05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

50. mál, hitun húsa með raforku

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja fundartímann og allra sízt í deilur um mál, sem allir virðast vera sammála um. En það er nokkur misskilningur hjá hv. 9. þm. Reykv., að við höfum svo mikið línukerfi, að ef við hefðum raforkuna, þá værum við nokkuð vel stæðir við upphitunina, því að flestar af þessum línum eru of veikar til upphitunar á húsum. Það kemur t.d. fram hjá flm. till. núna í sambandi við raflögn til Vestmannaeyja, sem útbýtt var í dag, að þeir hafa þurft að sækja um skömmtun, vegna þess að línan ber ekki þá orku, það afl, sem þarf að nota til þessara þarfa. Þetta kemur nú aftur til rannsóknar, en svo er það einnig, að þó að fluttar hafi verið till. hér áður fyrr á þingi og fyrir mörgum árum, þá fleygir auðvitað fram tækni á þessu sviði og þá ekki sízt í sambandi við flutning á raforku, sem er framkvæmanlegri í dag en fyrir mörgum árum.

Mér fannst alveg óþarfi fyrir hv. 4. þm. Austf. að gera ráð fyrir því, að þó að stjórnarþingmenn væru að flytja málin, þá mætti búast við, að þau gengju fremur fram en þegar stjórnarandstaðan flytur málin. Ég vil segja það að gefnu tilefni, að ég vil eindregið skora á nefndirnar, sem fengið hafa mál frá stjórnarandstöðunni til meðferðar og koma til með að fá þau til meðferðar á næstu dögum, um áskorun til ríkisstj. að gera hitt og þetta, sem ríkisstj. var búin að lýsa yfir strax í upphafi þings, að hún væri að vinna að, að afgreiða í öllum guðanna bænum þessi mál frá sér og vera ekki að eyða tíma þingsins í að hafa slík mál lengi til meðferðar, því að það ætti að vera vandalaust að afgreiða slík mál á venjulegan þingmáta með rökstuddri dagskrá. Það þarf ekki að skora á ríkisstj. að gera eitthvað eða vinna að einhverju máli, sem hún er sjálf búin að lýsa yfir, að hún sé að vinna að.