05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

50. mál, hitun húsa með raforku

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að í fyrri hl. þessarar till. felst stórmál. Fyrri hl. till. fjallar um það, að Nd. Alþ. álykti að skora á iðnrh. að beita sér fyrir aukinni notkun raforku til húsahitunar á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa.

Það er að vísu augljóst mál, að ef raforka yrði almennt notuð til upphitunar húsa á Íslandi, þar sem jarðhitanotkun verður ekki við komið, þá þyrfti vafalaust til þess margföldun á raforkuframleiðslu í landinu. Það þyrfti að ráðast í stórvirkjanir til þess. En verulegur hluti af öllum virkjunarkostnaði við raforku liggur í dreifikerfunum, og dreifikerfin eru komin um flestar byggðir okkar lands og að því stefnt að tengja dreifikerfin svo saman, að þau myndi eina samfellda heild. Og fjarri því marki, mjög fjarri því marki erum við ekki. Það er búið að leggja of fjár í dreifikerfin í landinu, en svo eru þau út um hinar dreifðu byggðir aðeins notuð til lýsingar og ýmiss konar annarrar notkunar, en í fæstum tilfellum til hitunar á húsunum, sem víðast hvar mætti gera jafnframt, meðan orkan endist a.m.k., án þess að auka virkjunarkostnað, því að dreifikerfin eru fyrir hendi. En þau eru ekki fullnýtt og fram hjá því gengið að nota dreifikerfið til þessarar mikilsverðu notkunar. Mér sýnist því, að þó að ekki yrði framkvæmd á þessari till. að öðru leyti en því, sem raforka er fyrir hendi í landinu, þá væri það strax betri nýting á því mikla fjármagni, sem liggur í dreifikerfunum. Auk þess mundi þessi lausn á upphitun húsanna spara geysilega mikið fjármagn, erlendan gjaldeyri, vegna sparnaðar á innkaupum á brennsluolíum. En ekki nóg með það. Það kostar okkur ærið fé að koma hinum erlenda orkugjafa, olíunni, út um byggðir landsins. Um vegi okkar vaða olíubílar frá þremur olíufélögum og gera óskaplegan usla í vegakerfi okkar vor og haust, þegar vegir okkar eru í versta ástandi. Þegar drekarnir koma, margra tonna þungir olíuflutningabílar frá Esso, BP og Shell, stundum í halarófu, þá skilja þeir eftir gereyðilagða vegi. Og það kostar ekki lítið fé að bæta þau stórkostlegu vegaspjöll, sem af þessu leiðir. Að þessu leyti yrði vegakerfinu hlíft við stórkostlegum spjöllum árlega, ef raforkan væri notuð til húsahitunar úti um hinar dreifðu byggðir landsins.

Ég held, að það sé stórkostlegt hagsmunamál fyrir okkur að gefa gaum þessari till. og hafa áhrif á það, að stjórn raforkumálanna fallist á, að það beri að nota raforkuna í ríkari mæli en verið hefur til upphitunar á húsum okkar og nýta þannig betur það ofmagn fjár, sem liggur í dreifikerfunum, og spara okkur erlendan gjaldeyri og draga úr stórspjöllum á vegakerfi landsins vegna flutninganna á olíu til húsahitunar út á yztu hjara okkar lands. Ég tel þessa till. stórmál og vil vænta þess, að hæstv. iðnrh. láti rannsaka málið gaumgæfilega og láti framkvæmdir fylgja, að svo miklu leyti sem við höfum nú þegar raforku til ráðstöfunar til þess að fullnægja þessari brýnu þörf, sem að mörgu leyti mundi aðeins vera betri nýting á því fjármagni, sem þegar hefur verið varið til raforkumálanna. Ég tel svo mjög athugandi, hvort ekki sé eins hagkvæmt fyrir okkur að ráðast í stórvirkjanir með upphitun húsa á Íslandi fyrir augum sem aðalmarkað rafmagnsins og t.d. í ýmiss konar stóriðjuáætlanir, sem ná því aðeins fram að ganga, að við seljum raforkuna mjög ódýrt.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þessa till., en lýsi eindregnum stuðningi mínum við hana og vænti þess, að henni verði fylgt eins fast eftir til framkvæmda og ýtrustu möguleikar eru til.