þegar komið var fram á sumarið 1967 og kosningarnar voru um garð gengnar, kom annað hljóð í strokkinn og þann 25. ágúst gaf viðskrh. út yfirlýsingu í sjónvarpsviðtali um alvarlegt ástand í efnahagsmálum. M. a. fórust honum orð á þessa leið, samkv. frásögn Alþýðublaðsins:

„Ráðherrann kvaðst ekkert geta sagt um það enn, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar til þess að mæta þessum vanda. En hins vegar gæti hann fullyrt, að gengislækkun væri ekki rétta ráðið. Gengislækkun skapaði alltaf vandamál og undir núverandi kringumstæðum teldi ríkisstj., að gengislækkun mundi skapa meiri og stærri vandamál en hún leysti.“

Enda þótt þessi yfirlýsing ráðh. gæfi von um, að ríkisstj. væri að hverfa frá þeim þætti í stefnu sinni, er einkennzt hafði af gengisfellingum, þá fór svo, að yfirlýsing ráðh. gleymdist fljótt. Í nóvember varð gengisfelling. Hætt var við niðurgreiðslur, er ákveðnar voru sumarið 1966 vegna kosninganna. Verðbólgan flæddi yfir á nýjan leik. Þrátt fyrir gengisbreytingar varð að gera ráðstafanir vegna atvinnuveganna svo að segja í hverjum mánuði allt árið 1968 fram í nóvember, en þá var gengi íslenzku krónunnar fellt á nýjan leik og nú meir en áður. Atvinnuleysi og útflutningur á vinnuafli úr landinu einkenndi þessi ár. Upp úr gengisfellingunni 1968 hófst láglaunatímabil á landi hér. Yfirlýsingar voru gefnar um, að það væri aðeins um stutt tímabil að ræða, batinn væri öruggur og á næsta leiti. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar s. l. vor kepptust allir við að lýsa því yfir, að þörf væri á að hækka laun, aflabrögð hefðu verið góð og verðlag sérstaklega hátt á þessu ári. Skilyrði til kauphækkunar væru ákjósanleg. Jafnvel stjórnvöld buðu gengishækkun. Nýir kjarasamningar voru gerðir eftir þriggja vikna verkfall. En verðbólgan fylgdi fast á eftir. Allt var gefið frjálst og nú þremur mánuðum frá gerðum kjarasamningum eru hafnar umr. um verðstöðvun á nýjan leik, eins og fyrir síðustu kosningar, í þeirri von, að hjá stóráföllum verði komizt fram yfir alþingiskosningar næsta vor. Þetta er í stuttu máli saga viðreisnarstefnunnar, þeirrar einu stefnu, er stjórnarliðar telja þjóðinni trú um, að sé fær í efnahagsmálum hennar. Árangurinn er sá, að aðeins var afkoma atvinnuveganna sæmileg, þegar vinnuaflið var það ódýrt, að Ísland var lýst sem láglaunasvæði. Aðeins örfáum mánuðum eftir að frá því er horfið eru menn farnir að óttast um afkomu atvinnuveganna, þrátt fyrir góðærið. Hver vill í raun og veru trúa því, að engin önnur stefna sé til í efnahagsmálum? Það væri óhugnanleg tilhugsun, ef svo væri.

Eins og fram kom í ræðu formanns Framsfl. í fyrri viku, er Framsfl. fylgjandi verðstöðvun, þó því aðeins, að hún sé raunhæf, en ekki sýndarmennska eins og fyrir kosningarnar 1959 og 1967. Til þess að verðstöðvun sé raunhæf verður að nota tímann, sem vinnst við hana, til þess að færa verðlag til þess, sem afkoma heilbrigðra atvinnuvega þolir. Framsfl. lýsti þeirri stefnu sinni við umr. stjórnmálaflokkanna haustið 1968 og oft síðan, að mörg ráð yrðu að koma til í baráttunni við verðbólguna. Nauðsyn bæri til að minnka vandann, m. a. með því að draga úr álögum á atvinnuvegina, endurskipuleggja ýmsa starfsemi þeirra með hagræðingu og áætlunargerð, með breytingu á stofn- og rekstrarlánum til atvinnuveganna. Framsóknarmenn telja, að eitt af þeim atriðum, sem nota þurfi til baráttu gegn verðbólgunni, sé að fella niður söluskatt af mestu nauðsynjum og hafa persónufrádrátt til skatts þannig, að ekki sé lagt á nauðþurftartekjur eins og nú er gert. Það er röng stefna að dómi framsóknarmanna að hagnýta sér vöxt verðbólgunnar til aukinnar skattheimtu. Skattvísitalan og verðlagsvísitalan eiga að haldast í hendur. Um þetta flutti Framsfl. frv. á síðasta þingi og aftur nú. Það er skoðun okkar, að ef að því ráði hefði verið horfið í fyrra að samþykkja frv. okkar um söluskatt og tekju- og eignarskatt, stæðum við nú ekki frammi fyrir hrollvekjandi verðbólgu og betri horfur væru einnig um fjárhag ríkissjóðs en nú er. Framsóknarmenn vilja efla hag almennra trygginga m. a., svo að hægt sé að beita mætti þeirra gegn verðbólgunni. Þessi atriði um stefnu okkar framsóknarmanna og vinnubrögð til að stöðva og draga úr verðbólgu verð ég tímans vegna að láta nægja, en vildi undirstrika þetta:

Framsfl. telur nauðsyn bera til að stöðva vöxt verðbólgunnar nú þegar; en leggur áherzlu á það, að raunveruleg barátta verði hafin gegn verðbólgunni í skjóli verðstöðvunarinnar, m. a. með þeim aðgerðum, sem ég lýsti hér fyrr í ræðu minni. Framsfl. telur, að án forustu ríkisvaldsins verði engri verðstöðvun komið á. Forusta ríkisvaldsins verður m. a. að koma fram í aðhaldi í ríkisrekstrinum og hjá ríkisstofnunum um, að þær haldi þjónustugjöldum sínum í skefjum og hafi sterkt aðhald í rekstrinum. Ríkissjóður verður að slá af og breyta tekjuáætlun sinni og taka á sig útgjöld vegna verðstöðvunarinnar, enda mun það, er fram liða stundir, tryggja betur hag hans en sú stefna, er ætlar honum að taka af þjóðinni 2000–2500 millj. kr. meiri tekjur á næsta ári en á þessu. Þess háttar stefna getur ekki lagt grundvöll að verðstöðvun. Rök fyrir þessari skoðun okkar teljum við okkur geta sótt í grg. fjárlagafrv., sem ég lýsti í upphafi máls míns.

Herra forseti. Mér er það ljóst af fyrri reynslu, að hæstv. ríkisstj. hefur ýmislegt við þessa ræðu mína að athuga, m. a. brigzla mér um ábyrgðarleysi í sambandi við afstöðuna til tekjuáætlunarinnar og þátttöku ríkissjóðs í stöðvun verðbólgunnar. Mitt svar er það, að mesta ábyrgðarleysið gagnvart afkomu ríkissjóðs sé óbreytt stjórnarstefna. Aðeins með breyttri stjórnarstefnu er hægt að koma efnahag þjóðarinnar á rétta braut. Að því vill Framsfl. vinna. — Góða nótt.