05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

50. mál, hitun húsa með raforku

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með öðrum þm. og lýst yfir ánægju minni yfir því, að þessi þáltill. er hér flutt um þetta mál. Ég vil aðeins minna á það í þessu efni, að nú eru liðin allmörg ár síðan við þm. Alþb. í þessari deild fluttum till. um sama efni með mjög ítarlegum rökstuðningi, þar sem rök voru leidd að því, að við ættum að notfæra okkur rafmagn til húshitunar í miklu ríkari mæli en gert hefur verið hér á landi. En auðvitað fór þannig fyrir þeirri till., sem þá var hét flutt, af því að hún var flutt af stjórnarandstöðunni, að hún komst aðeins til n. og ekki lengra. Nú virðist málið vera komið á það stig, að þm. Sjálfstfl., þeir, sem stutt hafa raforkumrh. um langan tíma, sjá, að það er nauðsynlegt að hefjast handa í þessum efnum, og þá ætti þó a.m.k. að vera kominn tími til þess að láta fara fram þessa athugun, sem hér er lögð til.

Ég tek fyllilega undir það, sem hér hefur verið sagt í sambandi við þetta mál, og það, sem fram kemur í till. og grg. Ég efast ekkert um, að það mundi verða okkur miklum mun hagkvæmara, þjóðhagslega á málið litið, að auka stórlega frá því sem nú er upphitun húsa í landinu með raforku og jafnvel að ráðast hreinlega í virkjanir í vissum tilvikum til þess að geta innt þessa þjónustu af hendi. Sem sagt, ég vona það, að þegar málið er nú komið á þetta stíg, þá verði úr því, að það verði gerð ítarleg athugun á þessu máli með það í huga að ráðast síðan í framkvæmdir. Ég efast ekkert um það, að þegar svo er komið, að flokksmenn hæstv. raforkumrh. hafa nú ýtt á eftir málinu, þá hlýtur að vera kominn tími til þess að framkvæma þessa rannsókn, og ég fagna því tillögunni.