20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið töluvert fróðlegt að hlýða á ræður þeirra talsmanna stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað, þrír að tölu. Þeim hefur öllum vitanlega ofboðið það, hversu skelfilegt það fjárlagafrv. væri, sem lagt hefur verið fram fyrir hið háa Alþ. Ég tók það greinilega fram í framsöguræðu minni, að mér fyndist óhugnanlegt, hversu fjárl. hefðu hækkað, og gerði jafnframt í ræðunni nákvæma grein fyrir því, hverjar orsakir þessarar hækkunar væru. Því er að sjálfsögðu haldið fram af hv. stjórnarandstæðingum sameiginlega, að allt stafi þetta af verðbólgustefnu ríkisstj., það hefur verið endurtekið hér ár eftir ár. Allt er þetta að sjálfsögðu út í hött. Því er haldið fram, að ríkisstj. hafi, þegar hún tók við völdum 1960, lofað að vinna bug á verðbólgunni. Hún hefur aldrei lofað að vinna bug á verðbólgunni. Hún hefur lofað að beita öllum úrræðum til þess að sporna við böli verðbólgunnar og koma í veg fyrir vöxt hennar með öllum tiltækum ráðum. Hitt blasir við augum allra, að við verðbólgu verður ekki ráðið nema því aðeins, að almennur skilningur sé í þjóðfélaginu á því, að þau nauðsynlegu lögmál séu látin ráða varðandi kostnaðarhækkanir og launahækkanir, sem geri það mögulegt að ráða við verðbólgu. Verðbólga er ekki nýtt fyrirbrigði hér á Íslandi. Hún er því miður áratugafyrirbrigði, og allar ríkisstj. hafa þurft að fást við þennan vanda, ekki fremur þessi ríkisstj. en önnur. Og þegar þessir hv. herrar eru með þær ásakanir á hendur núv. ríkisstj., að hún hafi ekki ráðið við verðbólguna, þá gleyma þeir því, að þeir hafa sjálfir staðið að ríkisstj., sem varð að hverfa frá völdum, þegar þessi ríkisstj. tók við völdum fyrir 10 árum, vegna þess að þeir gáfust með öllu upp við að ráða við verðbólguna, og höfðu þeir þó komizt til valda á þann veg, að þeirra fyrsta árás gegn verðbólgunni var að skerða kjör launþega um 6 vísitölustig, og síðan hrökkluðust þeir frá völdum, vegna þess að verkalýðurinn vildi ekki gefa eftir 17 vísitölustig í viðbót, til þess að þeim yrði auðið að ráða við verðbólguvandann. Samt er það boðað nú í dag, að kaupgjald hafi engin áhrif á verðbólgu, heldur sé það aðeins óstjórn ríkisstj., sem þar eigi hlut að máli.

Nei, því miður er þetta ekki þannig. Það, sem er vandinn, sem við hefur verið að glíma, er skilningsleysi á því, að það verður að ríkja visst og ákveðið hlutfall milli þjóðarframleiðslu og kauphækkana í landinu á hverjum tíma. Þá er hægt að halda þessari þróun í skefjum. Þetta eru ekki aðeins staðreyndir, sem blasa við hér á landi, heldur í öllum öðrum löndum, og því miður er þetta vandi, sem er við að fást nú í okkar nágrannalöndum einnig og sem torveldar nú ekki hvað sízt þá verðstöðvun, sem við þurfum að grípa til, vegna þess hve erlendar vörur, sem við þurfum að nota, hækka mikið í verði.

Það er ekki hægt hér að fara út í nema litið eitt af því, sem þessir hv. þm. sögðu, enda gerist þess naumast þörf. Þó að þeir fyndu að því, hversu fjárl. hækkuðu, og deildu á ríkisstj. og þá fyrst og fremst mig fyrir að hafa lagt fram sífellt hærri og hærri fjárlög, þá er það nú eins og áður, að það er ekki bent á nein haldgóð úrræði til þess að sporna gegn þessari hækkun fjárl. Það er alrangt hjá hv. talsmanni Framsfl. í þessum umr., sem er reyndur maður í fjármálum, og mælt gegn betri vitund, að það séu fjárl., sem spenni upp verðbólguna. Það er rétt hjá honum, að fjárl. eru spegilmynd — ekki af efnahagsstefnu ríkisstj. endilega, heldur kannske fyrst og fremst af því efnahagsástandi, sem ríkir í þjóðfélaginu, eins og fjárlagafrv. nú er greinilegt dæmi um. Og fjárlagafrv. nú hefur ekki hækkað vegna þess, að aðgerðir ríkisstj. hafi leitt til þessara hækkana. Ríkisstj. benti á úrræði í sumar, þegar vinnudeilurnar stóðu yfir, til þess að fá tryggar kjarabætur handa launþegum, án þess að ný verðbólgualda skylli yfir. Þetta er staðreynd, sem menn ekki mega gleyma. En það var ekki á valdi ríkisstj. að beita lögþvingun í samningum stéttarfélaga og vinnuveitenda til þess að fá þessa aðila til að velja þá stefnu, sem ríkisstj. lagði áherzlu á. Það hefur heldur engin ríkisstj. lagt eins ríka áherzlu á það og gert hefur verið á undanförnum árum, og fyrst og fremst undir forustu hins látna forsrh., Bjarna Benediktssonar, að eiga náið samstarf við launþegasamtökin til þess að finna skynsamleg úrlausnarefni í sambandi við stöðvun verðbólgu. Því miður hefur það ekki tekizt nægilega, þótt stundum hafi áunnizt verulega í þeim efnum. Og það hefur verið markvisst haldið áfram á sömu braut nú, og er markvisst að því stefnt af núv. ríkisstj. í þeim efnahagsumr., sem átt hafa sér stað við stéttasamtökin, að fá samstöðu nú til þess fyrst og fremst að tryggja það, að kjarabætur almennings renni ekki út í sandinn. Fjárlagafrv. nú er spegilmynd, það er rétt, af efnahagsástandinu, sem við stöndum andspænis, ef ekki verður spyrnt við fótum, og það ætti að vera þá nægilega alvarleg spegilmynd, til þess að menn sýndu fulla ábyrgðartilfinningu í þá átt að taka nú höndum saman við ríkisstj. landsins til þess að reyna að vinna gegn þeim ófarnaði, sem yfir þjóðina dynur og yfir verkalýðinn ekki hvað sízt, ef ekki er farið inn á þær brautir, sem ríkisstj. nú hefur lagt áherzlu á að gera. Það hefur verið deilt á gengislækkanir síðustu ára. Ég held, að það sé engum efa bundið og það sé óhætt að fullyrða það, að reynslan nú og hversu fljótt við höfum komið upp úr erfiðleikunum eftir þau miklu áföll, sem á okkur skullu fyrir þremur árum síðan, reynslan hafi staðfest það svo ótvírætt, að það þurfi ekki frekari raka við, að þar var grípið til réttra ráðstafana og þeirra einu ráðstafana, sem dugðu. Og þess má þjóðin minnast og mun minnast, að þegar stjórnarflokkarnir leituðust við að mynda þá breiða samstöðu til þess að fá samfylkingu allra afla um að forða þjóðinni frá þeirri ógæfu, sem þá virtist blasa við, þá var enginn til samstarfs og það varð hlutur ríkisstj. þá og stjórnarflokkanna að takast á við vandann, þegar aðrir hlupu út undan sér.

Hv. frsm. Framsfl., Halldór E. Sigurðsson, flutti hér eftirtektarverða ræðu, sérstaklega endalok hennar, sem í rauninni lýstu ræðunni allri. Hann sagðist vera ákaflega hræddur um, að menn mundu halda því fram, að ræða hans byggðist ekki á mikilli ábyrgðartilfinningu. Ja, mikið var. Og hann var líka hissa á því, að menn skyldu aldrei tala um aðra efnahagsstefnu en efnahagsstefnu ríkisstj., — ekki efnahagsstefnu Framsfl. Hefur þessum ágæta hv. þm. ekki dottið það í hug og hefur hann ekki, sem er skynsamur maður, gert sér enn þá grein fyrir því, að efnahagsstefna Framsfl. er ekkert annað en moðreykur og hefur aldrei verið þessi ár. Um Alþb. er það að sjálfsögðu að segja, að þeir hafa aldrei markað neina stefnu, og það var í rauninni raunalegt að hlusta á jafnágætan mann og hv. þm. Geir Gunnarsson vera svo gersamlega staðnaðan hér í umr. áðan, að hann fór nú í dag, og það þm. úr Reykjaneskjördæmi, að óskapast yfir þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefði fylgt, að reyna að byggja upp stóriðju í landinu, — taldi það sýna vantrú á sjávarútveginn. Heyr á endemi! Það vita allir, að það er hætta okkar í dag, hvað við höfum einhæft atvinnulíf. Það vita allir, að það er skoðun sérfræðinga, því miður, að það megi óttast stórkostlegan samdrátt í fiskveiðum hér á Norður-Atlantshafi. Og samt eigum við að sofa, samt eigum við að hugsa um það eitt að byggja á fiskveiðum og róa til sjávar, en ekki gera það, sem allar þróaðar þjóðir gera, sem er að reyna að efla stóriðju og tryggja trausta framleiðslu í sínu landi. Þær þjóðir, sem búa við bezt lífskjör í dag í heiminum, eru iðnvæddu þjóðirnar. Og því í ósköpunum skyldi það þá mega gerast hér á Íslandi, að við hirtum ekkert um að nota þá möguleika, sem felast í okkar fallvötnum og orkulindum, ekki til að auðga útlendinga, heldur til þess að auðga okkur sjálfa!

Það er í rauninni raunalegt, að það skuli vera ungir þm., sem ekki enn þá hafa gert sér grein fyrir þessu undirstöðuatriði, sem er skilyrði þess, að við getum búið við þau lífskjör, sem við heimtum að búa við hér í okkar landi. Ég skal ekki rekja þær villur ýmsar, sem fram komu í málflutningi hv. ræðumanna, sem hér hafa talað. Ég held, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson hafi slegið öll met, þegar hann fann það út, að það væri einfalt mál að spara 2500 millj. kr. í fjárl. til þess að greiða niður vöruverð. En snjallasta úrræðið held ég, að hafi þó verið það að spara allt það, sem varið er til niðurgreiðslna, til þess að taka upp nýjar niðurgreiðslur. Það hygg ég, að hafi verið hámark snillinnar. Að öðru leyti vil ég ekki ræða við þann hv. þm., því að ég tel ekki viðeigandi, þó að hann hafi hér í annað skiptið í þinginu farið að lesa upp bréf Alþýðusambands Íslands og stjórnar Alþýðusambands Íslands, sem er skipað fulltrúum margra flokka, og farið að gera það að sínum orðum hér, ég tel ekki viðeigandi að fara að ræða á þessum vettvangi um þau atriði, þó að ýmislegt megi um þau segja. Ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni taka þau til athugunar í framhaldsviðræðum, og það er ekki til neinna bóta að vera að flíka þeim eða efna til umr. um þau atriði hér, og í rauninni ekki sæmandi fyrir forseta Alþýðusambandsins að beita þeim hér fyrir sinn flokksvagn.

Hv. þm. Halldór E. Sigurðsson fór með mjög villandi frásagnir um skuldir ríkissjóðs og taldi þær hafa hækkað stórkostlega nú á s. l. árum, og átti þá við í rauninni síðasta árið, því að sannleikurinn er sá, að skuldir ríkissjóðs hafa hlutfallslega farið minnkandi ár frá ári. Þær eru í rauninni mjög svipaðar því, sem þær voru fyrir 10 árum, ef frá er skilið nú síðasta ár, sem stafar af því, sem hv. þm. ætti að vita, að þá var breytt í fast lán við Seðlabankann 500 millj. kr. yfirdráttarskuld, sem safnazt hafði á allmörgum árum, en yfirdráttarskuldir eða skuldir á viðskiptareikningi eru ekki þessi árin hafðar til samanburðar heldur eingöngu föstu lánin, og átti þess vegna alls ekki að reikna þá upphæð með hér. Þar var jafnframt tekið með 100 millj. kr., sem var lán til atvinnumálanefndar ríkisins og tekið var fyrir ári síðan, og er um hrein endurlán að ræða. Ef þetta er frádregið, hafa skuldir ríkissjóðs hlutfallslega stórlækkað á þessu tímabili. Það að vera að ræða um, hvað fjárlög séu hærri nú í krónum en þau voru fyrir 12–15 árum, það er auðvitað mjög fánýtt að gera. Það verður að hafa hliðsjón af því, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, hver er hlutdeild útgjalda miðað við þjóðartekjur eða þjóðarframleiðslu, eins og hv. 5. þm. Vestf. hér réttilega minnti á og benti á í sinni ræðu, það er sá eini eðlilegi samanburður, en ekki slita þessar setningar úr samhengi.

Hv. þm. lagði mikla áherzlu á nauðsyn þess að spara, og hann nefndi ýmis atriði, sem vissulega eru góðra gjalda verð. En svo að segja öll þessi atriði, ef ekki öll, hafa verið tekin til athugunar af fjmrn. og hagsýslustofnuninni og mörgu af því hefur þegar verið komið til leiðar. Annað tekur sinn tíma, eins og hann sjálfur viðurkenndi, að hlyti að vera með slíkar aðgerðir, en það er eitt, sem er eftirtektarvert við alla þessa upptalningu hv. þm., að það kom aldrei til álita, þegar þeir framsóknarmenn réðu fjármálum ríkisins, að þá væri reynt að spara á þessum lið. Þá var ekki Póstur og sími undir stjórn rn., sem nú er búið að setja hann undir, og þá voru ekki Rafmagnsveitur ríkisins undir sérstakri stjórnarnefnd, sem nú er búið að setja yfir þá stofnun, svo að ég nefni nokkuð. Nei, það er eins og hv. framsóknarmenn verði fyrst opnir fyrir sparnaði, þegar þeir eiga ekki sjálfir að bera ábyrgð á ríkisfjármálunum, en það má segja, að batnandi manni sé bezt að lifa. Nei, það er sannast sagna að við að hlusta á ræður hv. stjórnarandstæðinga hér í kvöld, þá hef ég ekki heyrt nein úrræði, sem beinast að því, hvernig eigi að lækka þá skelfilegu hækkun, sem þeir eru sammála um og raunar sammála mér um, að sé á fjárlagafrv. Og ég bíð enn eftir að heyra þessa till. Það eina, sem hefur heyrzt hér í kvöld, eru yfirlýsingar um það, hvað sé fráleitt, að ekki skuli vera varið miklu meira fé til alls konar framkvæmda, sem ég held þó, að hv. þm. Halldór E. Sigurðsson hafi slegið öll met í, að það vantaði peninga til allra skapaðra hluta, og þó var alger óhæfa, að útgjöld ríkissjóðs hefðu hækkað. Og hann taldi jafnvel, að söluskatturinn væri fráleitur, — en hvernig í ósköpunum á þá að afla tekna til þess að standa undir ríkisútgjöldunum?

Ég hef sýnt ríkisútgjöldin, ég hef sýnt þarfir ríkissjóðs, eins og þær eru í dag, sem spegilmynd af því ástandi, sem er, og sem spegilmynd af því ástandi, sem mun verða, ef ekki verður neitt aðhafzt. Það er nauðsynlegt að gera nú efnahagsráðstafanir til þess að stöðva verðbólguskriðuna. Úr því að ekki var hlustað á úrræði ríkisstj. í sumar, þá verður að vonast til, að menn þó vilji hlusta í haust og það náist samstaða um aðgerðir til að koma í veg fyrir, að í óefni stefni.

Það er rétt, sem ég benti á í minni ræðu, að það er engin ástæða til þess að kvíða. Það er engin ástæða til þess að horfa svörtum augum til framtíðarinnar, vegna þess að það er víða sólskin og það er víða bjart í lofti og efnahagur okkar hefur náð sér ótrúlega eftir mikla niðurlægingu, einmitt vegna skynsamlegra aðgerða af hálfu stjórnvalda og skynsamlegrar efnahagsmálastefnu. Og ef við höldum áfram, ef okkur tekst núna að halda skynsamlega á okkar málum, ef við gerum okkur grein fyrir því, að það er hin mesta þjóðarnauðsyn nú, að allir sameini krafta sína, það er, að stéttirnar sýni skilning, ekki til þess að fórna til hagsbóta fyrir aðra, heldur til að fórna, ef fórn á að kalla, til að tryggja sína eigin hagsmuni, framtíð sinnar eigin þjóðar, og leggja grundvöll að því, að við getum búið við stöðugt batnandi lífskjör, sem við eigum að geta gert án nokkurra teljandi fórna, ef skynsamlega er nú á málum haldið. Þetta er það, sem er undirstaða og mesta og mikilvægasta mál dagsins í dag. Það er að sameina kraftana, — ekki til að fordæma stefnuna, sem fylgt hefur verið, sem er undirstaða þess, að hægt sé að halda nú aftur fram á veginn með auknum hraða, heldur til þess að koma í veg fyrir, að eyðilagðar verði þær kjarabætur, sem verkalýður og allir launþegar fengu á þessu ári og áttu vissulega rétt á eftir að hafa sýnt verulegan skilning á nauðsyn kjaraskerðingar. En það er ekki nóg að einblína á krónutölur, það verður að athuga, hver kaupgetan er, hver kaupmátturinn er, og það gerist ekki nema með því að beita skynsamlegum aðgerðum. Ég vona þjóðarinnar allrar vegna, að það verði ábyrgðartilfinning, það verði raunhæft mat á staðreyndum, sem ráði aðgerðum manna jafnt stjórnmálamanna sem stéttasamtaka nú á næstu vikum, því að það er mikið í húfi fyrir þjóðina, og við skulum gera okkur grein fyrir því, að við getum hér algerlega ráðið okkar gæfu eða ógæfu sjálfir, það er algerlega á okkar valdi, hvort við stefnum nú fram til aukinna framfara og bættra lífskjara eða hvort við á ný lendum í feni og upplausn, óðaverðbólgu, sem eyðir þeim árangri, sem verkalýðshreyfing og launþegar hafa vonazt eftir að ná með bættri stöðu þjóðarbúsins nú á þessu ári. — Góða nótt.