21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

27. mál, skoðanakannanir

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Till. sú, sem fyrir liggur á þskj. 27, var flutt af mér á síðasta Alþ., en hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu. Allshn., sem till. var vísað til, hafði þó skilað áliti, þar sem sex af sjö nm. mæltu með samþykkt hennar, þó með einni breytingu, sem mér finnst ekki skipta máli efnislega. Ég hef að þessu sinni flutt till. eins og n. lagði til, að hún yrði, í von um, að samkomulag gæti þá orðið um hana þannig breytta.

Síðan till. þessi var flutt, hafa töluverðar umr. orðið um skoðanakannanir á opinberum vettvangi hér á landi. Eru það einkum tvær tegundir skoðanakannana, sem áhuginn hefur beinzt að, kosningaspá annars vegar og hins vegar skoðanakannanir til undirbúnings framboðum. Ég mun síðar í öðrum samböndum víkja fáum orðum að þessum atriðum hvoru um sig, en hér vil ég aðeins taka það fram, að hvoruga þessa tegund skoðanakannana hafði ég í huga, er ég flutti till., enda eru þessar skoðanakannanir að mínu áliti ekki þess eðlis, að ástæða sé til þess að óbreyttum þeim viðhorfum, sem nú eru a.m.k., að Alþ. hafi af þeim afskipti.

En jafnhliða umræðum um skoðanakannanir hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að efla lýðræðið, eins og það er orðað. Ekki skal hér farið út í það að skilgreina, hvað sé lýðræði, enda býst ég við, að í hópi svo margra æfðra stjórnmálamanna sem hér eru verði slíkt talið fánýtt, þar sem lýóræði sé glamuryrði, þannig að notkun þess þjóni ekki öðrum tilgangi en þeim að skella í eyrum áheyrenda, en merking orðsins eins og annarra glamuryrða geti verið hver sem verkast vill, ef hún sé þá nokkur. Í þessu er vafalaust sannleikskjarni, og skal ég því eftir megni sneiða hjá öllum bollaleggingum um það, hvað sé lýðræði. En hvað sem því líður, þá virðist sú skoðun eiga vaxandi fylgi að fagna, bæði hérlendis og í nágrannalöndunum, að æskilegt sé, að kannað sé, hver sé vilji almennings, áður en stjórnvöld og eftir atvikum aðrir aðilar taka ákvarðanir sínar.

Á síðasta Alþ. var, eins og hv. þm. er kunnugt, m.a. samþykkt þáltill. um athugun á því, hvort ekki væri unnt að rýmka um möguleika á því að skjóta málum undir þjóðaratkvgr. frá því, sem nú er. Ekki er að mínu áliti nema gott eitt um þetta að segja, en þjóðaratkvgr. eru kostnaðarsamar og henta ekki, nema málin liggi svo einfaldlega fyrir, að aðeins sé um tvo kosti að velja. Því hljóta þannig alltaf að verða þröng takmörk sett, hvaða málefni er hægt að bera undir þjóðaratkv. En stjórnvöld geta oft talið það æskilegt að kynna sér skoðanir og vilja almennings eða tiltekins hóps í ýmsum öðrum málum en þeim, sem henta fyrir þjóðaratkvgr., og er þá erfitt að koma auga á aðra leið en þá, að efnt sé til skoðanakannana í einni eða annarri mynd. Ef um afmarkaðan, fámennan hóp er að ræða, er hægt að hafa beint samband við hvern einstakan, t.d. með því að senda út spurningalista, og má nefna ýmis dæmi um það, að sú leið hefur verið farin. Mig minnir, að þegar ég talaði fyrir þessari till. á síðasta þingi, þá nefndi ég sem dæmi ýmsar skoðanakannanir, sem framkvæmdar hafa verið í þessa átt á vegum skólanna eða nefnda eða annarra aðila, sem um þau hafa fjallað. Leitað hefur verið t.d. álits kennara á hugsanlegum breytingum á tilhögun námsefnis o.s.frv. Í öðru lagi má beita þeirri aðferð að velja úrtak, og oft er það þetta, sem öðru fremur er haft í huga, þegar um skoðanakannanir er rætt. Ég vil þó vekja athygli á því, að hugtakið skoðanakannanir er víðtækara en svo, að endilega þurfi að vera þar átt við úrtaksrannsóknir.

Kostur þess að velja úrtak er í fyrsta lagi sá, að sé úrtakið valið eftir réttum reglum, getur lítið úrtak verið fullnægjandi til þess að gefa rétta mynd af vilja eða skoðunum fjöldans. Sem dæmi um þetta má nefna það, sem ég drap á í upphafi, að við kosningaspár, þegar þær eru gerðar, er það venjulega þessi aðferð, sem beitt er. Á s.l. sumri urðu einmitt nokkrar umræður um kosningaspárnar, gildi þeirra og réttmæti í íslenzkum blöðum. Af hálfu sumra þeirra aðila, sem í þessu tóku þátt, fannst mér gæta mikils misskilnings og ókunnugleika á því, hvað hér er um að ræða. Þar var m.a. dregin sú ályktun af því, að kosningaspár, sem gerðar voru fyrir kosningarnar í Bretlandi á s.l. vori, hefðu ekki staðizt, að þar með væri skorið úr um það, að slíkar kosningaspár væri ekki neitt að marka. Nú vildi svo vel til, að skömmu eftir kosningarnar í Bretlandi fór ég til Englands og dvaldi þar í nokkrar vikur. Um þetta var töluvert skrifað í enskum blöðum, en þar voru dregnar af þessu allt aðrar ályktanir. Í fyrsta lagi má segja, að þó að slík skekkja kunni að koma fyrir, þá væri fljótfærnislegt að draga af því þá ályktun, að ekkert sé að marka slíkar spár. Það getur, eins og við vitum, endrum og eins komið fyrir, að spár veðurstofunnar um veður standist ekki, en ekki hefur þó almennt verið dregin af slíku sú ályktun, að leggja bæri veðurþjónustuna niður. Það er mál út af fyrir sig. En í því, sem í ensku blöðunum var skrifað, var í fyrsta lagi á það bent, að tæknin við að gera slíkar kosningaspár væri komin á það stig, að þær mættu teljast nokkurn veginn nákvæmar, og var vitnað í fjölda kosninga, sem farið hefðu fram að undanförnu, þar sem þessar spár hefðu yfirleitt fullkomlega staðizt. Hér væri þó um undantekningu að ræða að vísu. En það, að spáin stóðst ekki, var skýrt á þann veg, sem nærtækt er í rauninni, að af tæknilegum ástæðum hljóti niðurstöður slíkrar skoðanakönnunar alltaf að vera nokkrum dögum á eftir. En á síðustu dögum fyrir kosningarnar ensku komu einmitt fram upplýsingar um viðskiptajöfnuð landsins. Hann var óhagstæðari en menn höfðu gert ráð fyrir, og það kom verkamannastjórninni og málflutningi hennar í opna skjöldu, þannig að taldar voru líkur á því, að þessi kosningaspá hefði verið rétt; þegar hún var gerð, þó að viðhorf í þessum efnum breyttust svo á þessum síóustu dögum. Nei, ég held, að menn séu sammála um það, að tæknin í þessum efnum sé komin á það hátt stig, að slíkar kosningaspár sé mjög mikið að marka og undantekning, ef þær standist ekki. Hitt er svo annað mál, hvort æskilegt er að gera slíkar spár, hvort þær þjóna skynsamlegum tilgangi. Um það má auðvitað deila, og mín skoðun er sú, að þó að það skaði að vísu ekki, að slíkar spár séu gerðar, þá megi þetta teljast frekar með ómerkari tegundum skoðanakannana, því að í rauninni þjóna þær þeim tilgangi einum að svala forvitni manna um það, hver úrslit kosninganna verði, áður en úrslitin liggja fyrir.

En annar kostur er líka á úrtaksaðferðinni, nefnilega sá, að sé henni beitt, fyrirbyggir sú aðferð eða a.m.k. torveldar mjög alla áróðursstarfsemi. En sú hætta er vissulega fyrir hendi, ef skoðanakannanir eru með kosningafyrirkomulagi, að þær skekkist vegna áróðurs, sem beitt er til að hafa áhrif á þátttakendur skoðanakannana. Rétt væri kannske, áður en lengra er haldið, að ég gerði aðeins í örstuttu máli grein fyrir skoðun minni á því, hver sé munur á kosningum og skoðanakönnunum.

Í stuttu máli er hann sá, að eðlilegt er að tala um kosningar, ef niðurstaða skoðanakönnunarinnar er bindandi, þannig að vald liggi þá að baki kosningafyrirkomulaginu. Um eiginlega skoðanakönnun er hins vegar að ræða, ef niðurstöðurnar eru aðeins til hliðsjónar fyrir þá aðila, sem ákvarðanirnar taka. Nú eru þessar markalínur auðvitað ekki skýrar, því að oft getur það verið þannig, að raunverulega telja þeir aðilar, sem ákvarðanirnar taka, niðurstöður skoðanakannana bindandi, þó að svo sé ekki formlega. Af þessu leiðir í rauninni, að eðlismunur á kosningum og skoðanakönnunum er lítill, þannig að telja má eðlilegt, að það séu nokkurn veginn sömu reglur, sem mundu vera látnar gilda í báðum tilvikum.

En annar kostur úrtaksathugana er fólginn í því, að sé þeirri aðferð beitt, þá torveldar það áróðursstarfsemi. Nú geta menn auðvitað um það deilt, hvort áróður beri að telja af því góða eða því illa. En það er nú þannig með allan áróður gagnstætt hlutlausum upplýsingum, sem kunna að vera gefnar og vissulega eru leiðbeinandi fyrir þá, sem láta skoðun sína í ljós, og ekki nema gott eitt um það að segja, að áróðurinn er, jafnvel þó að rekinn sé með tiltölulega heiðarlegum hætti, einhliða og villandi og því æskilegt, að honum sé haldið í skefjum. Í öðru lagi má á það benda, að fram hjá því verður ekki komizt, að allur skipulagður áróður kostar fé og skapar því sérstaka aðstöðu þeim til handa, sem geta og vilja beita fjármunum til þess að hafa áhrif á niðurstöður skoðanakannana sér í vil, og sama á í rauninni við um kosningar. Það var a.m.k. skoðun forfeðra okkar, að það væri að hafa rangt við í spilinu að bera fé í dóminn, eins og þeir orðuðu það. Og þó að ég telji mig að vísu ekki neinn sérfræðing um þau efni, sem hér eru til umr., þá held ég, að ég megi fullyrða það, að skoðun vísindanna á þessum efnum er sú sama og forfeðra okkar, að það skekki niðurstöðuna, ef tækifæri er gefið til þess að bera þannig fé í dóminn.

Það eru slíkar skoðanakannanir á vegum stjórnvalda, sem óska að kynna sér vilja almennings og hafa hann til hliðsjónar, þegar ákvarðanir eru teknar, sem ég hef hér fyrst og fremst í huga. En einkaaðilar geta auðvitað líka haft áhuga á skoðanakönnunum, og gætu þeim komið að gagni niðurstöður þeirrar athugunar, sem hér er lagt til, að gerð verði. Fyrirtæki geta t.d. haft áhuga á því að kynna sér smekk og viðhorf viðskiptavina sinna, fjölmiðlar á því að kynna sér viðhorf almennings til dægurmála, sem ofarlega eru á baugi hverju sinni, o.s.frv. Þá má og nefna það, sem ég drap á í upphafi og veitt hefur verið mikil athygli hér á landi að undanförnu, en það eru prófkjör og skoðanakannanir fyrir framboð á vegum stjórnmálaflokkanna. Fyrirmyndin er bandarísk, eins og kunnugt er, og þar í landi þykir sjálfsagt, að rekin sé áróðursstarfsemi í sambandi við slíkar kosningar á svipaðan hátt og ef um almennar kosningar væri að ræða, þannig að enginn býður sig fram við slík prófkjör, nema hann eða stuðningsmenn hans hafi yfir miklu fjármagni að ráða til þess að leggja í kosningabaráttu. Að taka þátt í slíkri baráttu án þess að geta lagt slíka fjármuni fram, væri jafnfráleitt og að ætla sér að taka þátt í skíðakeppni án skíða og skíðaútbúnaðar.

Nú er auðvitað ekki svo að skilja, að fólki sé beinlínis mútað til þess að kjósa tiltekinn frambjóðanda. Leynilegar kosningar útiloka slíkt, því að ef kosningar eru leynilegar, þá er aldrei hægt að tryggja það, að við gefin loforð í því efni verði staðið, það er mér fyllilega ljóst.

En hitt er ekki álitamál, eins og ég áðan sagði, að allur skipulagður áróður kostar fé, hvort sem hann er í mynd blaðaútgáfu, fundahalda eða þeirri, að menn eru gerðir út á vinnustaði eða aðra staði, þar sem fólk kemur saman, til þess að bera lof á kandidatinn og segja misjafna hluti, sanna eða ósanna eftir atvikum, um keppinautana. Þeir lítilþægari láta sér kannske stundum nægja þá umbun að fá veitingar í föstu eða fljótandi eftir atvikum, en aðrir kunna að ætlast í því efni til fleira, og veitingarnar kosta líka peninga, ef það er fjölmennur hópur, sem hlut á að máli, undir öllum kringumstæðum. Eins og ég þó þegar hef sagt, er það auðvitað mál stjórnmálaflokkanna, hvaða starfsreglum þeir fylgja í þessu efni, og að mínu áliti utan verkahrings Alþingis að hafa áhrif þar á. Þó mundi það auðvitað breyta viðhorfum í þessum efnum, ef farið væri inn á þá braut, að flokkarnir yrðu styrktir af almannafé, og í rauninni má segja, að inn á hana hafi þegar verið farið með styrkjum til dagblaða. Hugmyndir eru uppi um það, og má vissulega færa fyrir því viss rök, að til þess að skapa flokkunum jafnréttisaðstöðu til þess að túlka málstað sinn fyrir kjósendum, geti komið til greina og jafnvel verið eðlilegt, að starfsemi þeirra sé styrkt af almannafé. En ef svo er, væri ekki óeðlilegt, að Alþ. gerði það a.m.k. að skilyrði fyrir styrkveitingum, að flokkarnir fylgdu starfsreglum, sem væru í samræmi við skoðanir meiri hluta Alþingis á því, hvað væru réttar starfsaðferðir í samskiptum manna á milli. Þetta mál kemur e.t.v. síðar fyrir Alþ. í einni eða annarri mynd. Mér skilst, að á nýafstöðnu flokksþingi eins stjórnmálaflokksins hafi verið samþykkt að beita sér fyrir því, að Alþ. setji löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna, og kann það mál þá að koma upp að nýju.

En hvað sem þessu líður, og þó að það sé auðvitað mál flokkanna að ákveða starfsreglur sínar, þá á það sama við um þá og aðra einkaaðila, sem ég nefndi, að óski þeir að nýta reglur skoðanakannana bæði við val frambjóðenda og til þess að kynna sér vilja flokksmanna í öðrum efnum, gæti niðurstaóa þeirrar athugunar, sem hér um ræðir, komið að miklu gagni. Ef flokkarnir óska t.d. að fá fram vilja flokksmanna sinna eða stuðningsmanna, eins og hann kæmi fram, ef þeir beittu dómgreindinni óbrjálaðri af áhrifum áróðurs, þá væri t.d. úrtaksathugun ein þeirra leiða, sem til greina kæmi. Ef úrtaksathugunin er t.d., svo að dæmi sé nefnt af handahófi, framkvæmd á þann hátt, að aðeins þeir, sem fæddir eru í júlímánuði, eru látnir taka þátt í skoðanakönnuninni, þá mundi það þýða, að 11/12 af þeim fjármunum, sem lagðir væru í áróður, væri kastað á glæ, því að auðvitað fær enginn að vita um það, hvernig úrtakið er valið, þannig að a.m.k. við okkar aðstæður, þar sem það er þó undantekning, að menn hafi peninga alveg eins og vatn, — við þekkjum það ekki, sem til mun vera í Bandaríkjunum, að í fínum samkvæmum eru 10 dollara seðlar notaðir sem sígarettukveikjarar, í þeim tilvikum mundi þetta kannske ekki vera hemill, en miðað við okkar aðstæður hlyti þetta undir öllum kringumstæðum að draga mjög úr allri áróðursstarfsemi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til tiltölulega ítarlegrar grg. minnar fyrir þáltill., sem í rauninni er tekin að mestu óbreytt frá því, er ég flutti málið á síðasta þingi. Ég vil svo að lokum leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn.